Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kartöflumygla á Suðurlandi – varnaðarorð vegna útsæðis fyrir sumarið 2022
Á faglegum nótum 19. apríl 2022

Kartöflumygla á Suðurlandi – varnaðarorð vegna útsæðis fyrir sumarið 2022

Höfundur: Þórey Gylfadóttir jarðræktarráðunautur RML og Helgi Jóhannesson ráðunautur, rekstrar- og umhverfissviði RML.

Kartöflumygla er vel þekktur sjúkdómur sem hefur lengi valdið usla í kartöfluræktun í heiminum. Hungrið mikla á Írlandi um miðja 19. öldina má rekja til kartöflumyglu sem herjaði í Evrópu og leiddi til uppskerubrests á þessari mikilvægu fæðu Íra.

Sveppurinn (Phytophthora infestans) leggst á kartöflur og veldur myglu og rotnun bæði á grösum sem og hnýðunum sjálfum. Fyrstu einkenni myglu eru svartir blettir á blaðendum og stönglum og kartöflugrösin falla svo alveg að lokum. Veðurfar verður þó alltaf líka að vera hagstætt til þess að myglan komi fram og breiðist út. Þegar hiti er yfir 10°C og rakastig er yfir 75% eru kjöraðstæður fyrir mygluna að breiða úr sér og getur það gerst mjög hratt. Myglan getur borist nokkuð langar leiðir með vindi en talið er að virk smitgró geti borist með vindi einhverja tugi kílómetra. Yrki/stofnar kartaflna eru með mismunandi mótstöðuafl gagnvart sýkingu. Gullauga og Rauðar íslenskar eru mest ræktuðu yrkin hér á landi, og því miður eru þau mjög móttækileg fyrir myglu, sérstaklega Gullauga. Þess má geta að myglan getur líka lagst á aðrar tegundir af náttskugga- eða kartöfluættinni, svo sem tómata.

Kartöflumygla kemur því miður enn þá reglulega upp þó svo að mislangt sé á milli smita. Hér var myglan landlæg frá um 1890 og fram yfir 1960 þó svo að tjón hafi verið mismunandi milli ára. Tjón af völdum kartöflumyglunnar var líklegast mest árið 1953 en það var metár í uppskeru, sem rotnaði þó í geymslum (Sigurgeir Ólafsson, 2015). Talsvert myglutjón varð á árunum 1990 og 1991. Aldrei varð tjón á Norðurlandi en þó sást mygla þar. Erlendis má segja að kartöflumygla sé landlæg, en veðurfar ræður þar mestu um útbreiðslu hverju sinni.

Myglusmit á Suðurlandi 2021

Kartöflumygla kom upp í Þykkva­bænum síðastliðið sumar og varð hennar fyrst vart um mánaðamótin júlí-ágúst. Þrátt fyrir varnaraðgerðir náði myglan að breiðast nokkuð hratt út, og um miðjan ágúst sáust mygluhreiður nokkuð víða í kartöflugörðum í Þykkvabæ.

Nokkru síðar sást svo mygla í kartöflugörðum í Flóa og upp­sveitum Árnessýslu. Suðaustanvindur var ríkjandi á þessu tímabili og mátti rekja smitið eftir þeirri átt inn í landið. Síðar barst svo myglan austur og sást í Landeyjum og víðar í Rangárþingi. Ekki fréttist af myglu á höfuðborgarsvæðinu eða í öðrum landshlutum, enda lifa myglugróin ekki svo langa flugferð.

Allt smit í fyrra af sömu arfgerð

Kartöflumygla hefur margar mismunandi arfgerðir. Tekin voru sýni úr sýktum görðum í Þykkvabæ, Flóa og uppsveitum og þau send til greiningar hjá James Hutton Institute í Skotlandi. Öll sýnin reyndust vera af sama stofninum, EU41 A2. Sá stofn er mjög ágengur, myndar mikið af smitgróum og getur því breiðst hratt út. Hann hefur aftur á móti lítið þol gegn varnarefnum. EU41 A2 sást fyrst í Danmörku 2013 og hefur dreifst þaðan, aðallega til Norðurlanda og svæða kringum Eystrasalt. Líklegt má því telja að smit hafi borist hingað með innfluttu útsæði eða matarkartöflum frá Danmörku.

Næsta ræktunarár

Smitgróin sem dreifðust um landið síðastliðið sumar lifa ekki af veturinn úti í náttúrunni. Það eru því einungis sýkt hnýði sem bera smit milli ræktunarára. Mikil úrkoma síðastliðið haust auðveldaði smit niður í hnýðin og því urðu skemmdir meiri en ella hefði orðið í þurrviðri.

Mest hætta á smiti nú næsta sumar er því frá sýktu útsæði, eða ef sýktar kartöflur frá í fyrra liggja eftir í garðinum, frjósa ekki og ná að spíra upp í vor. Útsæði sem tekið er úr sýktum garði er mjög líklega smitað af myglu. Þó að kartaflan virðist heilbrigð, getur smit verið til staðar og borist upp á yfirborðið þegar kartöflurnar spíra upp og ný blöð myndast. Ný myglugró ná að myndast á blöðum, og ef veðurfar er hagstætt fyrir myglu, getur nýr myglufaraldur breiðst út. Líklegt er að eitthvað af því útsæði sem sett verður niður hjá kartöflubændum á Suðurlandi næsta sumar sé sýkt af myglu.

Ekki er tiltækt nægt magn af ósýktu útsæði af Gullauga og Rauðum kartöflum. Til að reyna að lágmarka skaðann og hindra útbreiðslu á myglu hjá kartöflubændum verður sett fram áætlun er snýr að markvissri notkun varnarefna og reglulegu eftirliti. Stefnt er að því að nettengja sjálfvirka veðurstöð í Þykkvabænum og nýta veðurgögn til að spá jafnóðum fyrir um hættuna á myglu.

Kartöflum fargað – urðun eða svart plast

Einnig er mikilvægt að gæta varúðar ef kartöflum er fargað utan dyra. Sýktar kartöflur geta spírað upp og smit borist þaðan í garða. Því er brýnt að urða kartöflubingi vandlega eða þekja þá með svörtu plasti þannig að kartöflurnar rotni, en spíri ekki upp. Það er mjög mikilvægt að ganga þannig frá kartöflum sem á að farga að þar verði ekki hætta á útbreiðslu smits.

Mikilvægt að áhugaræktendur fylgist vel með í sumar

Kartöflubændur geta brugðist við mygluhættu með fyrirbyggjandi úðun með varnarefnum. Almennir ræktendur hafa ekki aðgang að slíkum efnum og því er hætta á að dæmið snúist við næsta sumar, þ.e. að mygla berist úr heimilisgörðum til atvinnuræktenda. Því er mikilvægt að ekki verði sett niður smitað útsæði í heimilisgarða, og alls ekki nálægt ræktunarsvæðum bænda. Ef áhugaræktendur telja sig sjá mygluð grös í sínum görðum er mjög mikilvægt að taka þær plöntur strax upp og farga, svo að smit dreifist ekki frá þeim.

Heimild:
Sigurgeir Ólafsson. 2015. Bændablaðið, 21. maí 2015. https://www.bbl.is/skodun/lesendabasinn/kartoflumyglan-og-innflutt-utsaedi

Þórey Gylfadóttir
jarðræktarráðunautur RML
thorey@rml.is

Helgi Jóhannesson
Ráðunautur, Rekstrar-
og umhverfissvið
helgi@rml.is

Skylt efni: kartöflumygla

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...