Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Porsche Cayenne E-Hybrid nær að sameina eiginleika sportbíls og jeppa í einum alhliða pakka. Hér sést hvar Benedikt Eyjólfsson, stofnandi Bílabúðar Benna, keyrir af fullu afli í krappri beygju á kappakstursbraut í Hafnarfirði.
Porsche Cayenne E-Hybrid nær að sameina eiginleika sportbíls og jeppa í einum alhliða pakka. Hér sést hvar Benedikt Eyjólfsson, stofnandi Bílabúðar Benna, keyrir af fullu afli í krappri beygju á kappakstursbraut í Hafnarfirði.
Mynd / ál
Vélabásinn 20. ágúst 2025

Hinn sanni sportjeppi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Að þessu sinni er tekinn fyrir Porsche Cayenne E-Hybrid, sem er stór sportjeppi þar sem öll hönnun og útfærsla miðar að því að gera akstursupplifunina ánægjulega og spennandi.

Bíllinn er með þriggja lítra V6 bensínvél og öflugan rafmótor sem fær straum úr 25,9 kílóvattstunda rafhlöðu. Þeir bílar sem er auðveldast að bera saman við Cayenne E-Hybrid eru Range Rover Sport og BMW X5, sem eiga það sameiginlegt að vera í boði sem öflugir tengiltvinnlúxusjeppar með stórum rafhlöðum.

Allt alveg mátulegt

Þessi Porsche Cayenne er í raun af þriðju kynslóð sem kom fyrst á markað árið 2018, en fékk talsverða andlitslyftingu árið 2023. Hann er keimlíkur fyrri kynslóðum, en helst er hægt að sjá að framljósin eru kantaðri og frá ákveðnum sjónarhornum er ljósröndin að aftan nánast eins og á Porsche 911.

Þegar inn er komið eru jafnframt miklar breytingar, sem felast í endurhönnuðu mælaborði. Nú er gírstöngin lítill flipi við hliðina á stýrishjólinu sem gefur aukið pláss fyrir stjórntæki og geymslupláss á milli sætanna. Þá eru raunverulegir hnappar fyrir allt það sem maður vill nálgast við daglega notkun, eins og miðstöð og útvarp. Því þarf ekki að reiða sig á skjáinn nema helst til þess að velja sér nýjan lagalista á Spotify eða slá inn staðsetningu í leiðsögukerfinu. Hljóðkerfið er afbragðsgott.

Efnisvalið í innréttingunni er vandað og heyrist hvergi tómahljóð. Notandinn finnur við alla notkun að Porsche Cayenne er dýr bíll, því allt sem hann snertir er úr vönduðum efnum og eru allir hreyfanlegir hlutir afar þéttir í notkun. Hvort sem notandinn er að opna og loka hurðunum eða kveikja á stefnuljósunum þá er allt alveg mátulega stíft. Sætin eru vel formuð, veita góðan stuðning og eru stillanleg á fjölmarga vegu þannig að fólk af öllum stærðum og gerðum getur komið sér vel fyrir.

Höfuðplássið í aftursætunum takmarkast ofurlítið vegna topplúgunnar. Fótaplássið þar er hins vegar gott og sætin breið, þannig að þrír fullorðnir ættu að geta setið sáttir saman. Hægt er að opna skotthlerann meðal annars með því að sveifla fætinum undir stuðarann. Geymslurýmið er stórt og hægt er að fella aftursætin nánast flöt, en það er örlítil brún milli skottgólfsins og sætisbakanna.

Porsche Cayenne er góður staður til að vera á. Mælaborðið er vel útfært og reiðir sig ekki um of á notkun snertiskjásins, sem er annars afar góður.

Getur verið hreinn rafmagnsbíll

Þó svo að 470 hestöfl hljómi engin ósköp á tímum kraftmikilla rafbíla, er Porsche Cayenne hannaður frá upphafi til enda til þess að veita sem mesta akstursánægju. Margir nýir bílar fara leifturhratt í beina línu, en Cayenne ræður fullkomlega við að keyra hring eftir hring á kappakstursbraut og er engu síðri en margir sportbílar. Þetta er enginn Porsche 911, en Cayenne er einstakur bíll að því leyti að hann ræður fullkomlega við að keyra yfir fjallveg einn daginn, bruna eftir kappakstursbraut annan daginn og flytja farþega og farangur í miklum þægindum milli landshluta þriðja daginn. Þá getur Cayenne E-Hybrid dregið vagna upp að 3,5 tonnum. Kannski er þetta eini sportjeppinn sem er virkilega sportlegur.

Eitt af því sem einkenndi þennan prufuakstur var hversu skemmtilegt var að skipta á milli ólíkra akstursstillinga og er þetta eini bíllinn þar sem undirritaður hefur flett á milli stillinga oftar en einu sinni. Þegar ökutækið er ræst er það alltaf sjálfkrafa í E-Power stillingu þar sem bensínmótorinn fer ekki í gang nema í algjörum undantekningartilfellum. Þeir sem hlaða reglulega geta því keyrt mjög lengi á rafmagninu einu saman, en akstursdrægni er allt að 90 kílómetrar. Óþarft er að ræsa vélina til þess að fá yl í farþegarýmið, enda bíllinn með afar skjótvirkri rafmagnskyndingu.

Þar sem rafmagnsmótorinn hleypir aflinu í gegnum gírkassann knýr hann hjólin á sama hátt og bensínmótorinn. Því er afldreifingin til hjólanna alltaf eins og bíllinn alltaf jafn fjórhjóladrifinn. Þetta er ólíkt mörgum tvinnbílum þar sem bensínvélin knýr einn öxul og rafmótorinn hinn sem leiðir til ójafnrar afldreifingar.

Ljósröndin að aftan er skýr vísun í Porsche 911.

Stilling fyrir kappakstursbraut

Hybrid-Auto stillingin er þægileg til dagsdaglegra nota. Þá kemur bensínmótorinn til sögunnar en eyðslan helst í lágmarki. Þessi stilling nýtist vel á langferðum eða þegar notandinn hefur vanrækt að hlaða. Bíllinn passar upp á að tæma rafhlöðuna aldrei alveg og því er alltaf hægt að fá afl bæði frá rafmótor og bensínvél. Í Sport-stillingunni er bensínmótorinn alltaf í gangi, fjöðrunin verður aðeins stífari og viðbragðið sneggra í stjórntækjum. Þetta hentar fyrir þá sem vilja vera pínu ökufantar í umferðinni en eru ekki á leiðinni í kappakstur.

Þar á eftir kemur Sport-Plus stillingin, sem er hugsuð til notkunar á kappakstursbrautum. Þá er allt aflið aðgengilegt, fjöðrunin fer í stífustu stillingu og hægt er að þeytast áfram og keyra hratt í öllum beygjum. Þar sem þetta er sportjeppi eru einnig nokkrar Off-Road stillingar sem eru kjörsniðnar fyrir akstur í sandi, drullu, möl og svo framvegis. Malarstillingin er sérlega nytsamleg á íslenskum malarvegum. Sama hver áðurnefndra stillinga er valin er alltaf hægt að ýta á rauðan hnapp í stýrinu til þess að virkja Sport-Plus í tuttugu sekúndur. Þetta kemur sér til að mynda vel ef ökumaðurinn vill taka fram úr öðrum bíl.

Miðað við verð bílsins finnst undirrituðum synd að fjarlægðartengdur hraðastillir og akreinaaðstoð skuli ekki vera staðalbúnaður, en er sannarlega fáanlegt sem aukahlutur. Þetta tvennt léttir álagið á leiðinlegum vegköflum, eins og Reykjanesbrautinni, eða í þungri innanbæjarumferð.

Að lokum

Porsche hefur tekist að gera Cayenne E-Hybrid að bíl sem er gaman að keyra við allar aðstæður og sem heldur áfram að vera spennandi í notkun eftir fyrstu dagana. Porsche Cayenne E-Hybrid kostar frá 18.990.000 krónum samkvæmt verðlista. Nánari upplýsingar fást hjá Bílabúð Benna.

Skylt efni: prufuakstur

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...