Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hallar á landbúnað í fyrstu úthlutun
Fréttir 22. janúar 2021

Hallar á landbúnað í fyrstu úthlutun

Höfundur: ghp

Nokkur skortur gætti á beinum landbúnaðarverkefnum við fyrstu úthlutun Matvælasjóðs. Formaður sjóðsins segir úthlutunina þó endurspegla þær 266 umsóknir sem bárust. Stjórn BÍ skoðar með hvaða hætti hægt er að efla sókn landbúnaðargeirans í styrki.


Fyrsta úthlutun Matvælasjóðs fór fram um miðjan desember sl. Alls voru 62 verkefni styrkt um 480 milljónir króna. Fjölbreytt verkefni hlutu þar styrki frá um 1–25 milljónum króna til að framkvæma, framleiða, rannsaka eða styrkja sókn matvara á innlendum og erlendum mörkuðum, en Matvælasjóði er ætlað að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.


Í kynningu við fyrstu úthlutun var styrktum verkefnum skipt niður eftir tegundum. Stærsti flokkurinn var sjávarútvegur en alls féll 35,45% af úthlutuðu fé þar undir. Rúm 18% verkefna voru skilgreind sem garðyrkja, 13,8% heyrðu undir landbúnað, verkefni tengd þara og þörungum fengu 9,88% og matvælaframleiðsluverkefni 8,44% af úthlutuðu fé. Aðrir flokkar, s.s. fæðubótarefni, drykkir og matarsóun, fengu minna.


„Það er rétt að það var ekki mikið af kjarna landbúnaðarverkefnum. Hins vegar var talsvert af garðyrkjutengdum verkefnum og mörg snúast um matvælavinnslu á landbúnaðarafurðum, til dæmis fæðubótarefnum og drykkjarframleiðslu,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, formaður sjóðsins.


Í stefnu Matvælasjóðs er horft til þess að stuðningur við matvælaframleiðslu verði sem næst uppruna hennar og lögð er áhersla á að gæta jafnræðis í styrkveitingu um allt land. Gréta María segir að umsóknir hefðu mátt dreifast betur um allt land. „Við erum að hugsa hvernig við getum náð betur til allra landshluta. Við vitum af fullt af smáframleiðendum sem við vorum ekki að sjá umsóknir frá og munum skoða hvernig við getum nálgast þessa hópa betur,“ segir hún.

Vilja styðja betur við þróun og nýsköpun í landbúnaði

Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, segir niðurstöðu úthlutunar benda til þess að Matvælasjóður sé ekki nægilega aðgengilegur fyrir frumkvöðla sem leggja ekki í umfangsmikil umsóknarskrif.


„Ég held við verðum að horfa á fyrstu úthlutanir sem lærdómsferli. Í raun verður tilfærsla á stuðningi við landbúnaðartengd verkefni eftir lok Framleiðnisjóðs frá bændum og frumkvöðlum til opinberra rekstrareininga. Það hefur tæplega verið það sem ætlunin var að gerðist og þarf væntanlega að skoða sérstaklega,“ segir Gunnar.


Hann bætir við að Bænda­samtökin séu að skoða með hvaða hætti samtökin geti stutt félagsmenn betur í að sækja stuðning við þróunar- og nýsköpunarverkefni en undirbúningur að slíku verkefni nú þegar hafinn.

Tækniyfirfærslur nýtast milli atvinnugreina

Við ákvörðun um styrkhæfni er m.a. litið til markmiðs og skipulags verkefnis, hagnýtingargildi, mögulega verðmætasköpun og getu umsækjenda til að leysa verkefnin. Af sex hæstu einstöku styrkjum Matvælasjóðs fóru fjórir í sjávarútvegstengd verkefni. Gréta María segir skýringu þess vera umfang umsóknanna. „Þarna er meðal annars stór markaðssókn þar sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og útgerðarmenn taki sig saman og sæki um og þar liggja mikil verðmæti undir,“ segir hún.


Þá sé eðli verkefnanna misjafnt og upphæðir umsókna í takt við það. „Þarna eru tækniverkefni í matvælaframleiðslu sem eru þvert á atvinnugreinar. Mikilvægt er að horfa til þess hvernig við getum náð árangri sem heild og þá þurfum við að geta horft lengra en á atvinnugreinaflokkun. Við þurfum að horfa til þess hvernig tækniyfirfærsla getur nýst milli atvinnugreina til að auka verðmæti. Það voru dæmi um verkefni sem flokkuð voru í sjávarútvegi en geta einnig nýst í landbúnaði, t.d. við greiningu á gæði grænmetis,“ segir hún.


Ákvörðun um hvaða styrk­umsóknir hljóti styrk er í höndum sjávarútvegs- og land­búnaðarráðherra skv. lögum um Matvælasjóð. Stjórn Matvælasjóðs gerir tillögu um úthlutun styrkja og leggur fyrir ráðherra til ákvörðunar, en að baki þeim liggur vinna ráðgefandi fagráða sem leggja faglegt mat á umsóknir.


Næsta úthlutun Matvælasjóðs fer fram í vor en stefnt er að því að opna fyrir umsóknir í mars 2021.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...