Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Lækjartún 2 / Tyrfingsstaðir
Bóndinn 10. febrúar 2022

Lækjartún 2 / Tyrfingsstaðir

Tyrfingur Sveinsson og Hulda Brynjólfsdóttir tóku við búskap í Lækjartúni af foreldrum Tyrfings sumarið 2011.

„Við búum á nýbýlinu Tyrfingsstöðum sem er byggt í einu túninu, en búskapurinn er allur í Lækjartúni. Unnið hefur verið markvisst að uppbyggingu á húsum, ræktun og framleiðslu síðan og stefnt með öllum ráðum að því að verða sjálfbær og vistvæn í okkar framleiðslu. Að búa í sátt við jörðina og rækta í samvinnu við náttúrulögmálin er eitthvað sem við erum að kynna okkur og byrjuð að vinna eftir. Við byrjuðum  með 50 kindur og sex holdakýr og á fyrstu tveimur árum var fénu fjölgað að 300 ám sem var svo fækkað aftur, en kúahjörðin stækkar jafnt og þétt og nú bera um 30 kýr á hverju ári hjá okkur. Árið 2017 byrjuðum við með Uppspuna sem er smáspunaverksmiðja og þar vinna nú 5 manns,“ segja þau.

Býli: Lækjartún 2, / Tyrfingsstaðir, Ásahreppi. 

Staðsett í sveit:  Lækjartún stendur rétt austan við Þjórsárbrú í Rangárvallasýslu.

Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson.

Ábúendur: Tyrfingur Sveinsson og Hulda Brynjólfsdóttir.

Fjölskyldustærð (og gæludýra): Það er breytilegt eftir árstímum, en Tyrfingur og Hulda eru hér allt árið og hundurinn Dimma og gullfiskurinn Kobbi, en auk þess eiga hér lögheimili; Agnes Fríða, Anna Guðrún, Guðlaugur, Þráinn og Janneke, sem eru flest við nám og/eða vinnu annars staðar yfir veturinn.

Á sumrin bætast síðan oft við vinnumenn á ýmsum aldri og verknemar.

Stærð jarðar?  200 hektarar sem er allt ræktanlegt land, ýmist móa- eða mýrarjarðvegur. Um 60 ha eru ræktuð tún mest í móahluta land­sins og allt landið er nýtt til beitar. Skjólbeltaræktun má sjá í smáum stíl hér og þar og stendur til að fjölga þeim eitthvað.

Gerð bús? Holdanaut og sauðfjárrækt eru helstu búgreinarnar sem eru stundaðar á bænum, en auk þess rekum við viðgerðarverkstæði og smáspunaverksmiðju. Við ræktum einnig bygg til að fóðra nautin og hænurnar njóta góðs af því. 

Fjöldi búfjár og tegundir? 160 fjár – allar kollóttar og u.þ.b. 20 eru af feldfjárkyni, 60 nautgripir – allt holdablendingar og næsta sumar byrjum við að blanda það með nýja erfðaefninu frá Noregi, 4 geitur, allar hyrndar, 17 landnámshænur og 14 hross.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Allir dagar byrja á að sinna dýrunum, hvar Dimma og Kobbi fá fyrstu afgreiðslu en síðan þau dýr sem eru stærri. Hulda fer síðan í spunaverksmiðjuna (Uppspuna) og vinnur þar fram eftir degi með sínu starfsfólki og Tyrfingur heldur áfram við bústörfin, smíðar á verkstæðinu eða sinnir viðgerðum hvers konar. Við erum með mark­vissar beitarstýringar og því er daglega verið að færa girðingar og á veturna að gefa út til kúnna, en einnig að líta eftir að allar skepnur hafi það sem þær þurfa til að líða vel. Á sumrin fer góður tími hjá Huldu í garðyrkju og gróðurhúsið auk þess að sinna skjólbeltunum og hjá Tyrfingi í að auka hagræðingu í kringum beitarstýringuna. Á sumrin eru hænurnar í húsbíl og ferðast um landareignina í honum (við keyrum – ekki þær) á eftir kúnum og dreifa úr úrgangi þeirra til hagræðis fyrir jarðveginn. Að sjálfsögðu er líka heyskapur og girðingareftirlit eins og gengur og gerist á öllum bæjum en okkar markmið er að draga úr áburðarnotkun og heyskap með aukinni beitarstýringu.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Okkur finnst allt skemmtilegt, að byggja upp og sjá árangur af unnu dagsverki skilar miklu fyrir sálina og það er sama í hvaða mynd það er. Ef eitthvað á að draga fram, þá finnst Tyrfingi skemmtilegast að dreifa skít og minnst skemmtilegt í sauðburði á meðan Huldu finnst hvað skemmtilegast í sauðburðinum og minnst gaman að skítkastinu.c

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár?  Sjálfbærari en hann er í dag. Minni áburðarnotkun (helst enga af tilbúnum áburði) og minna af rándýrum innfluttum aðföngum en meira af okkar eigin framleiðslu í hringrás búsins. Mögulega verðum við alltaf að kaupa innflutt fræ, en vonandi verður einhvern tíma hægt að uppskera fræ og geyma til notkunar milli ára og því ekki að gefa sér fimm ár í þann draum. Fræ úr innlendri ræktun ættu allavega að þróa með sér aukið þol gagnvart íslenskri veðráttu og það er eftirsóknarvert.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í framleiðslu á íslenskum búvörum? „Þetta hefur alltaf verið gert svona!“ er setning sem alltof margir hafa í hávegum og er hættuleg hverri þróun. Okkar skoðun er að stærstu tækifærin liggi í þeirri hugarfarsbreytingu að þora að gera öðruvísi. Tækifæri til framleiðslu á íslenskum búvörum liggja hvað mest í sjálfbærninni – að rækta sínar eigin afurðir til að endurnýta á allan mögulegan hátt. Rækta af eigin fræi fóður fyrir dýrin eða okkur sjálf hlýtur að vera ónýtt tækifæri sem mætti horfa meira til.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Ég segi nú eins og einn góður. „Þar er alltaf til matur.“ En annars er engu logið með því að segja að þar sé alltaf til rabarbarasulta, það er aðallega af því að það er búið svo mikið til af henni að hún nær aldrei að klárast.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Heimakryddað og grillað kjöt af eigin gripum klikkar aldrei. En annars er það fjölbreytnin í matreiðslu á íslensku lambi, nauti eða fiski ásamt grænmeti sem gerir allan mat vinsælastan.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar heimasætan missti símann sinn í haughúsið og klæddi bróður sinn upp í veiðivöðlur til að fara og sækja hann.

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f