Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fyrir utan nautastöðina á Hesti má sjá vörubíl þar sem fram fer fyrsta kyngreiningin á íslensku nautasæði
Fyrir utan nautastöðina á Hesti má sjá vörubíl þar sem fram fer fyrsta kyngreiningin á íslensku nautasæði
Mynd / ál
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp færanlegri rannsóknarstöð þar sem framkvæmd er í fyrsta skipti kyngreining á sæði úr íslenskum nautum.

Rannsóknarstöðin er í innrétt­uðum vörubílsvagni sem kom að Hesti þann 3. desember. Með honum kom sérþjálfað erlent starfsfólk sem byrjaði framleiðslu kyngreinda erfðaefnisins þann 6. desember og mun vinna allan sólahringinn til 20. desember.

Í staðinn fyrir að byggja upp rannsóknarstofu á Hesti var farin sú leið að semja við fyrirtækið Sexing Technologies, sem er dótturfyrirtæki alþjóðlegu samsteypunnar Inguran LCC. Að þessu sinni verða kyngreindir rúmlega tvö þúsund sæðisskammtar sem verða nýttir í tilraun til að skera úr um hvort þessi tækni virki fyrir erfðaefni nauta af íslenska mjólkurkúastofninum.

Ronan Raftery og Mariska Bakker frá Inguran LCC. Þau eru meðal starfsmanna sem vinna allan sólarhringinn við kyngreiningu sæðis.
Pláss eina málamiðlunin

Ronan Raftery, yfirmaður færanlegu rannsóknarstofunnar, segir að þrátt fyrir að rannsóknarstofan komist fyrir á vöruflutningavagni hafi ekki þurft að gera neinar málamiðlanir nema þegar kemur að plássi. Tveir til þrír starfsmenn eru á vakt á hverjum tíma og segir hann oft geta verið þröng á þingi. „Rétt eins og hægt er að vera með fullbúið heimili í húsbíl getum við verið með alla aðstöðu. Það þarf bara að koma hlutunum fyrir,“ segir hann.

Mariska Bakker er aðstoðarmaður framleiðslustjóra Inguran Europe­ samsteypunnar í höfuðstöðvunum í Hollandi. Hún segir að rannsóknarstofan geti framleitt allt að 600 kyngreinda sæðisskammta á sólarhring. Afköstin stjórnast að hluta til af því hversu öflug nautin eru í framleiðslu á erfðaefni, en nauðsynlegt er að nota ferskt sæði. Af þeim sökum framkvæmir starfsfólk nautastöðvarinnar sæðistöku þrisvar á dag meðan á kyngreiningunni stendur, en venjan er að hún fari fram einu sinni til tvisvar í viku.

Ronan og Mariska vita ekki til þess að nokkur önnur færanleg aðstaða til kyngreininga á sæði hafi verið búin til. Hún mun breyta miklu fyrir afskekktar nautastöðvar eða minni kúakyn, enda skemmist sæðið ef það þarf að ferðast um langan veg. Næsti áfangastaður rannsóknarstöðvarinnar verður í Þýskalandi og segja Ronan og Mariska mikla eftirspurn vera eftir þjónustu hennar.

Ferlið við kyngreininguna tekur sextán klukkutíma.
Sex kyngreiningartæki

Kyngreiningin byggist á því að nýta stærðarmun á X og Y litningunum. Með því að virkja rafsegulstraum við hlið hárfínnar bunu af sæði sem hefur verið undirbúið er hægt að beina kvenkyns sæðisfrumum í eina átt og karlkynsfrumum í aðra. Mariska segir fullunna vöru innihalda minnst 90 prósent af sæðisfrumum af því kyni sem greint er fyrir.

Í rannsóknarstofunni eru sex kyngreiningartæki. Ferlið frá því starfsfólk nautastöðvarinnar afhendir ferska sæðisskammta þangað til að starfsfólk rannsóknarstofunnar hefur gengið frá sæðisstráum í frysti eru um 16 klukkutímar. Þegar unnið er með erfðaefni af mjólkurkúakyni er yfirleitt kyngreint fyrir kvenkynsfrumum og karlkynsfrumunum hent. Þessu er öfugt farið þegar holdanaut eiga í hlut.

Kyngreining sæðis er ekki ný tækni, en Mariska nefnir að í lok níunda áratugarins hafi fæðst folald með þessari tækni. Inguran­samsteypan fékk heimild til að kyngreina sæði árið 2004 í Bandaríkjunum og opnaði fyrstu rannsóknarstöðina í Evrópu árið 2007. Þessi tækni virkar best fyrir nautgripi, en gengur fyrir öll spendýr. Mariska nefnir að dýragarðar hafi notað kyngreint sæði. Inguran­-samsteypan er með starfsemi í sex heimsálfum og tólf rannsóknarstofur í Evrópu.

Kyngreint nautasæði fer í dreifingu á næstu mánuðum.
Fleiri kvígukálfar á ári

Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðu­maður nautastöðvarinnar, segir Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hafa lagt upp tilraun þar sem sæðisskammtar verða teknir úr fimm nautum og settir í dreifingu á næsta hálfa ári. Helmingurinn af skömmtunum frá hverju nauti verður kyngreindur fyrir kvenkyns sæðisfrumum á meðan hinn helmingurinn verður ókyngreindur. Hvorki frjótæknar né þeir bændur sem kjósa að taka þátt í tilrauninni munu vita hvort er hvað meðan á henni stendur. Þetta segir hann vera langbestu leiðina til að fá úr því skorið hvort kyngreint sæði úr íslenskum nautum geti nýst.

Samhliða þessu er verið að útbúa kyngreinda sæðisskammta úr einu hreinræktuðu Aberdeen Angus­-nauti. Þar er karlkyns frumum sérstaklega safnað og geta bændur óskað eftir því erfðaefni án þess að taka þátt í tilraun.

„Ef þetta tekst stendur bændum til boða að fá kvígusæði á betri hluta kúnna og verða ekki fyrir vonbrigðum þegar það kemur tuddi undan bestu kúnni,“ segir Sveinbjörn. Þrátt fyrir að fanghlutfall sé lægra með kyngreindu sæði skilar það sér í fleiri kvígukálfum á ári. 

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...