Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hyundai Ioniq 5 er vel útbúinn rafmagnsbíll sem gefur þekktum lúxusbílamerkjum ekkert eftir. Öll hönnun bílsins að utan sem innan er vel úthugsuð.
Hyundai Ioniq 5 er vel útbúinn rafmagnsbíll sem gefur þekktum lúxusbílamerkjum ekkert eftir. Öll hönnun bílsins að utan sem innan er vel úthugsuð.
Mynd / ÁL
Á faglegum nótum 10. október 2022

Hyundai jafnast á við þýska lúxusbíla

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið prófaði á dögunum nýjan rafmagnsbíl frá kóreska bílaframleiðandanum Hyundai. Þessi bíll er svipaður að stærð og Skoda Enyaq iV og því má eflaust flokka hann sem jeppling. Allt yfirbragð bílsins ber með sér vandaða hönnun og smíði.

Þrátt fyrir að það sjáist ekki á myndum er Ioniq 5 á stærð við jeppling. Flest ytri mál bílsins eru svipuð og á Skoda Enyaq.

Það fyrsta sem sést þegar gengið er að bílnum er hversu veglegur hann er. Af myndum af dæma gæti maður haldið að bíllinn sé sambærilegur Volkswagen Golf að umfangi en hann leynir á sér. Hugsanlegt er að stór dekk og stutt húdd valdi þessari sjónhverfingu.

Kassalaga en rennilegur

Hönnuðir bílsins hafa greinilega fylgt þema sem hefur verið skarpar línur og bein horn og er hægt að lýsa yfirbragðinu sem kassalaga. Þrátt fyrir það er minni loftmótstaða á þessum bíl en á Hyundai Kona.

Mjög afgerandi eru ljósin, sem eru fjórir ferningar að framan og að aftan ótal litlir ferhyrningslaga reitir sem minna á grófa pixla.

Afturljósin minna á grófa pixla. Skottið er af vel nothæfri stærð og gólfið flúttar við afturhlerann.

Ytra útliti bílsins er hægt að lýsa sem framtíðarlegu þar sem innblástur er sóttur í bíla og tækni frá níunda áratugnum.

Vönduð innrétting

Þegar sest er upp í bílinn blasa við notandanum vel formaðir íhlutir sem eru þéttir viðkomu og bera með sér mikil gæði. Í mælaborðinu eru tveir jafnstórir skjáir, annar er beint fyrir framan ökumanninn og sýnir grunnupplýsingar eins og aksturshraða og drægni, á meðan sá sem er fyrir miðju nýtist sem margmiðlunarskjár. Ásjónan er öll minimalísk og eru hnappar í algjöru lágmarki.

Sætin styðja vel við líkamann og vegan-leðrið gefur ekta nautsleðri lítið eftir hvað varðar áferð og útlit. Stillingar á rafmagnssætinu eru fyrirhafnarlausar. Þar sem bæði er hægt að stilla hæð sessunnar og mjóbaksstuðning ættu flestir að geta komið sér vel fyrir.

Stýri fer ekki nógu langt aftur

Stýrið er bæði velti- og aðdráttarstýri, en takmarkaður stillanleiki olli vonbrigðum. Þar sem ekki er hægt að draga stýrið nógu langt aftur, geta hávaxnir ökumenn þurft að teygja sig óþægilega langt til að ná taki á stýrinu eða stilla sætið framar en þeir kjósa sér. Skoda og Volkswagen eru með betri stillanleika hvað þetta varðar.

Innrétting bílsins er smekkleg úr vönduðum efnum, sætin þægileg og stillanleg með rafmagni. Helsti ókosturinn er að ekki er hægt að draga stýrið nógu langt aftur fyrir hávaxna ökumenn.

Aftursætin eru rúmgóð og geta þrjú börn eða tveir fullorðnir farþegar setið þar í viðunandi þægindum með nægu plássi fyrir fætur og höfuð. Sætisbakið er hægt að stilla eftir þörfum og stendur farþegunum til boða að fá hita í sætin. Helst er hægt að finna afturrýminu það til foráttu að sessurnar liggja lágt niðri í gólfinu og munu því hávaxnir farþegar sitja með hnén í hálfgerðri jógastellingu.

Í aftursætunum fer vel um fólk, hvort sem um ræðir þrjá í barnastærð eða tvo í fullorðinsstærð.

Skottið er rúmgott og vel formað. Gólfið flúttar við afturhlerann og þegar aftursætin eru lögð fram liggja þau nánast flöt. Undir húddinu að framan er lítið geymsluhólf á stærð við nestisbox og erfitt að sjá hvað væri hægt að geyma þar.

Agnarsmátt leynihólf er undir húddinu.

Þýtur af stað

Akstursupplifun bílsins er afar jákvæð. Verandi rafmagnsbíll, þá er enginn titringur og hávaði frá sprengimótor. Bíllinn er með tvo rafmagnsmótora – einn fyrir hvorn öxul – sem gefa samtals 325 hestöfl. Það er því ekkert mál að láta sig sökkva í sætin þegar tekið er af stað á rauðu ljósi. Allt þetta afl er algjör óþarfi nema fyrir skemmtanagildið í þau örfáu skipti sem ökumaðurinn nennir að þjóta af stað.

Þrátt fyrir að Hyundai Ioniq 5 sé 2.095 kílógrömm að þyngd, þá finnur maður lítið fyrir því. Í fyrsta lagi er gegndarlaust aflið frá áðurnefndum mótorum það mikið að bíllinn kemst upp í 100 kílómetra hraða á einungis 5,2 sekúndum. Í öðru lagi er mest öll þyngdin í rafhlöðunum sem eru undir gólfinu sem heldur þyngdarpunktinum neðarlega og gefur stöðugleika.

Eins og að gleyma í handbremsu

Hægt er að velja á milli nokkurra akstursstillinga. Þrjú þrep eru á afli og viðbragði mótoranna sem gefur ökumanninum möguleika á að velja á milli glanna- eða sparaksturs. Einnig eru nokkur þrep á mótorbremsunni.

Í lægsta þrepinu líður bíllinn áfram á svipaðan hátt og venjulegur bíll í hlutlausum. Í hæsta þrepinu er mótorbremsan það mikil að hemlafetillinn verður óþarfur við venjulegan akstur. Upplifuninni af því þrepi má líkja við að hafa gleymt að taka bílinn úr handbremsu.

Margmiðlunarskjár flókinn við fyrstu sýn

Við fyrstu sýn virðist margmiðlunar- kerfið ónotendavænt. Virkni þess er mjög breið þar sem hönnuðirnir hafa reynt að fjarlægja flesta hnappa og koma stillingum fyrir í snertiskjánum. Þær stillingar sem notandinn þarf að hafa sem greiðastan aðgang að, s.s. hljóðstyrkur í hátölurum og miðstöðin, er sem betur fer stjórnað með aðgengilegum rofum.

Eftir markvisst fikt verður margmiðlunarskjárinn skiljanlegur og munu flestir ná tökum á að setja inn áfangastað í leiðsögukerfinu, velja birtustigið á sjónlínuskjánum (e. head-up dislpay) og láta afslappandi snark í eldi spilast í hátölurunum á meðan.

Tölur

Helstu mál bílsins eru eftirfarandi: Hæð: 1.605 mm; lengd: 4.635 mm; breidd 1.890 mm.

Ódýrasta útgáfan af Hyundai Ioniq 5 er af Comfort útgáfunni með afturhjóladrifi og 58 kwh rafhlöðu. Verðið á þeim bíl er 6.490.000 krónur með vsk.

Bíllinn í þessum prufuakstri var af Style útfærslunni, sem er með aðeins betri búnað en ódýrasta útgáfan. Þar með talin eru vegan leðursæti, upphituð aftursæti og sjónlínuskjár.

Þessi bíll kom einnig með fjórhjóladrifi og 77,4 kwh rafhlöðu og kostar samkvæmt verðlista Hyundai á Íslandi, 8.190.000 krónur með vsk.

Skylt efni: prufuakstur

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...