Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Aðbúnaður nautgripa á Indlandi getur verið æði ólíkur á milli búa.
Aðbúnaður nautgripa á Indlandi getur verið æði ólíkur á milli búa.
Mynd / Snorri Sigurðsson
Á faglegum nótum 13. janúar 2025

Indversk mjólkurframleiðsla enn að aukast

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Á sama tíma og mjólkurframleiðsla virðist standa nokkuð í stað eða jafnvel dragast heldur saman í Evrópu, þá er allt annar gangur í þessari búgrein í Asíu og Afríku.

Þar vaxa búgreinar sem byggja á framleiðslu mjólkurafurða enda mikil eftirspurn eftir þessum vörum, sér í lagi í þróunarlöndunum þar sem fleiri og fleiri hafa sem betur fer áttað sig á mikilvægi þessara afurða til að fullnægja næringarþörfum íbúanna. Auk þess vegnar bændum þróunarlandanna, sem eru með nautgripi, alla jafna betur en bændum sem einvörðungu eru í grænmetis- korn-, geita- eða sauðfjárrækt.

Skýringin er talin helst felast í reglulegu tekjuflæði vegna mjólkursölu, en mjólkurframleiðsla er nánast eina búgreinin í þróunarlöndunum sem gefur bændum tekjur allt árið um kring. Þá hefur afurðaverð mjólkur og mjólkurafurða haldist nokkuð vel í hendur við raunkostnað framleiðslunnar og hættan á því að framleiða með tapi er minni en í búgreinum sem eingöngu fá tekjur einu sinni á ári.

Mesta framleiðsla í heimi

Indland er í dag langstærsta framleiðsluland heims, enda landið sjálft gríðarlega stórt svo það þarf vart að koma á óvart að landið standi framarlega í mjólkurframleiðslu. Áætlað er að mjólkurframleiðsla landsins í ár verði um 216,5 milljarðar lítra, eða um 1.500 sinnum meiri mjólkurframleiðsla en ársframleiðslan á Íslandi er! Indland ber raunar höfuð og herðar yfir önnur lönd og er í dag eitt og sér með um 20% allrar mjólkurframleiðslu heimsins!

Mjólk og mjólkurvörur eru einnig afar mikilvægur hluti af mataræði Indverja og því rík hefð fyrir neyslu mjólkurvara í landinu. Þá hefur efnahagur landsmanna vaxið mikið undanfarin ár og alþekkt er samhengi aukinnar neyslu mjólkurvara og aukinna ráðstöfunartekna. Það þarf því ekki að koma á óvart að mikill vöxtur er í búgreininni á Indlandi og undanfarin ár hefur framleiðslan vaxið jafnt ár frá ári, bæði frá bændum með mjólkurkýr en einnig bændum sem búa með vatnabuffalóa, en mjólk þeirra er ekki síður vinsæl á Indlandi.

Dæmi um kúabú í stærra lagi á Indlandi þar sem allir gripir liggja á taði.

Útflutningur hafinn

Nú er svo komið að landið er þegar orðið nokkuð stór útflytjandi á mjólkurvörum en ekki eru nema fáir áratugir síðan landið var háð innflutningi mjólkurvara. Útflutningurinn er þó enn fyrst og fremst í formi hráefna fyrir afurðavinnslur og því algengast að útflutningurinn sé í formi mjólkurdufts í stórum sekkjum eða smjörs og osts í stórum einingum. Útflutningurinn er s.s. enn fyrst og fremst sveiflustjórnun á heimamarkaði en talið er að fyrirtækin á Indlandi, sem ekki hafa haslað sér völl með eigin vörumerki að nokkru ráði á erlendum mörkuðum, muni gera það í ríkara mæli á komandi árum.

80 milljónir kúabúa!

Í dag er talið að á Indlandi séu um 80 milljónir kúabúa, flest með 2–3 gripi en svo eru til kúabú á Indlandi sem eru með þúsundir kúa. Það sem er í raun fróðlegt og merkilegt við indverska mjólkurframleiðslu er að stór hluti hennar er í raun aukabúgrein, ef þannig mætti að orði komast, þ.e. salan á mjólk til afurðastöðva er ekki aðaltilgangur kúabúanna. Þannig er stór hluti mjólkurinnar notaður heima fyrir og það sem ekki er notað þar er þá selt. Umframmagnið, sem stundum er ekki nema örfáir lítrar í mál, er þá sent á næsta söfnunarstað mjólkur. Þá eru mörg búanna ekki að leggja inn mjólk daglega, enda fer það eftir þörfinni heima fyrir.

Sem dæmi má nefna að eitt samvinnufélag kvenna á Indlandi, sem kallast Sundarini, er með daglega framleiðslu upp á um 2.000 lítra mjólkur en í samvinnufélaginu eru 4.500 konur. Meðalinnleggið er því innan við hálfur lítri að jafnaði á dag svo það segir sig sjálft að suma daga eru þessar konur ekki að leggja mjólkina inn heldur nýta hana heima. Þar sem mjólkurmagnið er lítið er væntanlega ekki sérlega hagkvæmt fyrir þessa bændur að kosta miklu til að fara með mjólkina á söfnunarstað mjólkur. Því er það svo að ef bændurnir búa skammt frá fara þeir sjálfir með mjólkina beint, t.d. á hjólum eða skellinöðrum, en ef um lengri veg er að fara eru það oftast verktakar á skellinöðrum sem sjá um að safna saman mjólk frá nokkrum bændum og keyra með á söfnunarstað mjólkur.

Í öðrum tilvikum, þar sem bændurnir eru mögulega með nokkrar kýr og því meiri framleiðslu á mjólk, er mjólkinni safnað af afurðafélaginu sjálfu og er það oftast gert með pallbílum sem geta borið 15–20 mjólkurbrúsa.

Þau bú sem eru svo enn stærri en þetta, þá með einhverja tugi, hundruð eða þúsundir kúa, eru svo þjónustuð af hefðbundnum tankbílum sem sækja mjólkina á búin. Í þessum tilvikum eru búin oftast einnig með eigin mjólkurkæla.

Algeng aðferð við söfnun mjólkur á Indlandi þar sem bændur koma með mjólkurbrúsa á söfnunarstað.

Einföld mjólkursöfnun

Langstærsti hluti mjólkurinnar á Indlandi er enn veginn inn í afurðastöðvar, sem oft eru samvinnufélög en þó ekki alltaf, með frekar einföldum hætti. Bóndinn setur mjólkina í mjólkurbrúsa og sendir í næstu söfnunarstöð mjólkur. Þar er mjólkin, sem er ókæld á þessum tímapunkti, gæðametin. Þetta ferli tekur um eina mínútu og ef mjólkin stenst allar helstu lágmarkskröfur er brúsinn tæmdur í stórt ker. Þar er hún vegin og magnið skráð og síðan er henni dælt yfir í mjólkurtank sem kælir mjólkina niður. Þaðan fer hin kælda mjólk svo með tankbíl í næstu afurðastöð. Frá stærri búum, sem þá eru sjálf með mjólkurtanka, sækja afurðastöðvarnar mjólkina á eins til tveggja daga fresti.

Það þarf ekki alltaf mikla tækni til þess að flytja mjólk á Indlandi.

Alþjóðlegu fyrirtækin mætt

Samhliða örum vexti mjólkurvörumarkaðarins á Indlandi hefur áhugi hinna stóru alþjóðlegu fyrirtækja í mjólkuriðnaði á landinu vaxið einnig sem skiljanlegt er, enda ef þau stefna á vöxt þá er erfitt að sjá hann gerast í Evrópu eða Norður-Ameríku nema að litlu leyti. Þessi fyrirtæki horfa því nú orðið til bæði Afríku og Asíu í þessum tilgangi og hafa nánast öll stærstu fyrirtæki heims nú komið sér fyrir á indverska markaðinum með eigin framleiðslu og/eða eru í samstarfi við heimamenn um sölu. En það eru fleiri sem sjá tækifærin á Indlandi og eru ný merki og nýjar vörur að skjóta upp kollinum reglulega á markaðinum.

Ríkisstjórnin styður uppbygginguna

Þessi öra þróun mjólkurframleiðslu á Indlandi á sér margvíslegar skýringar en margir, sem e.t.v. minna þekkja til landsins og landbúnaðarins, halda að skýringin á þessu sé fyrst og fremst trúarlegs eðlis, þ.e. að kýr séu heilagar og því fjölgi þeim svo ört. Það er þó hreint ekki meginskýringin, heldur sú staðreynd að efnahagur landsins hefur batnað mikið og samhliða hefur kaupmáttur aukist verulega eins og áður segir. Þá hefur það verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að bæta næringarástand íbúa landsins og því hefur það verið markmið hennar að íbúar landsins, allir 1,5 milljarðar að tölu, eigi að geta notið mjólkurvara með einum eða öðrum hætti þrisvar á dag! Til þess að tryggja þetta næringarmarkmið hefur ríkisstjórnin sett á fót öflugt stuðningskerfi og stutt þannig dyggilega við uppbyggingu mjólkurframleiðslunnar í landinu.

Aldrei fyrr hefur t.d. verið jafnmiklum fjármunum hins opinbera á Indlandi varið til uppbyggingar mjólkurframleiðslu landsins og felast styrkirnir m.a. í því að auðvelda bændum að kaupa kýr og að fá tæknilega aðstoð eða ráðgjöf. Þá hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir eflingu mjólkursöfnunar og -vinnslu með beininum stuðningi við afurðastöðvar, sem og stutt við markaðsmál greinarinnar og gæðaeftirlit og einnig gert töluvert til þess að tryggja gott aðgengi að fóðri, erfðaefni og dýralæknaþjónustu. Fá lönd í heiminum í dag virðast vera með viðlíka víðtækt stuðningskerfi.

Skylt efni: Indland

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...