Íslensk alifuglarækt á góðum stað
Jón Magnús Jónsson, frá Reykjum í Mosfellsbæ, hefur verið formaður deildar alifuglabænda hjá Bændasamtökum Íslands síðan í byrjun árs. Hann stundar kjúklinga- og kalkúnaeldi ásamt Kristínu Sverrisdóttir, eiginkonu sinni, og fjölskyldu. Þau eiga jafnframt sláturhúsið Ísfugl, sem sér um slátrun og dreifingu á kjöti, bæði fyrir Reykjabúið og aðra bændur sem Ísfugl er í samstarfi við.
Jón er af mörgum þekktur sem Nonni Maggi og segir hann gælunafnið hafa fylgt sér alla tíð og notað til aðgreiningar frá öðrum Jónum. Hann er fæddur og uppalinn á Reykjum þar sem foreldrar hans ráku alifuglabú. Jón er yngstur sinna systkina og segist hafa tekið þá ákvörðun að helga sig búskapnum liðlega tvítugur. Fór hann þá í nám á Hvanneyri sem leiddi hann í framhaldinu af því í landbúnaðarháskóla í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum þaðan sem hann lauk BS-gráðu í alifuglarækt 1989.
„Við Kristín, konan mín, komum inn í reksturinn árið 1989, en þá var þetta eign fjölskyldunnar. Við keyptum Reykjabúið árið 2005 og síðan Ísfugl árið 2012.“ Sláturhúsið Ísfugl var upphaflega hlutafélag bænda sem voru í kjúklingarækt og þjónustaði þá og sinnir því hlutverki enn þá.
Þeir bændur sem leggja inn hjá Ísfugli að auki við Reykjabúið eru Jón Ögmundsson í Hjallakróki, Kristján Gunnarsson á Neslæk og Jóhannes Sveinbjörnsson og Ólöf Björg Einarsdóttir á Heiðabæ. Jón Magnús telur mikilvægt að áfram séu sjálfstæðir alifuglabændur. Að auki við þá sem taldir eru hér að ofan eru nokkrir minni aðilar sem leggja inn hjá öðrum afurðastöðvum.
Mikilvægt að búgreinar standi saman
Reykjabúið hefur ræktað kalkún frá því fyrir árið 1950 og er eina fyrirtækið sem er í þeim búskap á landinu í dag. Þá bendir Jón á að á Íslandi séu þrjú fyrirtæki sem slátri kjúklingum og selji kjöt á markað. Að auki við Ísfugl séu það Reykjagarður, sem er í eigu SS og selur undir vörumerkinu Holta, og Matfugl, sem er í eigu Langasjós ehf.. Af þessum fyrirtækjum er Ísfugl minnst með rétt undir 20 prósent markaðshlutdeild af alifuglakjöti ef bæði kalkúnn og kjúklingur er tekinn með. Jón áætlar að hin fyrirtækin tvö séu álíka stór þegar kemur að kjúklingarækt, en svo er í kringum 20 prósent af kjúklingakjöti á markaðnum innflutt.
Þar sem deild alifuglabænda hjá Bændasamtökunum er fámenn segir Jón ákveðna áskorun að halda uppi félagsstarfi. „Við náðum hins vegar öllum alifuglabændum til þess að vera með í Bændasamtökunum sem er mjög jákvætt. Menn sjá þýðinguna og alvöruna í því að standa saman allir sem einn og vera partur af hagsmunagæslu annarra í landbúnaði. Við sem erum í búskap tölum öll fyrir því að innlend framleiðsla sé sem mest og það sameinar okkur þvert á búgreinar.“
Sóttvarnir skipta miklu máli
„Ísland er á góðum stað þegar kemur að heilbrigði í alifuglarækt,“ segir Jón. Af því leiðir að vaxtarhraði kjúklinga á Íslandi er hvað mestur í heiminum. „Hér eru lítil afföll, mikið heilbrigði og góður aðbúnaður. Hér er ódýr orka fyrir kyndingu og loftræstingu og við leggjum mikið upp úr þrifum. Allt í umhverfinu er gott fyrir þennan fugl til að ná símum hámarkshraða í vexti,“ segir Jón.
Ræktunarferlið í kjúklingaræktinni byggist upp á sex vikna lotum. Þegar búið er að hreinsa eldishúsin hátt og lágt og dreifa spæni á gólfið er hægt að taka við nýjum hópi af ungum. Þeir vaxa þar í um fimm vikur áður en þeir eru sendir í sláturhús. Þá er miðað við að vika fari í að moka út skít og hreinsa húsin til þess að þau verði klár fyrir næsta hóp. Til þess að tryggja heilbrigði fuglanna er mikil áhersla sett á sóttvarnir og má enginn fara inn í húsin án þess að skipta um skó og fatnað.
Hver hópur skimaður oft
„Við pössum upp á eins og kostur er að bera ekki inn nein smitefni úr umhverfinu,“ segir Jón Því skapist alla jafna ekki ástæða til að bólusetja fugla eða nota lyf. Hann bendir á að bólusetningin sem slík minnki ekki öryggi eða gæði kjúklingakjötsins en hún getur hægt á vexti fuglanna.
„Við erum svo heppin hér á Íslandi að sjúkdómastaða okkar er afar góð og lítið af alifuglasjúkdómum hér á landi. Þetta er staða sem við viljum fyrir alla muni varðveita og viðhalda. Á síðustu árum hafa komið upp smit af alvarlegum alifuglasjúkdómum sem tekið var á með festu. Hingað til hefur tekist að uppræta meinið,“ segir Jón.
Greinin gekk í gegnum salmónellukrísu á milli 1980 og 1990 og kamfílobakter-sýkingar upp úr aldamótum,“ segir Jón. Allir alifuglabændur fóru því rækilega í gegnum alla ferla hjá sér og hafa þessar sýkingar verið afar sjaldgæfar síðan þá. „Hver einasti hópur er prófaður fyrir kamfílóbakter og salmónellu við slátrun og fyrir slátrunina sjálfa.“
Ef upp kemur salmónella þarf að fullelda allt kjötið áður en það fer á markað, en hægt er að frysta það í nokkrar vikur til að drepa kamfílóbakter. „Þetta er kerfi sem virkar algjörlega, því að það er verðfall á kjúklingi sem er ekki ferskur og bændur vilja ekki fá minna fyrir afurðina sína. Ég myndi segja að kjúklingakjöt sé mjög örugg vara í dag,“ bætir Jón við.
Stofnhænur koma frá ræktunarstöðvum erlendis
Hingað til lands koma svokallaðir foreldrafuglar í eggjum sem keyptir eru af alþjóðlegu fyrirtæki sem sérhæfir sig í kynbótum og ræktun á kjúklingi. Þeim er ungað út og eru þeir aldir á einangrunarstöð. Jón segir þennan þröskuld á innflutningi foreldrafugla ákveðna leið til að minnka hættuna á því að hingað berist sjúkdómar.
„Þegar foreldrafuglarnir eru sex til sjö vikna er tekið blóðsýni til að skima fyrir sjúkdómum sem eru algengir í nágrannalöndunum okkar. Ef allt er í lagi eru þeir afhendir til þeirra sem eru í stofnfuglarækt.“
Þrjú stofnbú eru í landinu sem tengjast hverju kjúklingasláturhúsi fyrir sig. Þar eru framleidd frjó egg undan áðurnefndum foreldrafuglum sem fara í útungunarvélar. Þannig eru framleiddir kjúklingahópar sem fara í eldishús. „Ferillinn í útungunarstöðinni tekur þrjár vikur og þegar bóndinn sækir ungana er hann klár með sitt hús – hreint og heitt, með fóðri og vatni. Svo hefst eldisferillinn sem tekur 32 til 35 daga. Þá er fuglinn sendur í sláturhús og er klár á markað daginn eftir.“
Erfitt að keppa í verðum
Kjúklingarækt á Íslandi fær engan beinan stuðning frá ríkinu, en nýtur hins vegar tollverndar. Jón telur að um 20 til 25 prósent kjúklingakjöts sem er neytt á Íslandi sé innflutt. Við eigum engan möguleika á að keppa í verði við framleiðslu sem kemur frá kornræktarlöndunum í kringum okkur og því skipta tollarnir máli til að viðhalda íslenskri framleiðslu. Þá er ekki hægt að koma með kjúkling ferskan til landsins, nema með því að senda hann með flugi,“ segir Jón.
Stærstu áskorunina fyrir alifuglarækt segir Jón vera að innflutningur er stöðugt að aukast og taka af markaðshlutdeild íslenskra bænda. „Ég held að okkur sé best borgið að framleiða íslenskan kjúkling hér með hreinu vatni og í góðu umhverfi í nálægð við markað og neytendur. Innflutta varan nær okkur aldrei í ferskleika og öryggi kjötsins.“
Eru með litla verslun
Kjúklingavörurnar frá Ísfugli eru fáanlegar í verslunum eins og Nettó, Krambúðinni, Fjarðarkaupum og Melabúðinni. Í kringum stórhátíðir er kalkúnninn frá Reykjabúinu fáanlegur í flestum verslunum. Þá er Reykjabúið með verslun sem er opin á miðvikudögum og fimmtudögum milli 16 og 18 þar sem hægt er að kaupa hefðbundið fuglakjöt og sjaldgæfari bita.
