Ragnar Edvaldsson: „Ef hafið er ekki tekið með í reikninginn í fornleifa- og sögurannsóknum er líklegt að við fáum ekki rétta mynd af sögu þjóðarinnar.“
Ragnar Edvaldsson: „Ef hafið er ekki tekið með í reikninginn í fornleifa- og sögurannsóknum er líklegt að við fáum ekki rétta mynd af sögu þjóðarinnar.“
Mynd / Aðsend
Líf og starf 12. nóvember 2025

Leita íslenskra handrita á hafsbotni

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fornleifafræðingar undirbúa nú leit að skipi á hafsbotninum vestan við Langanes í því augnamiði að endurheimta dýrmæt íslensk handrit.

Svokallað Höfðaskip fórst í vonskuveðri úti fyrir Langanesi árið 1682, með allri áhöfn og dýrmætan farm, m.a. íslensk handrit. Með skipinu var Hannes Þorleifsson handritasafnari og var á leið með þau og fleiri gripi til Kaupmannahafnar til að afhenda Danakonungi.

Steinunn Kristjánsdóttir: „Sögur segja að aldrei hafi jafndýrmætur varningur farist við Íslandsstrendur.“ Mynd / Aðsend

Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, leiðir rannsóknina og kemur dr. Ragnar Edvardsson, neðansjávarfornleifafræðingur og rannsóknadósent hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, jafnframt að verkefninu auk fornleifafræðinema. Þá hefur Landhelgisgæslan slegist í hópinn en starfsfólk þaðan mun aðstoða við mælingar neðansjávar og lána tæki til þess. Ragnar á líka tækjabúnað til leitarinnar sem hann notar.

Leit í sjó hafin í vor

„Rannsóknarverkefnið tengist uppgrefti okkar á Þingeyraklaustri í Húnaþingi en hann miðar að því að skoða handritagerð í því. Ég leiði þann uppgröft og því þetta verkefni líka,“ útskýrir Steinunn, aðspurð um hvernig handritaleitin á hafsbotni kom til.

Rannsóknir munu fara fram í sjónum við vestanvert Langanes. Miðað er við þriggja ára tímalínu og fóru samantekt á heimildum, viðtöl við heimafólk og annar undirbúningur fram í fyrra. Í ár hafa leitarsvæði verið afmörkuð og á næsta ári fer fram leit neðansjávar.

„Vitað er að skipið sem við erum að leita að flakinu af sökk við vestanvert Langanes. Ragnar hefur staðsett það enn betur en hann er búinn að kortleggja alla skipsskaða við landið. Mikilvægt er í þessu sambandi að hafa í huga að flest skip sökkva stutt frá landi. Samtöl við heimafólk hafa líka skipt máli. Ragnar er búinn að teikna upp leitarsvæðin og gera kort,“ segir Steinunn.

Kort Ragnars af fyrirhuguðum leitarsvæðum fyrir Höfðaskipið. Svæðin eru merkt til aðgreiningar og verður sónarleit framkvæmd á þeim á kerfisbundinn hátt. Komi ekkert í ljós á svæðum A, B og C verður leitin færð utar. Kort / Ragnar Edvaldsson.

Sérlega dýrmætur varningur

Hún segir vitað að Hannes Þorleifsson, konunglegur handritasafnari og forveri Árna Magnússonar sem einnig vann að handritasöfnun fyrir Danakonung, var um borð í Höfðaskipi þegar það fórst en hann var þá á leið með handrit og forngripi til Danmerkur.

„Sögur segja að aldrei hafi jafndýrmætur varningur farist við Íslandsstrendur og margir hafa reynt að giska á hvað var þarna um borð. Talið er víst að eintak af Sturlungu hafi verið þar með en móðir Hannesar átti þannig eintak sem er glatað. Hún bjó á Þingeyrum ásamt Þorleifi manni sínum. Því má telja líklegt að Hannes hafi verið með bækur frá Þingeyrum/ Þingeyraklaustri og ef til vill víðar frá Norðurlandi eða landinu öllu. Ekkert er vitað um gripina sem hann safnaði, hvaðan þeir komu og hverju var safnað,“ segir Steinunn jafnframt.

Mögulegt sé að skinnhandritin hafi varðveist vegna saltsins en þannig geti skinn varðveist líkt og í pækli. Meiri óvissa sé hins vegar um gripina.

„Handrit og gripir voru flutt í koffortum eða kistum. Ef kisturnar hafa brotnað þegar skipið sökk eru minni líkur á að nokkuð finnist,“ bætir hún við.

„Vitað er að mikið af skinnhandritum hafa glatast í tímans rás. Það væri mikill fengur að finna einhver þeirra en þarna er líklegur staður. Eins yrði það áfangi ef tækist að staðsetja þetta flak af Höfðaskipi, að vita hvar það sökk og jafnvel kanna hvernig það gerðist,“ segir Steinunn enn fremur.

Stefnt er að því að þau Ragnar fari með Landhelgisgæslunni austur í vor, 2026. Það stóð til í haust en náðist ekki vegna veðurs. Leitin á hafsbotni miðast fyrst og fremst að því að staðsetja skipsflakið. Takist það verður staðan metin upp á nýtt.

Leitin á hafsbotni næsta vor miðast fyrst og fremst að því að staðsetja skipsflakið. Mynd / HÍ

Neðansjávarminjar afskiptar

Ragnar hefur verið með rannsóknarverkefni í gangi sem miðar meðal annars að því að fá hugmynd um fjölda og varðveislu neðansjávarminja við landið. Hann segir verkefnið tvískipt.

„Fyrri hluti þess er að safna saman úr íslenskum ritheimildum upplýsingum um skipskaða við landið frá landnámi og fram á daginn í dag. Hingað til hef ég safnað heimildum um 1.150 skipskaða og þeim á eflaust eftir að fjölga, þar sem ég er enn ekki búinn að fara yfir allar heimildir. Seinni hluti þessa verkefnis er að leita að og staðsetja valin skipsflök, byggt á heimildavinnunni, í þeim tilgangi að kanna ástand, varðveislu þeirra og gera frum-fornleifarannsókn á þeim,“ útskýrir Ragnar.

Meginástæða þess að hann hafi farið í þessa vinnu sé að neðansjávarminjar séu alveg afskiptar í íslenskri fornleifafræði.

„Öll menning okkar og saga er nátengd hafinu og nýtingu sjávarauðlinda. Við megum heldur ekki gleyma að margar þjóðir eiga menningarleg tengsl á Íslandsmið og að sögu fiskiþorpa og verslunarstaða í löndum eins og Frakklandi, Englandi, Hollandi og fleiri löndum, er einnig að finna á Íslandsmiðum. Stór hluti sögu Íslendinga og jafnvel margra Evrópulanda, býr í hafinu í kringum landið og ef hafið er ekki tekið með í reikninginn í fornleifaog sögurannsóknum er líklegt að við fáum ekki rétta mynd af sögu þjóðarinnar,“ segir hann einnig.

Steinunn á Sjöundá næst

Steinunn er að ljúka umsvifamiklu verkefni sem hófst fyrir þremur árum og snýst um samspil manns og náttúru. „Í því skoðum við hvernig og hvaða auðlindir voru nýttar til handritagerðar í Þingeyraklaustri og í klæði í Kirkjubæjarklaustri. Skinnhandritin eru flest eða öll gerð úr kálfskinnum, yfir 100 skinn hver bók, en einnig voru selskinn notuð í kápur. Litir voru flestir innfluttir og sennilega blek líka. Klæðin voru aftur á móti gerð úr ull en þó aðallega innfluttu líni, eins og litirnir sem voru líka innfluttir. Þessi framleiðsla krafðist mikils skepnuhalds (kindur, kýr og kálfar) en við erum að skoða tengsl þessa alls við náttúruna,“ upplýsir Steinunn.

Verkefninu ljúki með ritstýrðri bók þar sem fjöldi sérfræðinga skrifi kafla sem tengjast þeirra fræðasviði (fornleifafræði, handritafræði, sagnfræði, umhverfisfræði, mannabeinafræði, vistfræði og fleira) en bókin muni samt hverfast um þetta þema; samspil manns og náttúru. „Vinna að bókinni er komin vel á veg en við reiknum með útgáfu haustið 2026. Brepols mun gefa hana út. Eins er ég að vinna að annarri bók sem ég ætla að taka mér nokkur ár í að skrifa. Hún á að fjalla um Steinunni sem kennd er við Sjöundá á Rauðasandi. Háskólaútgáfan gaf út bók eftir mig um Bjarna frá Sjöundá síðastliðið haust en þau Steinunn voru jú dæmd til dauða fyrir morð. Bókin um Bjarna er sumsé komin en nú er kominn tími á að Steinunn leysi frá skjóðunni,“ segir hún að endingu.

Skylt efni: fornleifar

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...