Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fiskiskipum með kvóta hefur fækkað gríðarlega á síðustu 20 árum.
Fiskiskipum með kvóta hefur fækkað gríðarlega á síðustu 20 árum.
Í deiglunni 15. september 2021

Hvað hefur breyst á 20 árum?

Höfundur: Guðjón Einarsson

Heildarúthlutun botnfiskveiðiheimilda á Íslandsmiðum í ár í tonnum talið er ekki ýkja frábrugðin því sem hún var fyrir tveimur áratugum. Hins vegar hefur skipunum sem sækja þessar heimildir fækkað úr tæplega 1.700 í rúmlega 400 á þessu tímabili og umtalsverð samþjöppun hefur orðið á ráðstöfunarrétti kvótans.

Eðli málsins samkvæmt verða alltaf breytingar á úthlutun aflaheimilda milli ára í takt við náttúrulegar sveiflur í fiskistofnunum. Hér verður nýjasta úthlutunin borin saman við úthlutunina fyrir 20 árum til fróðleiks. Eins og fram kemur á töflu 1 nema úthlutaðar botnfiskheimildir að þessu sinni 477 þúsund tonnum samanborið við 514 þúsund tonn fiskveiðiárið 2001/2002.

Þorskkvótinn, sem vegur alltaf þyngst, er nokkru meiri nú en hann var í upphafi aldarinnar. Sama er að segja um ýsu og þó sérstaklega ufsa. Hins vegar gefa flestar aðrar tegundir minni kvóta nú en þær gerðu fyrir 20 árum. Einu undantekningarnar eru skarkoli og langa. Aflaheimildir í sandkola og skrápflúru hafa nánast þurrkast út. Skötuselskvótinn aðeins brot af því sem áður var og sama má segja um úthafsrækjuna. Síldarstofninn hefur átt undir högg að sækja vegna sýkingar og hörpudiskveiðar hafa verið bannaðar árum saman af sömu ástæðu.

Við upphaf fiskveiðiársins 2001/2002 var úthlutað 438 þúsund tonna loðnukvóta en honum er haldið utan við þennan samanburð enda á eftir að ákveða loðnukvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Gríðarleg fækkun fiskiskipa

Þótt botnfiskaflaheimildir í tonnum talið hafi ekki tekið stórstígum breytingum frá aldamótum verður það sama ekki sagt um fjölda veiðiskipa sem þessar heimildir sækja. Hinn 1. september 2001 voru gefin út 1.680 leyfi til veiða í atvinnuskyni. Þar af voru 870 skip og bátar með aflamark, 591 með krókaaflamark og 219 sóknardagabátar.
Til samanburðar fengu hinn 1. september síðastliðinn samtals 423 skip og bátar úthlutað aflaheimildum, þar af 181 aflamark og 242 krókaaflamark.

Ástæður fækkunarinnar
Þessi fækkun úr 1.680 skipum í 423 skip liggur í fyrsta lagi í því að sóknardagakerfið var afnumið og heimildunum breytt í krókaaflamark sem síðan gekk kaupum og sölum. Í öðru lagi hefur helmingur krókaaflamarksbátanna horfið úr kerfinu og aflaheimildir þeirra flust á þá báta sem eftir eru og gjarnan eru stærri. Í þriðja lagi hefur stærstur hluti smábáta á aflamarki horfið úr því kerfi og framselt kvóta sinn. Og í fjórða lagi hefur aflamarksskipum í stóra kerfinu einnig fækkað mikið, meðal annars með tilkomu nýrri og öflugri skipa. Þannig hefur togurum sem voru 92 talsins um aldamótin fækkað um helming.

Að þessu sögðu er þó rétt að minna á að þeir smábátar sem horfið hafa úr aflamarks- og krókaaflamarkskerfunum á þessu tímabili eru ekki allir hættir fiskveiðum. Strandveiðikerfið, sem verið hefur við lýði í 13 ár, er utan við kvótakerfin tvö. Alls tóku 672 bátar þátt í strandveiðunum nú í sumar og voru tveir af hverjum þremur þeirra ekki jafnframt í öðrum veiðikerfum.

Samþjöppun aflaheimilda

Listinn yfir kvótahæstu útgerðirnar hefur tekið talsverðum breytingum á þessu 20 ára tímabili (sjá töflu 2). Árið 2001 var Útgerðarfélag Akureyringa efst með 5,43% af heildarkvótanum og Samherji þar skammt undan með 5,33% af heild. Grandi, sem síðar átti eftir að verða kvótahæsta fyrirtækið á landinu, var á þessum tíma í sjötta sæti, næst fyrir neðan Harald Böðvarsson hf. sem svo sameinast Granda. Samkvæmt nýjustu úthlutun er Brim (áður Grandi) á toppnum með 9,33% heildarkvótans. Það segir þó ekki alla söguna því Brim á Ögurvík sem er handhafi 1,36% kvótans og aðaleigandi Brims ræður yfir kvóta Útgerðarfélags Reykjavíkur sem er með 3,90% kvótans. Samanlagt eru þetta 14,59% kvótans.

Ekki allt sem sýnist

Samherji Ísland er í öðru sæti á þessum lista með 7% heildarkvótans en Samherjamenn eiga líka Útgerðarfélag Akureyringa að fullu sem ræður yfir 2,01% kvótans. Þá á Samherji tæpan helming í Síldarvinnslunni sem er í hópi tíu kvótahæstu útgerðanna. Eignatengsl af þessu tagi eru víðar í þessum hópi stærstu útgerða þannig að ekki er allt sem sýnist. Samkvæmt nýútgefnum lista Fiskistofu eru 10 kvótahæstu útgerðirnar handhafar 52,46% heildarkvótans en af framansögðu er ljóst að samþjöppunin er töluvert meiri. Fyrir 20 árum fengu 10 kvótahæstu útgerðirnar úthlutað rúmlega 39% aflaheimildanna.

Rétt er að minna á að undanskildar við upphaf hvers fiskveiðiárs eru aflaheimildir í deilistofnum, þ.e. norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna, og oft einnig í loðnu (eins og nú háttar) og því breytist röð kvótahæstu fyrirtækja eitthvað þegar þær úthlutanir liggja fyrir.

Kvótaþak og fjölskyldutengsl

Samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum má enginn ein útgerð hafa meira en 12% heildaraflaheimildanna í þorskígildum til ráðstöfunar. Tilgangurinn er að hamla gegn of mikilli samþjöppun aflaheimilda á fáar hendur. Margsinnis hefur verið á það bent að sum stærstu fyrirtækjanna hafi eignast stóran hlut í öðrum útgerðum án þess að það hafi verið talinn ráðandi hlutur í túlkun laganna. Þar hefur tæplega helmings hlutur Samherja í Síldarvinnslunni einkum verið nefndur sem dæmi.

Sama á einnig við um samþjöppun aflaheimilda í smábátaflotanum vegna rúmrar túlkunar á því hverjir teljist tengdir aðilar og hverjir ekki, svo sem hjón eða börn þeirra. Lagafrumvarp sjávarútvegsráðherra til að skerpa á þessum þáttum öllum kom fram á þar síðasta þingi en hefur enn ekki verið afgreitt.

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...