Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Á Bessastöðum er nokkuð stórt æðarvarp sem Harpa Marín og Selma Ósk Jónsdætur sinna fyrir hönd forsetaembættisins. Þær njóta þess að komast í varpið og vera utan við allt ys og þys, en þrátt fyrir nálægð við þétta byggð höfuðborgarsvæðisins er mikil kyrrð og ró á Bessastaðanesi.
Á Bessastöðum er nokkuð stórt æðarvarp sem Harpa Marín og Selma Ósk Jónsdætur sinna fyrir hönd forsetaembættisins. Þær njóta þess að komast í varpið og vera utan við allt ys og þys, en þrátt fyrir nálægð við þétta byggð höfuðborgarsvæðisins er mikil kyrrð og ró á Bessastaðanesi.
Mynd / ál
Viðtal 5. júlí 2024

Kynslóðaskipti á Bessastöðum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Systurnar Harpa Marín og Selma Ósk Jónsdætur tóku við sem umsjónarmenn æðarvarpsins á Bessastöðum í vor. Harpa segist hafa þekkt Guðjón Helgason sem sá um varpið áður og fyrir nokkrum árum vantaði hann mannskap og lagði Harpa hönd á plóg. Ári síðar tók hún Selmu með sér og hafa þær báðar tekið fullan þátt í dúntínslunni síðan þá. Systurnar segjast ekki hafa vitað af þessu varpi fyrir þann tíma.

Þar sem Guðjón var að hætta eftir tuttugu ár í starfi tilnefndi hann þær sem sína eftirmenn, enda sóttust þær alltaf í að komast í varpið á hverju sumri. Sjálf ákvörðunin um að ráða þær hafi verið í höndum skrifstofu forseta. „Við erum að vinna við það að tína fyrir embættið,“ segir Selma. Harpa vill líkja stöðu þeirra við garðyrkjumenn eða aðra sem eru ráðnir til að sinna sérstökum verkum.

„Við erum að feta okkar fyrstu skref sem dúnbændur,“ segir Harpa og bætir við að þær eigi enn margt eftir ólært. Hún er ekki alveg ókunnug æðarvarpi, en sem barn eyddi Harpa sumrunum hjá ömmu sinni sem var með hús í Kollafirði. Á næsta bæ hafi verið æðarbóndi og fór hún gjarnan með honum í varpið.

Dagarnir byrja í þessari hlöðu þar sem systurnar eru með aðstöðu til að geyma allan búnað, grófhreinsa og flokka dún og geyma áður en hann er sendur annað í fullhreinsun.

Tólf vikur á vorin

Þær segja tímabilið hefjast um miðjan maí og vara í hátt í tólf vikur með undirbúningi og frágangi, á meðan tínslan sjálf taki sex til átta vikur. Þær leita á öllu nesinu handan Bessastaða og sé farið tvisvar á hvert svæði. Ef aðstæður leyfa ættu þær að vera búnar fyrir lok júní, en dúntínslan fer fram alla þá daga þar sem veðrið er hagstætt.

Vinnudagarnir byrja í hlöðu sem er rétt handan við Bessastaðastofu. Þar hafa þær aðstöðu til að geyma búnað eins og dúntínslupoka og hey. Þar er jafnframt aðstaða til að þurrka og flokka dúninn og fjarlægja úr honum stærstan hluta af aðskotaefnunum áður en hann er sendur annað í fullhreinsun.

Þær segjast fá sér einn Collab áður en þær leggja af stað og fara þær á leitarsvæðin ýmist fótgangandi eða á bíl eftir vegslóðum. „Þetta er ótrúlega fjölbreytt. Við vitum í raun aldrei hvernig dagurinn verður,“ segir Harpa, en veðráttan ráði miklu um hvaða svæði sé leitað hverju sinni.

Vinnudagarnir séu misjafnlega langir en að jafnaði fimm til sex tímar. Ef veðrið versnar skyndilega hafa þær hætt eftir þrjá tíma, en þegar vel viðrar geti þær verið að í næstum tíu tíma.

Harpa hefur verið með skrefamæli og nefnir að fyrir skemmstu hafi hún gengið sextán þúsund skref, eða tíu kílómetra, á einum degi. Hæsta talan sem hún hefur séð eru fimmtán kílómetrar, sem hafi verið á sérstökum blíðviðrisdegi.

Eftir að Guðni Th. Jóhannesson fékk boð á aðalfund Félags æðarbænda eftir embættistöku 2016 áttaði hann sig á að hann væri ekki einungis orðinn forseti, heldur einnig bóndi. Hér aðstoðar Harpa Marín Guðna við tínsluna.

Fjarlægt amstrinu

Yfirleitt eru þær tvær, en stundum koma ættingjar og vinir sem hafa áhuga á að taka þátt. Það sé aldrei kvöð að þurfa að vakna á laugardagsmorgni og mæta í varpið. Það sé svo ánægjulegt að vera úti í náttúrunni og geta lagst í grasið til að taka nestispásur. Til þess að þrífast í þessu starfi sé nauðsynlegt að elska útiveru. „Ég tala alltaf um að það séu forréttindi að fá að eyða svona miklum tíma úti,“ segir Selma.

Þær segjast vera miklar sveitastelpur og líða best úti á landi. Þær nái mikilli tengingu við náttúruna þegar þær eru í varpinu, sem sé dýrmætt. Nánast allt höfuðborgarsvæðið sjáist frá Bessastaðanesi, en þegar lagst sé í grasið og horft upp í loft sé hægt að ímynda sér að maður sé hvar sem er. „Þetta er svo fjarlægt amstrinu,“ segir Harpa.

Systurnar eru báðar í fullu starfi en Selma tók sér sumarfrí í vor á meðan Harpa nýtur nokkurs sveigjanleika á sínum vinnustað. „Maður skipuleggur starfið sitt í kringum þetta og maður lætur þetta ganga,“ segir sú síðarnefnda. Hún bætir við að þó svo að þessu fylgi aukið álag sé mikil hugarró fólgin í því að tína dún, jafnvel eftir heilan vinnudag.

Eftir að dúnninn er tíndur þarf að fjarlægja aðskotaefni. Selma Ósk hreinsar hér dún sem inniheldur mikið af visnuðu grasi.

Gott að vita af Guðna

Vegna nálægðarinnar við forsetann sé ramminn í kringum æðarvarpið strangari en ella. Systurnar reyni jafnframt að aðskilja starfsemina sína frá Bessastöðum, enda sé það heimili Guðna og fjölskyldu. Forsetinn taki ekki beinan þátt í dúntínslunni, en þær rekist einstaka sinnum á hann. „Maður sér hann ekki oft, en það er gott að vita af honum þarna,“ segir Harpa.

Í viðtali við Bændablaðið í vetur sagði Guðni Th. Jóhannesson að fyrsta bréfið sem hann fékk á Bessastaði eftir að hann tók við embætti sumarið 2016 hafi verið boð á aðalfund Félags æðarbænda. „Þá áttaði ég mig á því að ég hafði ekki aðeins tekið við embætti forseta, heldur var einnig orðinn bóndi,“ sagði hann af því tilefni. Aðspurðar hvort systurnar hafi hugsað sér að taka þátt í starfi félagsins svara þær að það sé aldrei að vita nema þær mæti á fund ef þeim er boðið.

Flest svæðin á Bessastöðum eru leituð tvisvar. Hér sést hreiður eins og þau eru oft við fyrstu leit.

5 hlutir sem Harpa & Selma geta ekki verið án

1. Pokarnir:

Dúnninn er flokkaður eftir gæðum við tínslu.

2. Góðir gönguskór:

Oft ganga systurnar tíu kílómetra á dag.

3. Lopapeysa:

„Maður endist ekki lengi án hennar.“

4. Eyrnaband:

Á Bessastaðanesi getur verið vindasamt.

5. Collab:

„Við bíðum eftir spons frá Collab.“

Guðni Th. Jóhannesson, fráfarandi forseti Íslands, heldur hér á dúni sem tíndur er í æðarvarpinu á Bessastöðum.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...