Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Í gegnum moldviðrið
Leiðari 30. maí 2025

Í gegnum moldviðrið

Höfundur: Linmiao Xu

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenskum landbúnaði á þessari öld og væri horft lengra aftur í tímann blasti við nánast ókennileg mynd. Búið var með sauðfé á nánast hverjum bæ og garðyrkja var til að mynda lítil þar til hún byrjaði með markvissum hætti á níunda áratugnum. Nautakjötsframleiðsla hefur aukist frá því á síðustu öld en framleiðsla á alifuglakjöti hefur þó aukist mest af öllum kjöttegundum, þótt framleiðsla á svínakjöti hafi einnig aukist nokkuð. Samþjöppun hefur orðið mikil í öllum þessum greinum og haft jákvæð áhrif á reksturinn þó að enn vanti nokkuð upp á það að bændur séu almennt í ábatasömum rekstri þegar horft er til beinna tekna af framleiðslunni.

Sauðfjárbændum fækkaði mikið síðustu áratugi fyrir aldamótin og enn meiri samþjöppun hefur átt sér stað í búgreininni síðan. Frá árinu 2008 hefur þeim fækkað um hátt í fjögur hundruð. Samþjöppunin hefur skilað sér í betri rekstri en samt eru sauðfjárbændur aðeins með að jafnaði 45,3% af meðalmánaðarlaunum á íslenskum vinnumarkaði, sem eru 681.000 krónur. Það eru meðallaun talsvert undir 400.000 krónum.

Þetta kom fram í grein frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í síðasta blaði um afkomu sauðfjárbúa árið 2023. Þar kom einnig fram að þrátt fyrir augljós merki um batnandi afkomu í greininni þá er rekstrarumhverfi sauðfjárbúa heldur ekki með þeim hætti að beinar tekjur af framleiðslu sauðfjárafurða standi undir nauðsynlegum fjárfestingum, tæknivæðingu og nýliðun.

Bændur hafa með öðrum orðum unnið hörðum höndum að því að aðlaga sig að nýjum tímum og breyttum aðstæðum með aukinni samþjöppun og hagræðingu í rekstri en það hefur ekki dugað til. Þeir hafa því haldið áfram að leita tækifæra til hagræðingar í rekstri sínum en þó með það í huga að hagræðingin komi ekki niður á neytendum. Á sama tíma hafa þeir mætt auknum kröfum í umhverfis- og loftslagsmálum með eftirtektarverðum árangri og skilað afurðum á markað sem eru með þeim hreinustu og heilnæmustu í Evrópu. Jafnframt hafa þeir í rekstri sínum mætt miklum niðurskurði á opinberum stuðningi við greinina allt frá síðustu aldamótum en í flestum samanburðar- og samkeppnislöndum hefur sá stuðningur haldist eða aukist.

Það moldviðri sem þyrlast hefur upp á síðustu misserum vegna breytinga á búvörulögum á síðasta ári, sem fjallað er um hér annars staðar á síðunni og gáfu kjötafurðastöðvum undanþágur frá samkeppnislögum til samvinnu og samruna, það moldviðri mun ekki hjálpa bændum að bæta rekstur sinn eða hag neytenda. Þvert á móti blasir nú við að sá hringlandi sem verið hefur á málinu skili þveröfugri niðurstöðu. Spurningin er hvaða afleiðingar það hefur í för með sér fyrir alla aðila máls, þar á meðal ríkið sem gæti verið skaðabótaskylt vegna þess hvernig það hefur á haldið.

Vonast verður til að einhver lærdómur verði dreginn af þessum málsatvikum öllum saman. Þegar rýnt er í gegnum storminn kemur nefnilega í ljós hópur bænda sem hefur á undanförnum áratugum unnið hörðum höndum að því að bæta rekstur sinn og afkomu með það í huga að áfram sé hægt að halda úti fyrsta flokks matvælaframleiðslu í landinu öllum til heilla. Það ætti að vera öllum augljóst, sem á annað borð vilja sjá, að gríðarleg tækifæri felast í því að taka höndum saman um að vinna með bændum að þessu markmiði.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...