Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Land(búnaður) tækifæranna
Mynd / John Wayne Hill
Af vettvangi Bændasamtakana 24. október 2024

Land(búnaður) tækifæranna

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Bændaforystan heilsar nóvembermánuði full tilhlökkunar.

Trausti Hjálmarsson.

Í fyrsta lagi er hringferð Bændasamtakanna fram undan og er dagskrá hennar kynnt í auglýsingu hér í blaðinu undir heitinu Á grænu ljósi landbúnaðarins. Vonandi er að allir fjórtán fundirnir verði vel sóttir og skoðanaskiptin hreinskiptin og lífleg. Í öðru lagi erum við svo allt í einu að detta inn í alþingiskosningamánuð með öllu því umræðufjöri sem tilheyrir.

Við munum að sjálfsögðu gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma helstu hagsmuna- og baráttumálum landbúnaðarins inn í pólitísku umræðuna í aðdraganda kosninganna. Í þessu Bændablaði má finna auglýsingu þar sem við drögum upp stóru myndina af helstu áhersluatriðum okkar í umræðunum um landbúnað. Þar látum við í ljós þá von að einhver þeirra, t.d. afkoma bænda, verði að kosningamáli, áherslumáli í stjórnarmyndunarviðræðum og forgangsmáli nýrra valdhafa.

Vel kann að vera að það séu háleit og bjartsýn markmið og þá ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að þau eru ólíkleg til að verða að pólitískum bitbeinum. Til þess er samstaðan og einhugurinn á bak við mikilvægi og tilvistargrundvöll íslenska landbúnaðarins einfaldlega of mikill. Það er hins vegar ekki hægt að ganga að áframhaldandi lífi hans vísu nema utan um hann sé tekið. Þess vegna er mikilvægt að aðalatriðin okkar drífi a.m.k. alla leið til frambjóðenda og fjölmiðlafólks í komandi umfjöllun, umræðu og kappræðum sem kosningunum fylgja. Þá er tilganginum náð.

Sum þessara ellefu atriða sem við tilgreinum í auglýsingunni eru samt svo brýn að þau beinlínis verða að komast af umræðustiginu eingöngu yfir í að vera hrint í framkvæmd. Þar á ég í fyrsta lagi við vandann sem við okkur blasir og þarf að leysa. Í öðru lagi hef ég svo í huga tækifærin sem bíða okkar í bunkum handan við hornið. Mikilvægt er að grípa þær bústnu gæsir á meðan þær gefast. Auðvitað er sú staðreynd að auki mikilvæg að við höfum um þessar mundir einstakt tækifæri til þess að slá tvær flugur í einu höggi: Ráðast að rót vandans í næstu búvörusamningum og fjárfesta um leið í sóknarfærum sem án nokkurs vafa geta fært íslensku samfélagi stóraukna framlegð úr landbúnaðargeiranum.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að á bændafundunum munu þessar áherslur okkar skerpast enn frekar. Veganestið sem við munum taka með okkur verður svo nýtt gagnvart þeim þingmönnum og frambjóðendum sem hafa tök á að mæta til fundanna þar sem við bjóðum hverjum flokki fyrir sig að heimsækja okkur í bækistöðvar Bændasamtakanna í Borgartúni. Á þessum fundum er mikilvægt fyrir okkur að geta stutt málflutning okkar með vísan í fjölmenna og góða bændafundi og ekki síður að hafa frá þeim skýr skilaboð um áhersluatriði okkar og framtíðarsýn.

Þegar alþingiskosningar skjóta upp kollinum með sex vikna fyrirvara þarf að bregðast hratt við á ýmsum vígstöðvum. Eðlilega er pressan mest á stjórnmálaflokkunum sem nánast þurfa að manna listana sína á hraða ljóssins, meitla áherslur sínar í snarhasti og kynna þær fyrir landsmönnum á örfáum dögum. Fyrir haghafa sem vilja hafa sjónarmið sín með í umræðunni er þörfin fyrir skjót viðbrögð ekki síðri. Bændasamtökin eru þar á meðal. Okkur finnst löngu kominn tími til að brýn málefni landbúnaðarins fái pláss í kosningaumræðunni. Þess vegna tökum við forskot á sæluna, pökkum aðalatriðunum inn í handhægar umbúðir fyrir pólitíkina og tökum þau samtímis til umræðu á bændafundunum til þess að meitla þau enn frekar.

Þessi samantekt okkar á aðalatriðunum er langt í frá einhliða kröfugerð gagnvart stjórnvöldum. Sumt má miklu fremur flokkast sem tilmæli um gagnkvæman skilning sem vissulega gæti svo skipt máli þegar við setjumst niður með nýjum valdhöfum til þess að ræða m.a. um búvörusamningana sem bíða okkar á næsta ári. Þar á meðal má nefna afdráttarlaust lykilhlutverk öflugrar landbúnaðarframleiðslu í fæðuöryggi þjóðarinnar, kjölfestuframlag okkar til þjóðarframleiðslunnar, menntun og rannsóknir á sviði landbúnaðar, mikilvægi upprunamerkinga, lofts- lagsvegvísi Bændasamtakanna o.m.fl.

En í þessum aðalatriðum eru líka brýnni mál. Aðsteðjandi vandi sem vonlaust er að setja á biðlista eftir lækningu. Þar er afkoma og öryggi bænda vitaskuld í algjörum forgangi. Rekstrarumhverfi okkar er vægast sagt erfitt enda þótt segja megi að þokast hafi í rétta átt. Nauðsyn mun betri aðstæðna fyrir nýliðun og kynslóðaskipti í bændastéttinni er sömuleiðis gerð að umtalsefni í þessari upptalningu okkar. Það er verkefni nýrra búvörusamninga að færa þessi atriði til betri vegar og sömuleiðis verður að sjást í þeim skilningur stjórnvalda á nauðsyn tollverndar til samræmis við nágrannaþjóðir okkar.

Við höfum löngum litið á Ísland sem land tækifæranna. Undir það get ég tekið heilshugar. Og að undanförnu hefur sérstaklega runnið upp það ljós fyrir fólki að landbúnaðurinn eigi sér ótal tækifæri til glæstrar sóknar. Þetta græna ljós landbúnaðarins á ýmsum vígstöðvum verður okkur eflaust að yrkisefni á bændafundunum sem fram undan eru og ekki síður í samtölum okkar við stjórnmálaflokkana sem nú setja sig í stellingar fyrir kosningarnar í lok nóvember. Það kann að þykja bjartsýnt af hálfu formanns Bændasamtakanna en ég el mér samt þá von í brjósti að tækifærin sem landbúnaðurinn – og um leið íslenskt samfélag eins og það leggur sig – stendur frammi fyrir komist hraustlega á dagskrá í samtalinu sem fram undan er.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...