Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Myndirnar sýna hveiti á Hvanneyri haustið 2021, vorhveiti enn þá grænt og farið er að snjóa.
Myndirnar sýna hveiti á Hvanneyri haustið 2021, vorhveiti enn þá grænt og farið er að snjóa.
Á faglegum nótum 15. júní 2022

Hveitirækt og kynbætur

Höfundur: Anna Guðrún Þórðardóttir & Hrannar Smári Hilmarsson

Hveiti er ræktað hér á landi í fáum hekturum. En talsverðir möguleikar eru á ræktun þess hér á landi og kornið getur verið mikils virði í fóðureiningum fyrir ýmsar skepnur, svo ekki sé minnst á mögulegan virðisauka til manneldis.

Hveiti, eins og margar aðrar korntegundir, skiptist í tvo flokka, vetrar- og vorafbrigði. Vetrarhveiti er sáð síðsumars, það spírar og ætti að mynda nokkurn svörð, svo yfirvetrar það, en skríður og myndar korn árið eftir. Vorafbrigði skríða á sáðárinu. Lifi vetrarhveitið af íslenskan vetur mun það alla jafna þroska korn, en vorhveitið ekki nema í allra bestu árum. Ræktun vetrarhveitis tekur því tvö ræktunartímabil en hafi bændur jarðnæði er það ekki þröskuldur. Auk þess er það hentugt að plægja upp tún eftir slátt um mitt sumar þegar jarðvegurinn er sannarlega tilbúinn og háannatími vorsins liðinn.

Vetrarhveitið þroskað og
uppskorið tímanlega.

Niðurstöður rannsókna hér á landi sýna að vetrarhveiti getur skilað mikilli uppskeru, og af talsverðum gæðum. En það á til að verða hávaxið og leggjast flatt við jörð þegar kemur að því að þreskja. Að auki getur það misst korn úr axi í haustlægðum.

Eigi ræktun vetrarhveitis að vera möguleg á Íslandi, þurfa bændum að standa til boða yrki sem standa af sér haustveður, sem og lifa af hin ýmsu vetrarskilyrði.

Að stytta strá korntegunda í alþjóðlegu kynbótastarfi var liður í að auka nýtingu næringarefna, þ.e. að plantan verji uppteknum áburðararefnum og ljóstillífunarafurðum sínum í kornið en ekki í stráið. Það er einnig ljóst að á Íslandi er styttra og sterkara strá ekki síður mikilvægt til að tryggja að uppskera hverfi ekki í jörðu fyrir þreskingu að hausti, og á því sviði má gera enn betur.

Alþjóðlegar kynbætur á yrkjum vetrarhveitis hafa víða tekið mið af frostþoli sem lykilþátt í vetrarlifun yrkjanna. Erfðamengisrannsóknir hafa greint frá genum sem tengjast frostþoli sem hefur sýnt sterka fylgni við þurrkþol hveitis, og hefur verið talið stjórnað af sömu erfðavísum. Enda hvoru tveggja aðstæður sem hafa veruleg áhrif á vatnsbúskap plantna. Svellkal, sem er einn stærsti vetrarskaðvaldurinn hér á landi, virðist hins vegar hafa setið á hakanum þegar kemur að alþjóðlegum rannsóknum á vetrarlifun vetrarhveitis, enda verður svellkal til við afar sértækar ræktunaraðstæður; þar sem skiptast ört á frost og þíða, líkt og þekkist á norðlægum strandsvæðum. Þol gagnvart svellkali hefur ekki reiknast með fylgni við aðra vetrarþolsþætti í nytjajurtum, enda raskar svellkalið mun fremur loftskiptum plantna heldur en vatnsbúskap. Leiðir það svo til, að þol gagnvart svellkali ætti að gefa sérstakan gaum við yrkjakynbætur vetrarhveitis, en slík áhersla gæti gefið íslensku rannsóknarstarfi á sviðum plöntukynbóta þónokkra sérstöðu. Umhleypingasamir vetur geta einnig farið illa með vetrarlifun hveitisins. Það getur farið af stað of snemma í hlýjum köflum síðvetrar. Frostlyfting getur einnig grandað plöntum ef þær rótaslitna.

Þegar kemur að kornþroska, standa Íslendingar jafnan frammi fyrir óhefðbundnum aðstæðum ef litið er til nágrannaþjóða. Vegna haustveðra og svalara vaxtartímabils, vilja íslenskir bændur sjá fljótþroska yrki, sem tilbúin eru til þreskingar sem fyrst, en víða erlendis er tímabilið sem plantan fyllir kornið hlýrra, og því ekki sérstök áhersla á að stytta kornfyllingartímabilið, en rannsóknir hafa sýnt fram á að lengra kornfyllingartímabil geti skilað sér í auknu próteininnihaldi hveitis, upp að vissu marki. Það eru því ærin verkefni hérlendis til að kynbæta yrki sem ná fljótt þroska, án þess að það komi niður á gæðum afurðarinnar. Það er ekki eftir neinu að bíða en að hefjast strax handa.

Anna Guðrún Þórðardóttir,
mastersnemi í kynbótum &

Hrannar Smári Hilmarsson,
tilraunastjóri í jarðrækt

Skylt efni: hveitirækt | Korn

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f