Kyngreint sæði komið í notkun
Kyngreint sæði er nú komið í almenna dreifingu í fyrsta skipti á Íslandi, þ.e. án þess að verið sé að prófa tæknina. Tilraunin sem gerð var sl. vetur sýndi að íslenskt nautsæði þolir vel kyngreiningu og árangur í tilrauninni var vel ásættanlegur.
Munur á 56 daga ekki uppbeiðsli milli venjulegs og kyngreinds sæðis reyndist í heildina vera nálægt 6% sem er vel innan ásættan l e g r a marka. Á þeim grunni var færanlega rannsóknastofan frá STgenetics fengin hingað til lands öðru sinni í nýliðnum ágúst. Sæði úr þrettán íslenskum nautum og tveimur Angus-nautum var kyngreint að þessu sinni og er nú komið í dreifingu. Úr íslensku nautunum er eingöngu um að ræða X-sæði, þ.e. sæði sem gefur kvígur, en úr Angusnautunum er bæði fáanlegt Y-sæði, sæði sem gefur naut, og X-sæði. Magn X-sæðis úr holdanautunum er þó í mjög takmörkuðu magni og fyrst fremst hugsað fyrir þá bændur sem halda holdakýr til þess að hraða endurnýjun yfir í hreinræktaðar Angus-kýr.
Kyngreint sæði er dýr vara og því rétt að vanda til verka við notkun á því. Sæðið er meira meðhöndlað fyrir frystingu en venjulegt sæði og má því segja „þreyttara“ þegar að notkun kemur. Tímasetning sæðingar er því vandasamari og þarf að vera nær egglosi en með venjulegu sæði svo sami árangur náist. Þá er það þekkt, jafnframt því sem tilraunin sl. vetur gaf vísbendingar um, að kvígur og yngri og frjósamari kýr halda betur við kyngreindu sæði en eldri kýr. Þarna er þó ekki um mikinn mun að ræða en forðast skal að nota kyngreint sæði á þekktar vandamálakýr, þ.e. kýr sem halda að öllu jöfnu illa. Á nautaskra.is er að finna stuttar leiðbeiningar um vinnubrögð og val á gripum til sæðinga með kyngreindu sæði sem gott er að kynna sér. Til þess að mæta þeim kostnaði sem kyngreiningin hefur í för með sér verða innheimtar 3.000 kr. á hvern skammt af kyngreindu sæði.
Í fyrstu umferð var sent sæði úr þremur íslenskum nautum og holdanautunum tveimur um land allt en nú er þeim nautum sem kyngreindu sæði er dreift úr að fjölga hægt og bítandi eftir því sem útsendingu á sæði vindur fram. Úr öllum þeim nautum sem fóru í kyngreiningu er einnig venjulegt sæði í dreifingu. Þau naut sem komu til notkunar um síðustu mánaðamót eru:
Sæði: Venjulegt, Spermvital og X-sæði (kvígur).
Sæði: Venjulegt og X-sæði (kvígur).
Draupnir 23040 er frá Fagurhlíð í Landbroti, svartskjöldóttur, sokkóttur, kollóttur og er ræktandi Félagsbúið í Fagurhlíð. Draupnir er undan Marmara 20011 og Dimmalimm 625 Steradóttur 13057. Erfðamat Draupnis gefur til kynna að dætur hans verði mjög mjólkurlagnar kýr með hlutföll verðefna í mjólk í meðallagi. Þetta ættu að verða meðalkýr á skrokkinn og í meðallagi háfættar. Júgurgerðin allgóð, meðalvel borin júgur með meðalfestu og mjög greinilegt og gott júgurband. Spenar aðeins stuttir og grannir en vel settir. Mjaltir góðar sem og skapið. Arfhreinn kollóttur.
Sæði: Venjulegt, Spermvital og X-sæði (kvígur).
Stjóri 23041 er frá Dæli í Fnjóskadal, dökkkolóttur, kollóttur, ræktendur Geir og Margrét. Draupnir er sonur Kvóta 19042 og 1009 Piparsdóttur 12007. Erfðamat Stjóra segir að dætur hans verði mjólkurlagnar kýr með hlutfall fitu í mjólk í góðu meðallagi og hlutfall próteins mjög hátt. Þetta ættu að verða frekar bolmiklar og háfættar kýr. Júgurgerðin góð og spenar hæfilegir að lengd, aðeins þykkir og mjög vel settir. Mjaltir í meðallagi og skapið úrvalsgott. Arfhreinn kollóttur.
Sæði: Venjulegt.
Valens 24003 er frá Lyngbrekku á Fellsströnd, dökkbröndóttur, kollóttur og eru ræktendur Sigrún og Ármann. Valens er undan Banana 20017 og Skessu 340 Hálfmánadóttur 13022. Erfðamat Valens segir að dætur hans verði mjög mjólkurlagnar kýr með hlutfall verðefna í mjólk um meðallag. Þetta ættu að verða fremur bolléttar og nokkuð háfættar kýr með góða júgurgerð. Ágætlega borin júgur með góða festu og gott júgurband. Spenar aðeins stuttir og þykkir og meðalvel settir. Mjaltir mjög góðar og skapið gott. Arfhreinn kollóttur.
Sæði: Venjulegt og X-sæði (kvígur).
Biggi 24004 er frá Flatey í Hornafirði, ræktendur eru þau Birgir Freyr og Vilborð Rún. Biggi er dökkkolskjöldóttur og kollóttur sonur Skálda 19036 og Gyðu 3272 Gyrðisdóttur 17039. Erfðamat Bigga gefur til kynna að dætur hans verði mjög mjólkurlagnar kýr með hlutföll verðefna í mjólk rétt um eða undir meðallagi. Þetta ættu verða í meðallagi bolmiklar og meðalháfættar kýr með góða júgurgerð, vel borin júgur með mikla festu og meðalgott júgurband. Spenar aðeins stuttir og grannir og frábærlega vel settir. Mjaltir mjög góðar og skapið frábært. Arfhreinn kollóttur.
Sæði: Venjulegt og X-sæði (kvígur).
Hálsi 24006 er frá Signýjarstöðum í Hálsasveit, sægrár, kollóttur, ræktendur eru Arnþór og Birna. Hálsi er undan Kvóta 19042 og 922 Óberonsdóttur 17046. Erfðamat Hálsa segir að dætur hans verði í góðu meðallagi mjólkurlagnar með fituhlutfall í mjólk undir meðallagi en próteinhlutfall nokkru hærra en meðallag. Þetta ættu að verða bolmiklar og í meðallagi háfættar kýr með mjög góða júgurgerð, vel borin júgur með mikla festu og mjög greinilegu júgurbandi. Spenar nokkuð hæfilegir að lengd og þykkt og frábærlega settir. Mjaltir meðalgóðar og skapið frábært. Arfhreinn kollóttur.
Sæði: Venjulegt og X-sæði (kvígur).
Kládíus 24011 er frá Ósabakka á Skeiðum, bröndóttur, kollóttur og ræktandi er Ósabakki ehf. Kládíus er undan Garpi 20044 og Lilju 984 Sjarmadóttur 12090. Erfðamat Kládíusar segir að dætur hans verði mjög mjólkurlagnar kýr með hlutfall verðefna í mjólk um meðallag. Þetta ættu að verða bolléttar og nokkuð háfættar kýr með meðalgóða júgurgerð. Ágætlega borin júgur með meðalgóða festu og mjög greinilegt júgurband. Spenar stuttir og grannir og mjög vel settir. Mjaltir frábærar og skapið úrvalsgott. Arfhreinn kollóttur.
Sæði: Venjulegt og X-sæði (kvígur).
Frekari upplýsingar um þessi naut er að finna á nautaskra.is.
Þau naut sem áfram verða í notkun samhliða þessum eru Smali 23034, Brími 23025, Brúsi 23026, Kuldi 23027, Snær 23028, Flóki 23031, Markaður 23034 og Farsæll 23035. Af þeim verður X-sæði (kvígur) úr Bríma 23035 í dreifingu i vetur og Spermvital-sæði er fáanlegt úr þeim öllum nema Flóka 23031 og Markaði 23034.
Þau naut sem fóru úr notkun eru Snáði 23017, Stimpill 23020, Seimur 23021, Maddi 23022, Sokkur 23023 og Abraham 23030.
Við val á þeim nautum sem í notkun eru ræður erfðamatið mestu en einnig er horft til þess að dreifa faðerni sem verða má þannig að í boði séu gripir með sem dreifðast ætterni. Nú, þegar kyngreint sæði er komið í notkun, þurfa menn að horfa til framtíðar og haga sæðingum með aðeins öðrum hætti en áður. Mikilvægt er að haga notkun m.t.t. þess hversu mikil endurnýjunarþörf búsins er og velja kyngreint sæði á kvígur og góðar, ungar kýr ásamt þeim kúm sem menn vilja gjarnan fá ásetningskvígu undan. Þá er ákaflega brýnt að nota venjulegt sæði á allra bestu kýrnar og efnilegar kvígur til þess að fá nautkálfa til þess að bjóða á stöð. Höfum í huga að helmingur kálfanna undan þeim verða kvígur til ásetnings en helmingur nautkálfar. Úr þeim hópi fáum við kynbótanaut framtíðarinnar, feður næstu kynslóðar.
