Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hvernig verður íslenskur landbúnaður 2040?
Lesendarýni 19. desember 2023

Hvernig verður íslenskur landbúnaður 2040?

Höfundur: Finnbogi Magnússon spámaður.

Mér datt í hug að skella í smá grein þar sem ég set á mig spámannsgleraugun og horfi til hvernig ég sé landbúnað hérlendis þróast fram til ársins 2040.

Finnbogi Magnússon.

Ég mun takmarka mig við umfjöllun um nautgriparækt, sauðfjárrækt og jarðrækt en mjög spennandi tímar eru fram undan í öðrum búgreinum líka og við munum einnig sjá nýjar búgreinar spretta fram eins og t.d. skordýrarækt, sem mun byggja á endurnýtingu lífræns hráefnis.

Þessi grein byggir ekki á djúpum vísindum og ætti því ekki að takast of alvarlega en getur kannski verið ágætis innlegg inn í hugrenningar núverandi og verðandi bænda um hvernig þeir sjá sinn rekstur fyrir sér árið 2040.

Nautgriparækt

Ef framhald verður á þróun undanfarinna ára og ekki gripið til sérstakra aðgerða til að draga úr stækkun mjólkurkúabúa má gera ráð fyrir að þeim muni halda áfram að fækka hratt og verða komin niður í kringum 150 framleiðslueiningar árið 2040 og stór hluti þeirra í meirihlutaeigu hagsmunaaðila og fjárfesta.

Ef við gerum ráð fyrir svipaðri fjölgun landsmanna og ferðamanna á komandi árum og svipuðu neyslumynstri má gera ráð fyrir að heildarframleiðsla mjólkurafurða verði í kringum 200 milljón lítra. Kyngreint sæði ásamt erfðamengisúrvali og flutningi fósturvísa mun gerbreyta ræktunarstarfinu og búum með holdagripahjarðir mun fækka þar sem hreinræktaðir holdagripir sem koma frá mjólkurframleiðslunni munu auka mjög mikið hagkvæmni kjötframleiðslunnar.

Miklar breytingar verða í fóðrun og umhirðu gripanna þar sem greining á ástandi gripanna með gervigreind mun skipa stórt hlutverk og alls konar sjálfvirkni við fóðrun og umhirðu gripanna mun aukast. Turnar munu koma sterkir inn sem fóðurgeymslur enda passa þeir mun betur inn í sjálfvirknipakkann en gryfjur og rúllur. Einhverjir bændur hefja notkun á þurrheyshlöðum með upphituðu súgþurrkunarlofti sem lið í minnkun metanlosunar búanna og framleiðslu mjólkur með sérstaka eiginleika til ostagerðar.

Nýting mykju mun snarbatna og það verður algengt að köfnunarefni og endurunnum fosfór úr seyru verði blandað í mykjuna í stað notkunar á tilbúinum áburði. Stór hluti styrkja til búgreinarinnar mun byggja á dýravelferð og lágmörkun umhverfisspors framleiðslunnar.

Jarðrækt

Landverð mun hækka mjög mikið vegna mikillar eftirspurnar bæði innlendra og erlendra fjárfesta sem munu sækjast eftir hlunnindum og möguleikum á kolefnisbindingu í t.d. skógrækt og uppgræðslu illa gróins lands. Bylting mun eiga sér stað í ræktun og umhirðu ræktarlands samfara aukinni áherslu á hámörkun uppskeru með sem minnstu umhverfisspori. Drenlagnir munu koma sterkar inn og hefðbundnum opnum skurðum verður lokað í stórum stíl sem mun auka hagkvæmni við alla vinnslu landsins mikið. Grunnar vatnsrásir munu koma í stað opinna skurða á flatlendi þar sem þörf er á að koma yfirborðsvatni af ræktarlandi.

Notkun á tilbúnum áburði eins og við þekkjum hann í dag verður mjög lítil en í staðinn verður mikil áhersla á notkun annarra lífrænna hráefna sem áburðargjafa eins og t.d. húsdýraáburðar, seyru og fiskimykju.

Köfnunarefni sem unnið er úr andrúmslofti verður notað til að hækka N hlutfall lífrænu hráefnanna og farið verður að nota sérvirkar örveruflórur til að auka umsetningu jarðvegs og niðurbrot næringarefna og losun fastbundinna efna eins og t.d. fosfórs úr jarðvegi.

Akuryrkja mun aukast mikið og verður áherslan þar bæði á aukna kornrækt en ekki síður á aukna próteinframleiðslu til að mæta núverandi þörf en ekki síður þeirri gríðarlegu viðbótarþörf sem skapast með þeirri margföldun sem mun eiga sér stað í umsvifum fiskeldis.

Ræktun á fóðurrófum/næpum verður umtalsverð til að mæta innlendri fóðurþörf og ræktun á hampi, líni, burnirót, kúmeni og fleiri plöntum sem geyma verðmæt heilsubætandi efni mun skapa góðar tekjur fyrir klára og útsjónarsama ræktendur.

Sala kolefniseininga verður orðin stór hluti af innkomu margra bænda og stór hluti núverandi eyðimarka okkar á láglendi verður komin í umbreytingu yfir í framtíðarræktarland þar sem umsjónarmenn landsins fá greitt fyrir kolefnisbindingu landsins og uppskera um leið próteinríkan plöntumassa sem fer í graspróteinframleiðslu og síðar í lífkolagerð – en lífkolin verða síðan notuð við landgræðslu þar sem þau eru fullkomin til að bæta rakaheldni í rýrum jarðvegi og geyma næringarefni.

Sauðfjárrækt

Fjárbændur munu á þessum tímapunkti hafa gjörbreytt sinni nálgun og munu leggja áherslu á sambærilega nálgun og bændur gerðu í Kanada þegar sambærilegt kerfi og viðgengst hér hafði siglt í strand.

Markaðssetning lambakjötsins mun byggja á áherslu á að lambakjötið sé í sama flokki og villibráð og stærstur hluti kjötsins verður seldur ferskur bæði innan- lands og erlendis og skilaverð verður ca tvöfalt hærra en það er í dag á núvirði. Stór hluti sauðfjár verður alinn á láglendi og margir bændur stunda framleiðslu með þremur sauðburðum á hverjum 2 árum. Búskapurinn mun áfram verða samsettur af litlum einingum með tugi og hundruð fjár þar sem aðaltekjur munu koma annars staðar frá en stærri einingar með þúsundum fjár munu skapa möguleika á góðri afkomu án utanaðkomandi tekna.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...