Kýrnar í sviðsljósinu
Í sumar efndu Slow Food á Íslandi og Lífrænt Ísland til ljósmyndasamkeppni undir myllumerkinu #skrautkýr, þar sem íslenska mjólkurkýrin var í aðalhlutverki. Alls bárust 168 myndir frá myndasmiðum víðs vegar að af landinu.
Dómnefnd hefur kynnt úrslit í tveimur flokkum, „Skrautlegasta kýrin“ og „Kýrin í skrautlegustu aðstæðunum“. Í fyrrnefnda flokknum vann Guðbergur Egill Eyjólfsson til fyrstu verðlauna og í þeim síðarnefnda Birna Viðarsdóttir. Auk þess voru nokkrar myndir valdar sem þóttu sérstaklega áhugaverðar og lýsandi fyrir fjölbreytileika íslensku kýrinnar.
Myndirnar sem bárust þóttu sýna glöggt hversu fjölbreyttur og litríkur íslenski kúastofninn er – og hve forvitnar og skemmtilegar þær eru. „Íslenska mjólkurkýrin hefur fylgt þjóðinni frá landnámi, rétt eins og hesturinn, kindin og hundurinn, og gegnt lykilhlutverki í búskap og menningu landsins. Stofninn hefur aðlagast íslenskum aðstæðum – bæði fóðri og veðurfari – á einstakan hátt og hefur mikið verndargildi í tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni“, segir í tilkynningu.








