Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Áhrif ójafnvægis á rafmagni á nautgripi geta verið margvísleg og geta til dæmis valdið minni nyt kúa.
Áhrif ójafnvægis á rafmagni á nautgripi geta verið margvísleg og geta til dæmis valdið minni nyt kúa.
Mynd / GBE
Á faglegum nótum 19. janúar 2023

Jarðtengingar innréttinga og tækja í fjósum mikilvægar

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nautgripir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir ójafnvægi á rafmagni, hvort heldur sem er spennu eða straumi, og eru til ótal dæmi um að minni háttar útleiðslur, uppsöfnuð spenna ásamt slökum jarðtengingum hafi haft veruleg neikvæð áhrif á skepnurnar og þar með framleiðslu viðkomandi bús.

Vandamálið er að nautgripirnir eru t.d. miklu næmari fyrir spennu en við mannfólkið og því átta bændur sig oft ekki á því að þetta sé raunverulegt vandamál.

Áhrifin á gripina geta verið margvísleg, en líklega eru algengustu áhrifin minni afurðir og þá sérstaklega nyt kúa. Oftar en ekki er það vegna spennu í kringum drykkjarker sem valda því að þær drekka ekki mikið meira en þær neyðast til og það hefur bein áhrif á afurðasemina. Þetta sést t.d. með því að drykkjarloturnar eru fáar en langar, enda ekki eftirsóknarvert að fá straum í hvert skipti sem granirnar snerta vatnsyfirborðið.

En til eru líka dæmi um færri heimsóknir kúa í mjaltaþjón eða það að sækja þarf margar kýr í mjaltir, vegna þess að þær koma ekki sjálfar inn í mjaltaþjónana o.s.frv.

Oft byrja bændur á því að skoða aðra þætti eins og fóðurgæðin, orkustigið og þess háttar og grunar mögulega ekki að framangreind vandamál séu á ferðinni.

Ekki líklega júgurbólguvaldur

Samkvæmt úttekt áskólans í Wisconsin er ekkert sem bendir til þess að minni háttar smáspenna eða straumur sé beinn júgurbólguvaldur, en margir bændur hafa talið svo vera. Ótal rannsóknir hafa verið gerðar á þessu, með mismunandi mikilli spennu, og fylgst með áhrifum á kýrnar og heilsufar þeirra. Hins vegar sýna sömu rannsóknir að straumur hefur bein áhrif á atferli gripanna. Þannig sýna rannsóknir að jafn lítill straumur og 2,5 milliamper hefur áhrif á u.þ.b. 5% kúnna, með öðrum orðum þá eru kýrnar misnæmar sjálfar fyrir straumi.

Sé mælanlegur straumur 4,8 milliamper mælast viðbrögð hjá helmingi gripanna og sé straumurinn 8,5 milliamper má búast við því að svo gott sem allir gripir sýni einhver viðbrögð, en áhrifin geta verið t.d. eyrnakippir eða hreyfing á nösum.

Sem sagt minni háttar og til þess að straumurinn eigi að hafa áhrif á t.d. vatnsneyslu, þá þarf mæligildið að vera þrefalt hærra en hæsta gildið sem hér að framan getur.

Samkvæmt bandarískum leiðbeiningum er bændum ráðlagt að halda mælanlegum straumi innréttinga undir 2 milliamperum.

Jarðtengingar þurfa að vera gerðar af fagfólki og ekki eins og hér sést.

Sótti þriðjung kúnna í mjaltir

Það eru til mörg sláandi dæmi um þetta og í Danmörku hefur verið lögð töluverð áhersla á að koma í veg fyrir vandamálið. Oft er vel búið að öllu þegar fjós eru tekin í notkun en svo byrja vandamálin mögulega hægt og rólega.

Þetta var t.d. tilfellið hjá bóndanum Jakob Skov, sem á kúabú með því skemmtilega nafni Hestbækgård, en hann er með 300 kýr og mjaltaþjóna.

Á búinu hafði hann ekki orðið var við nein vandamál fyrr en hann fékk sér viftur til að kæla kýrnar. U.þ.b. ári síðar fóru þær að vera óþekkar við að fara sjálfar í mjaltir og hægt og rólega jókst fjöldi þeirra kúa sem þurfti að sækja og endaði í þriðjungi þeirra. Hann þurfti sem sagt að reka 100 kýr í mjaltir á hverjum degi! Þegar þarna var komið var hann búinn að reyna að laga fóðrið og gera ýmislegt en athugaði ekki hvort einhvers staðar væri útleiðsla eða uppsöfnuð spenna. Í ljós kom að vifturnar voru vandamálið og þurfti að jarðtengja þær almennilega.

Ástæðan fyrir því að þetta kom ekki strax í ljós, þ.e. þegar vifturnar voru settar upp, var líklega sú að vifturnar voru upphaflega ekki rétt jarðtengdar og fór því spenna að hlaðast upp við þær og magnast þegar á leið. Haft hefur verið eftir Jakob Skov að hann láti nú mæla allt upp reglulega, vitandi að slit á rafmagnstækjum og -tólum getur haft svona mikil áhrif.

Lélegur frágangur getur haft mjög slæm áhrif á nautgripi.
Mistök ekki eina skýringin

Þó svo að oftast megi rekja vandamálið til þess að gerð hafa verið einhver mistök við lagningu á raflögnum eða hönnun á raftækjum, þá er það ekki alltaf tilfellið.

Þegar rafmagnstæki slitna getur vandamálið einnig farið að gera vart við sig, en einnig getur einfaldlega staðsetning raftækja haft svipuð áhrif samkvæmt reynslu bænda í Danmörku.

Hafa allt jarðtengt

Það sem er mikilvægast fyrir nautgripina er að hafa bæði raflagnir og raftæki vel jarðtengd og tryggja að jarðtengingin sé raunveruleg, þ.e. nái að leiða vel niður í jarðveginn en til eru mörg dæmi um lélega jarðtengingu húsa og að jafnvel hafi þurft að grafa djúpt niður eða bora í jarðveg til að fá jarðtengingu sem virkar. Þá er gríðarlega mikilvægt að allar stál- innréttingar séu vel og rétt tengdar saman við jarðtenginguna, svo smáspenna geti hvergi hlaðist upp og þannig haft áhrif á gripina.

Þess má geta að í hinu nýja hverfi í Garðabæ, Urriðaholti, hefur verið sérstaklega horft til góðs jarðsambands og er þar notað 5 víra dreifikerfi rafmagns í stað hins hefðbundna fjögurra víra kerfis. Fimmti vírinn, sem er sérstakur jarðvír, er tengdur úr hverju húsi við sérstök jarðskaut sem boruð hafa verið víða í Urriðaholti. Tilgangurinn með þessu bætta jarðsambandi er m.a. að koma burtu yfirtíðni, sem ótal straumbreytar og ljósdeyfar valda, og um leið að koma í veg fyrir önnur straumvandamál

Í Urriðaholti í Garðabæ hefur verið sérstaklega horft til góðs jarðsambands og er þar notað 5 víra dreifikerfi.

Hvar á að mæla?

Danskir ráðgjafar leggja til að bændur passi upp á að fjarlægja rafmagnstæki sem ekki eru lengur í notkun og skoða vel hvort fjósin séu vel og rétt jarðtengd. Þá er mælt með því að fá fagmenn, sem nota stafræn mælitæki, til að mæla út fjósin og athuga hvort smáspenna eða útleiðsla sé í raun vandamál.

Séu rétt mælitæki notuð er hægur vandi að skrá niður mælingarnar fyrir og eftir breytingar og þar með sjá svart á hvítu hvort tekist hafi að leysa vandamálið. Sérstaklega skal mælt á þeim stöðum sem hafa áhrif á gripina og þeirra algengustu snertifleti við umhverfið.

Þá hafa oft fundist vandamál í rafmagnstöflum, sérstaklega vegna lausra tenginga, sem mikilvægt er að láta skoða. Enn fremur er algengt að það finnist vandamál og útleiðslur við fóðurkerfi og mykjudælur sem og við spennubreyta almennt. Rétt er að geta þess að ef það mælast vandamál annars staðar, þ.e. ekki á stöðum þar sem gripirnir ganga um eða komast í snertingu við, þá er það ekki eitthvað sem skiptir gripina máli þar sem þeir eru ekki næmir fyrir óbeinum áhrifum.

Skylt efni: dýravelferð

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...