Jólamatarmarkaður Íslands í Hörpu um helgina
Jólamatarmarkaður Íslands verður haldinn í Hörpu í Reykjavík um næstu helgi.
Þá koma bændur, smáframleiðendur matvæla og sjómenn í borgina til að kynna sínar vörur þar sem áhersla verður á uppruna matvælanna, umhyggju framleiðenda fyrir sínum afurðum og upplifun neytenda.
Þær Eirný Sigurðardóttir og Hlédís Sveinsdóttir hafa haldið markaðinn í anda Slow Food- hugsjónarinnar fyrir jólin ár hvert allt frá árinu 2012, fyrstu tvö árin fyrir utan verslunina Búrið í Nóatúni en síðan í Hörpu. Að sögn Eirnýjar er hugmyndin að tengja neytendur beint við framleiðendur og bjóða matvörur þar sem slagorð Slow Food hefur verið haft í hávegum við framleiðsluna, „Good, Clean and Fair“.Við höfum það til dæmis sem reglu að framleiðandi vöru verður að vera á markaðnum til að miðla þekkingu, svara spurningum og fá tengingu við neytendur. Margir framleiðendur hafa verið með okkur frá upphafi og hafa mótað viðburðinn með okkur. En alltaf gaman að bjóða nýja framleiðendur velkomna í matarmarkaðs- fjölskylduna. Af þeim sem koma nýir á markaðinn er gaman að segja frá geitabændunum á Brúnastöðum í Fljótum sem koma í fyrsta skiptið með ostaframleiðslu sína,“ segir Eirný. Aðgangur á markaðinn er ókeypis báða dagana, laugardag 16. og sunnudag 17. desember, en opið er frá kl. 11-17.
