Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Nefið á Grýlu er stórt og hlykkjótt og úr vitum hennar kemur helblá gufa og þar að auki er hún mannæta eins og önnur tröll og óþekk börn eru eftirlætismatur hennar en hún er lítið gefin fyrir fisk, súpur, salat og grauta.
Nefið á Grýlu er stórt og hlykkjótt og úr vitum hennar kemur helblá gufa og þar að auki er hún mannæta eins og önnur tröll og óþekk börn eru eftirlætismatur hennar en hún er lítið gefin fyrir fisk, súpur, salat og grauta.
Mynd / HKr
Á faglegum nótum 22. desember 2020

Grýla étur börn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Nefið á Grýlu er stórt og hlykkjótt og úr vitum hennar kemur helblá gufa og þar að auki er hún mannæta eins og önnur tröll og óþekk börn eru eftirlætismatur hennar en hún er lítið gefin fyrir fisk, súpur, salat og grauta. Mestur tími Grýlu fer í að afla matar handa sér og fjölskyldu sinni.

Kerlingarskarið hefur búið með þremur tröllkörlum í gegnum tíðina og heitir núverandi bóndi hennar Leppalúði. Hinir tveir hétu Boli og Gustur og átti hún tæplega áttatíu börn með þeim. Þekktust þeirra eru jólasveinarnir. Leppalúði átti einn son, Skrögg, áður en hann hóf sambúð með Grýlu og tók hún Skrögg í fóstur.

Grýla er ævagömul kerling og nefnd meðal tröllkvenna í Snorra-Eddu en hún er ekki bendluð við jólin fyrr en í kvæði frá 17. öld. Kerlingunni er lýst sem fullkominni andstæðu kvenlegrar fegurðar og Leppalúði þykir ekki heldur mikið fyrir augað.

Grýla er með úlfgrátt hár og svartar brúnir, með tennur eins og ofnbrunnið grjót, klær og hófa, kjaftstór, með vígtennur og horn. Hún er með augu í hnakkanum og í þeim logar eldur, eyrun ná langt út á axlir, nefið er stórt og hlykkjótt og úr vitum hennar kemur helblá gufa. Sögur um Grýlu eru fremur fáar en því meira er fjallað um hana í kvæðum og þulum.

Kerlingin á sér hliðstæðu í Færeyjum, á Shetlandseyjum og víðar. Í Færeyjum er Grýlu lýst sem gamalli og ljótri kerlingu sem líkist gamalli rollu sem gengur upprétt á tveimur fótum. Á Shetlandseyjum þekkist tröllkerling sem kallast Skekla og er hún á ýmsan hátt lík Grýlu í háttum. Skekla kemur ríðandi til byggða á svörtum hesti með hvíta stjörnu í enni, hesturinn er með fimmtán tögl og á hverju tagli hanga fimmtán börn.

Í gömlum kvæðum er Grýlu lýst sem beiningakerlingu sem fer á milli bæja og biður foreldr­ana að gefa sér óþekku börnin en hörfar ef henni er rétt eitthvert matarkyns eða er rekin burt með látum. Kerlingin hefur lengi verið notuð sem barnafæla og flestir hafa einhvern tíma verið hræddir með Grýlu gömlu.

Í seinni tíma frásögnum hefur Grýla tekið upp fasta búsetu og býr í helli, fjarri mannabyggðum. Þegar hér er komið sögu fer allur tími hennar í að sjóða mat í stórum potti, stjana við Leppalúða og gefa krakkaófétunum að éta. Grýla er hætt að fylgjast með tíðarandanum og verður sífellt forneskjulegri, hún er einmanaleg gömul kerling sem hefur gleymst í öllum látunum í kringum jólin.
Hugmyndin um Grýlu hefur breyst mikið í tímans rás þótt meginhlutverk hennar hafi alla tíð verið að temja börn.

Árni Björnsson segir, með nokkrum fyrirvara, í bók sinni, Saga daganna, að Grýla endurspegli grimmd yfirvalda gagnvart alþýðunni og að hún hafi farið að mildast eftir að einveldi var afnumið. Því hefur einnig verið haldið fram að Grýla og hyski hennar séu tákngervingar náttúruaflanna, skammdegismyrkursins eða flökkulýðs sem fór um landið.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...