Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Jólakveðja
Af vettvangi Bændasamtakana 23. desember 2024

Jólakveðja

Höfundur: Hjörtur Bergmann, formaður búgreinadeildar skógarbænda.

Skógarbændur hafa alltaf nóg fyrir stafni. Eftir áætlanagerðir og grænt ljós frá sveitarfélagi um að ganga megi til verks, hefst hin eiginlega skógrækt með gróðursetningu með hressandi útiveru, í kaldranalegri íslenskri náttúru.

Hjörtur Bergmann.

Fyrstu árin eftir gróðursetningu er lítið annað að gera en að bíða, bera á áburð eða endurgróðursetja eftir atvikum. Við mannhæðarvöxt er komin þörf á að snyrta trén og tryggja einn þróttmikinn vaxtarsprota á hverju tré. Sú vinna er unnin með greinasög og skörpum klippum, sem verður staðalbúnaður bóndans hér eftir.

Um þetta leyti eru fyrstu jólatrén að slíta barrskónum. Stuttu síðar, þegar þröngt verður um vik vegna greinaflækju, er fyrsta alvöru inngripið. Þá eru lökustu trén felld og búið til smá andrými fyrir þau eftirstandandi. Við þá tiltekt mætti hafa lítils háttar hráefni fyrir kurl og jafnvel stöku girðingastaura ef efnið er ekki látið liggja í skógarbotninum. Á þessu stigi er komið skjól í og í nágrenni skóganna.

Á þessu vaxtarskeiði er tækifæri til að gera vistlegt inni í skóginum fyrir bæði tví­ og ferfætlinga. Með greinasöginni má afkvista að neðan stöku tré og með því bæta aðgengi og greiða leið sólarljóss niður að jarðvegsgróðri. Þá nærast gras­ og blómplöntur svo mjög að gnægð matar er fyrir spörfugla, já, og rjúpuna. Trén stækka sem aldrei fyrr og handtök verkamannsins þyngjast þegar viðurinn verður stærri, þyngri og verðmætari. Þá sanna skógarstígarnir gildi sitt rækilega, sem hingað til hafa fyrst og fremst þjónað tilgangi eftirlits, sem einnig má kalla útivist.

Loks er það aðaluppskeran, nokkrum áratugum eftir gróðursetningu. Eitt sinn var það kallað rjóðurfelling, þegar öll trén af sambærilegri stærð voru höggvin en við það urðu til stórar eyður í hávöxnum skóginum.

Í dag heyrir slík skógrækt sögunni til því svokölluð síþekjuskógrækt er orðin viðtekin venja hjá skógarþjóðunum í kringum okkur. Í tilfelli íslenskra skógarbænda þýðir það að hægt er að rækta kröfuharðari tré, eins og eik og degli, undir skógarskerminum í skjóli og næringarríkari jarðvegi. Við slíkar aðstæður er meira að segja möguleiki að rækta digurbarkalegt birki, sem ekki hefði verið svo auðvelt á rýrum berangri í fyrri tíð.

Þegar hér er komið sögu, svona rúmlega hálfri öld eftir gróðursetningu, hefur skógurinn gefið og gefið af sér. Aðstæður til búskapar hafa stórbatnað. Búseta á áður rýrum svæðum er orðin vænleg því land sem áður var rýrt er nú kærkomið til kornræktar.

Ávinningur skógræktar er fyrir alla. Tilkostnaður í upphafi er sáralítill og skilar sér margfalt til baka. Útgjöld á upphafsárunum blikna í samanburði við allan þann fjárhagslega ávinning sem hlýst af timbrinu einu.

Skógrækt er gjarnan lofuð í hástert sem loftslagsaðgerð, en það er bara eitt af fjölmörgu.

Ef einhver lífvera hagnast af skógi, umfram aðra, þá er það blessaður Íslendingurinn, því í skjóli trjáa má styrkja mannsæmandi búsetu um land allt, stórefla fjölbreytta og kraftmikla matvælaframleiðslu og tryggja framleiðslu á þaulreyndasta byggingarefni allra alda, timbri.

Búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ vinnur statt og stöðugt að framþróun á ört stækkandi skógarauðlind fyrir bændur, en ekki síður landsmenn alla. Flókið regluverk á ýmsum sviðum getur torveldað starfið. Staðlaðar timburímyndir erlendra tískublaða hafa fælingarmátt sé ekki þekking og færni við að snúa þeim skilaboðum fólkinu til hagsbóta (hér er átt við gæða- og upprunastaðla (CE, FSC). Stjórnvöld eru í lykilstöðu núna til að móta íslenskan landbúnað, íslenskt búsetumynstur og íslenska framtíð, eftir okkar höfði.

Harðgerð nytjatré hafa sannað sig á íslenskri grundu. Reynslumiklir skógarbændur hafa sannað sig við ræktun skóga. Traustir ráðunautar og kennarar á öllum skólastigum eru ávallt reiðubúnir að miðla af reynslu sinni og þekkingu og vinir okkar í Skandinavíu sömuleiðis. Það er svo margt sem deildin vinnur að á hverju einasta ári; fyrir skógarbændur, fyrir verðandi skógarbændur og síðast en ekki síst, fyrir framtíð Íslands.

Gleðileg jól og farsælt komandi vaxtarár.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f