Kolviðarhóll og nágrenni
Lýsing Ölveshrepps eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann frá 1703 er merkilegt plagg. Það er talið ritað að undirlagi Árna Magnússonar handritasafnara en kunnugt er að hann hafði mikinn áhuga á lýsingum örnefna og staðháttum og slíkt efni er einmitt uppistaðan í þessu riti. Hér er meðal annars sagt frá landslagi þannig að manni finnst nánast eins og hægt sé að ferðast með Hálfdani um héraðið fyrir 300 árum. Sagt er frá byggðarlögum, leiðum og ferjustöðum, kennileitum tengdum Íslendingasögum, slægjulöndum, upprekstri nauta á afrétt; frá „arnanna híbýli“ einhvers staðar við Gnúpastíg og síðast en ekki síst frá meintum skála Ingólfs Arnarsonar á Skálafelli og haugi hins sama á Ingólfsfjalli. Þannig vakir minning landnámsmannsins yfir landslaginu.
Í lýsingunni er m.a. fjallað um afrétt Ölfushrepps en hluta hans þekkja líklega flestir í dag undir nafninu Hellisheiði þótt upphaflega hafi það heiti bara verið notað um háheiðina. Afrétturinn er ekki síst merkilegur fyrir það að þar lágu miklar og fjölfarnar samgönguæðar rétt eins og nú, enda liggur hann milli þéttbýlla byggða sem talsverð hreyfing var á milli m.a. vegna verslunar, ferða til og frá verstöðvum o.fl. Samgöngukerfið var þó auðvitað með allt öðrum hætti en nú og fáum hefði til dæmis dottið í hug að fara gangandi eða ríðandi um Svínahraun þar sem bílvegurinn liggur nú vestan við háheiðina, enda úfið og hrikalegt. Einn þeirra merkilegu staða sem Hálfdan nefnir og er til vitnis um gamlar ferðaleiðir er einmitt töluvert norðan við hraunið, þar sem aðalþjóðleiðin austur yfir heiði lá lengst af, meðfram hraunbrúninni og upp svonefnt Hellisskarð. Þetta er sæluhúsið undir Húsmúla. Um það segir Hálfdan: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“ Þetta er ein elsta heimild um sæluhús á Íslandi. Leifar hússins sjást enn vel, á litlum hól austan við svonefnda Draugatjörn sem leynist rúmum kílómetra fyrir vestan Hellisheiðarvirkjun. Þarna kúrir lágreist, grasi vaxin tóft uppi á hól við tjörnina og ef vel er að gáð sjást hlaðnar vörður bæði til austurs og vesturs frá henni. Fátt er vitað um aldur hússins annað en að það var í notkun á tímum Hálfdanar (og hugsanlega löngu fyrr) og allt til ársins 1844 þegar nýtt sæluhús úr timbri var reist á Kolviðarhóli sem er austar, fast norðan við stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunar. Metnaður manna fór ört vaxandi á næstu áratugum sem og krafan um öryggi á ferðalögum. Sigurður málari Guðmundsson setti raunar fram stórkostlegar hugmyndir að húsi á staðnum upp úr 1870, með háum turni sem ljós logaði í – eins konar vita. Þar vildi hann auk þess hafa veitingasölu, láta þeyta lúðra þriðja hvern tíma til að leiðbeina villtum ferðamönnum og hafa alpahunda til taks, m.ö.o. björgunarhunda. Þessi hugmynd Sigurðar rættist ekki þótt tæpum 60 árum síðar risi raunar afar glæsilegt hús á Kolviðarhóli sem margir muna enn eftir, teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Það var rifið árið 1977 en þá hafði Kolviðarhóll lengi verið úr alfaraleið eftir að vegurinn var fluttur sunnar á heiðina og húsið komið í skelfilega niðurníðslu.
Sennilega yrði Hálfdan lögréttumaður steinhissa ef við byðum honum að skjótast með okkur yfir heiðina í dag. Svæðið umhverfis þessa gömlu og fjölsóttu áningarstaði tekur sífellt á sig meiri mynd iðnaðarsvæðis. Hleðslur á borð við vörður hafa færst í bakgrunninn en við Kolviðarhól, þar sem áður var hægt að fá heytuggu fyrir fararskjótann, er nú hægt að fá hleðslu fyrir bílinn. Enn má vel rekja gömlu leiðina sem lá yfir háheiðina en þar sjást nú ekki bara vörðubrot og djúpar götur heldur hafa háspennulínur og aðveituæðar að stöðvarhúsinu tekið við sem ráðandi þættir í landslaginu.
