Landbúnaðarminjar og þekking bænda
Flestar bújarðir á Íslandi hafa verið í byggð frá því um eða skömmu eftir landnám og eiga sér því meira en 1.100 ára sögu. Allar geyma þær minjar af ýmsu tagi. Sumar eru sýnilegar á yfirborði en aðrar liggja djúpt í jörðu, huldar uppsöfnuðum jarðvegi eða yngri mannvirkjum sem hafa verið reist hvað eftir annað á sama stað – staflar af torfi, grjóti og mannvistarlögum. Mjög oft leynast líka minjar undir yfirborði á svæðum sem hafa fyrir löngu verið sléttuð undir tún. Langflestar minjar sem sjást vel á yfirborði eru frá 19.–20. öld en þó eru víða dæmi um minjar frá fyrstu tíð sem blasa við ef vel er að gáð. Þetta veltur þó á ýmsu, t.d. gróðurfari og uppsöfnun jarðvegs á hverju svæði fyrir sig. Þannig geta landnámsminjar á Vestfjörðum og á Norðurlandi, þar sem uppsöfnun er lítil, verið vel sýnilegar, næstum eins og síðasti íbúinn hafi rétt brugðið sér frá, á meðan slík mannvirki í Skaftafellssýslum kunna að vera grafin djúpt undir aldalöngu áfoki og gjóskulögum frá nálægum eldstöðvum. Á enn öðrum svæðum, þar sem uppblástur hefur verið mikill, eru aðeins grjótdreifar eftir á gróðursnauðu yfirborði, t.d. víða í uppsveitum Árnes- og Rangárvallasýslu.
Það er óhætt að fullyrða að fornleifar séu gjöfulustu heimildir um landbúnað og landnytjar á Íslandi sem völ er á. Á svo til hverri einustu jörð leynast leifar af t.d. fornum öskuhaugum, fjósum, fjárhúsum, hesthúsum, kvíum, túngörðum, fjárborgum, stekkjum, nátthögum, áveitum, seljum, smalakofum, vörðum, mógröfum og alls konar garðlögum svo eitthvað sé nefnt. Hluti þessara minja er þekktur úr fornleifaskráningu síðustu ára og áratuga en margt liggur enn óskráð og óþekkt. Þegar fornleifafræðingar eða aðrir áhugasamir leita upplýsinga um minjastaði getur verið úr vöndu að ráða. Heimildir af ýmsu tagi eru til sem vísa á eða gefa a.m.k. vísbendingar um sumt, t.d. jarðabækur, gömul kort, loftmyndir og örnefnalýsingar sem geyma ekki aðeins upplýsingar um örnefni heldur býsna nákvæmar lýsingar á hverri jörð. Til að fá upplýsingar um minjar er þó oft gjöfult að treysta á minni bænda og tengsl þeirra við landslagið. Bændur hafa oft verið kallaðir vörslumenn landsins, sérstaklega í samhengi við varðveislu landgæða af einhverju tagi, landgræðslu, beitarmál o.þ.h. En það má líka færa rök fyrir því að bændur séu vörslumenn í samhengi minja, enda þekkja þeir yfirleitt landið sitt betur en nokkur annar, búa yfir sögum sem hafa aldrei verið skráðar, kunna skil á örnefnum á hverri þúfu, vita hvar grjóthleðslur leynast ofan eða neðan jarðar o.s.frv. Fáar starfsstéttir hafa sögu sinnar greinar jafn greypta í landslagið sem þær lifa og hrærast í eins og bændur.
Landbúnaðarminjar geta verið vísbendingar um margt sem varðar framleiðslu og áherslur í búskap: um ræktun, skepnuhald, fóðrun, beitarskipulag og ferðir manna milli staða innan jarða svo eitthvað sé nefnt. Allt hefur þetta beina tengingu við samfélagið á hverjum tíma. Þar fyrir utan geta einstakir minjastaðir dýpkað tengsl fólks við landið. Saga þjóðarinnar er ekki aðeins skráð í bækur, heldur líka í landslagið, en stundum með óræðu eða útmáðu letri og aðeins lítill hluti þessa óræða leturs, ef svo má segja, hefur enn verið lesinn eða túlkaður. Víða er minjum og menningarlandslagi ógnað af framkvæmdum í nútímanum: Byggingum af ýmsu tagi, vegagerð, virkjanaframkvæmdum og skógrækt svo eitthvað sé nefnt. Hér gegna bændur lykilhlutverki sem vörslumenn minja ekki síður en lands. Þekking þeirra, innsýn og ábyrgð getur skipt sköpum þegar kemur að því að varðveita dýrmæta sögu og tengsl við landslagið fyrir framtíðina. Þess ber að geta að allar fornleifar, þ.e. mannaverk 100 ára og eldri, eru friðaðar með lögum og Minjastofnun Íslands fer með umsýslu þeirra.
