Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hugað að andlegri heilsu
Leiðari 18. nóvember 2022

Hugað að andlegri heilsu

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

Ég skráði mig af yfirborði daglegs lífs síðustu helgi. Sat í tvo daga og gerði nákvæmlega ekki neitt nema að ganga um úti í náttúrunni, skoða fjöll, ár, fjöru og vera í heitum og köldum pottum. Hugleiða og sofa. Uppgötvaði, mér til ekki svo mikillar furðu, að ég hef ekki sleppt huganum af málefnum vinnunnar síðustu mánuði. Ekki í einn dag. Við þessa hvíld lognaðist uppsöfnuð streita úr mér og þetta var að sönnu kærkomin hugarró. Samt er ég „bara“ skrifstofublók. Ég er ekki bóndi.

Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

En ég leiddi hugann að bændum. Þeir hafa fæstir tækifæri til slíks munaðar – að skrá sig úr vinnu í nokkra daga eingöngu til þess að gleyma sér. Vinnuumhverfi þeirra er krefjandi. Þeir bera ábyrgð á velferð skepna og jarðvegs, framleiðni, rekstri, afkomu, lífsviðurværi fjölskyldu sinnar hvern einasta dag allt árið um kring. Þeir búa ekki svo vel að eiga lögbundið sumarfrí. Þvert á móti eru það álagstímar. Bændur þurfa að annast skepnurnar sínar á aðfangadegi jóla jafnt sem á venjulegum fimmtudegi. Ekki er nema von að þeir upplifi á einhverjum tímapunkti verkkvíða vegna þreytu. Ofan á það geta lagst áhyggjur vegna afkomu. Því tengdu ótti vegna utanaðkomandi aðstæðna, þar sem þeir fá engu ráðið. Þetta er uppskrift að streitu.

Rúningskonan Marie Pepple nefndi það við mig að hún hafi búið við þau forréttindi í kófinu að vinnutilhögun hennar breyttist ekki. Þótt útgöngubann hefði verið heima fyrir þurfti enn að rýja fé breskra bænda. Svo hún fór enn um sveitir, hitti fyrir bændur og þjónustaði þá. Hún sagðist hafa upplifað það sterkt hve einangruð sjálfbjarga starfsstétt bænda er, hvar sem hún er í heiminum. Og hversu ósköp mikilvægt það er fyrir bændur að hitta fólk. Í kófinu fann hún ekki síst fyrir því hversu gjöfult það reyndist þeim að eiga smá spjall, njóta örlítils félagsskapar, þótt það væri ekki nema yfir einum kaffibolla milli rúninga.

Andleg líðan bænda er stórt lýðheilsumál. Innan Bændasamtakanna er nú unnið að jafningjafræðslu, í formi myndbanda og efnis, þar sem bændur sem hafa lent í áföllum deila reynslu sinni. Einnig er leitað til sérfræðinga á sviði geðrænna málefna til að leiðbeina og upplýsa. Mikilvægt er að þekkja merki um streitu og andlega vanlíðan. Þá er grundvallaratriði að bændur viti hvert þeir geta leitað ef þeir verða varir við slíka vanlíðan. Búa þarf svo um starfssviðið að bændur hafi jafnvel færi á að skrá sig aðeins út, hvíla sig og fá rými til úrvinnslu, þegar svo ber undir. Það er sjálfsagt bjargráð í gjöfulu velferðarríki að slíkt sé í boði fyrir alla.

Kollegar okkar í nágrannalöndunum eru í sömu vegferð. Í þessu tölublaði er sagt frá sambærilegu verkefni í Skotlandi sem miðar að því að auka tengsl milli bænda svo þeir geti rætt við aðra í sömu stöðu. Fyrsta skrefið er að ræða málin, hnippa í fjölskyldumeðlim eða vin, og láta vita. Bændur geta verið bændum bestir, enda er skilningurinn mestur meðal jafningja. Það er því heillaskref að verið sé að nálgast þetta brýna velferðarmálefni innan bændastéttarinnar.

Þegar manneskja hugar að andlegri heilsu, í hvaða birtingarmynd sem það kann að vera, þá er hún ekki bara að gera sjálfri sér greiða, heldur öllum og öllu sem er henni nærri.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...