Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hvert ætlum við að stefna?
Mynd / HKr.
Skoðun 28. mars 2019

Hvert ætlum við að stefna?

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir

Breytingar eru hluti af lífinu. Þær verða ýmist vegna einhvers sem við ákveðum sjálf að breyta eða einhverju sem breytist í umhverfi okkar og við höfum lítil áhrif á. Þær breytingar sem við ákveðum sjálf hafa eitthvert markmið – og við erum þá að stefna þangað. 

En hvert stefnir íslenskur landbúnaður? Öll viljum við framleiða góðar vörur á sem hagkvæmastan hátt og hafa af því sanngjarna afkomu. En hvað svo? Hver er framtíðarsýn okkar bænda varðandi landbúnaðinn sem við stundum? Hvernig mynduð þið, lesendur góðir, orða þá framtíðarsýn? Hugsið aðeins um það.

Allur heimurinn er að tala um landbúnað. Allur heimurinn er að velta fyrir sér framtíðinni og fæðunni. Umræðan á Íslandi er hins vegar sett upp á svolítið öðrum forsendum eins og til dæmis orðræðan um innflutning á ófrystu kjöti sýnir. Er það svo að bændur deili þessari sýn? Nú er það alltaf svo að mál í umræðu dagsins geta stundum yfirskyggt stærri sýn á málið, en mig langar til að biðja ykkur að lyfta umræðunni aðeins yfir átakalínuna um innflutning á kjöti og horfa til lengri framtíðar.

Framtíðarsýn

Ég á mér skýra sýn um framtíð landbúnaðar á Íslandi og hvar hann verður staddur eftir einn til tvo áratugi.

Við verðum nær sjálfbær og rekum öflug fjölskyldubú um allt land. Við framleiðum allt svínakjöt, kjúkling, egg, nautakjöt og lambakjöt sem neytt er í landinu. Grænmetisrækt er orðin meiri háttar atvinnugrein eftir að tekin var ákvörðun um að nýting orkuauðlindanna yrði frekar á sviði garðyrkju og ræktunar en stóriðju. Mjólkurframleiðslan er í blóma þar sem við gerum út á sérstöðu okkar og ferðaþjónustan treystir á að bændur byggi landið allt. Loðdýraræktin nær sér á strik, hrossaræktin ber hróður okkar um víða veröld og íslenska geitin hefur vart undan að framleiða mjólk í verðmæta geitaosta. Skógar landsins skapa bændum stöðugar tekjur og lífræn ræktun, sala beint frá býli og ýmis hlunnindanýting vex hratt.  

Sveitin er eftirsótt af ungu fólki sem skapar sér líf úti á landi því það er fullt af tækifærum bæði í hefðbundnum búskap, nýsköpun tengdri búskapnum eða annarri starfsemi. Innviðir sveitanna eru í góðu standi þar sem landið er orðið ljóstengt, þriggja fasa rafmagn komið á alla bæi og vegirnir hafa verið bættir og eru nú allir malbikaðir.   

Á Íslandi ríkir sátt um metnaðarfulla landbúnaðarstefnu. Bændur eru öflugir þátttakendur í að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum með uppgræðslu og skógrækt. Lögð er áhersla á að landbúnaðurinn sé eins vistvænn og hægt er.

Þetta er mín framtíðarsýn, en saman verðum við íslenskir bændur að móta okkar. Við þurfum að velta fyrir okkur á breiðum grunni hvernig við viljum sjá þróunina í landbúnaðinum til frambúðar. Við eigum að setja okkur metnaðarfulla stefnu, þar sem bæði er tekið á því hvernig við viljum sjá landbúnaðinn þróast en ekki síður um þau skref sem við viljum taka til þess að framleiðslan sé í fullkominni sátt við umhverfið. Hvaða leiðir viljum við fara til að ná þessum markmiðum?

Framtíðin er full af tækifærum

Á næstu vikum hefst vinna Bændasamtaka Íslands við að rýna og móta betur stefnu íslenskra bænda. Að verkinu munu koma starfsmenn okkar og aðildarfélög. Þessi stefna á og þarf að verða lifandi plagg sem gefur glögga mynd af því hvert við viljum stefna. En til þess að þetta verði stefnan okkar þá viljum við fá sem flestar hugmyndir. 

Kæru bændur, skrifið niður ykkar sýn eða áherslur því nú köllum við eftir hugmyndum ykkar. Sendið á framtid@bondi.is ykkar sýn. Spennandi verður að heyra frá ykkur. Framtíðin er full af tækifærum og það er okkar val hvernig við nýtum þau tækifæri! Ég hlakka til hennar.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...