Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Grunnur að áburðarráðleggingum og niðurstöður síðustu ára
Á faglegum nótum 16. febrúar 2024

Grunnur að áburðarráðleggingum og niðurstöður síðustu ára

Höfundur: Sigurður Max Jónsson, ráðunautur í jarðrækt.

Ein leið til að áætla magn næringarefna sem þarf að bera á ræktarland, er að vita hvað jarðvegurinn geymir.

Sigurður Max Jónsson.

Jarðvegsefnagreiningar gefa upplýsingar um sýrustig (pH) jarðvegs og magn auðleystra plöntunæringarefna sem eru svo nýttar í gerð áburðaráætlana og til að áætla áburðarþarfir og þörf á kölkun. Plöntunæringarefnin sem eru mæld í jarðvegsefnagreiningum hér á landi eru aðalnæringarefnin fosfór (P), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg) og kalíum (K), og á síðustu árum var snefilefnunum mangan (Mn), sink (Zn) og kopar (Cu) bætt við, sem nýtast til að byggja undir ráðleggingar á snefilefnum í framtíðinni. Auk þess er rúmþyngd jarðvegsins mæld sem gefur vísbendingar um jarðvegsgerð en það er samt ekki nákvæm mæling.

Til að betrumbæta og auka við upplýsingar sem jarðvegsefnagreiningar gefa ákvað RML að bæta við nýja mælingu á jarðvegssýnum, svokallaða glæðitapsmælingu sem er til mikilla bóta fyrir. Köfnunarefni (N) hefur ekki verið hluti af stöðluðum jarðvegsefnagreiningum hér á landi þar til í fyrrahaust vegna þess að nokkuð dýr tæki þarf til þess að mæla N í jarðvegi. Hins vegar hafa niðurstöður nýlegra rannsókna sýnt að hægt er að nálgast N í jarðvegi með aðferð sem nefnist glæðitap, sem er miklu ódýrari og auðveldari í framkvæmd.

Í stuttu máli þá er glæðitap mæling á lífrænu innihaldi jarðvegs sem nýtist líka sem óbein mæling á köfnunarefni því mjög sterkt samband er á milli lífræns efnis og N í jarðvegi. Þessi mæling er mikilvæg til að meta grunnfrjósemi lands ásamt því nýtast til að styrkja ráðleggingar varðandi köfnunarefnisþörf ræktarlands í gras- og kornrækt.

Ólíkt niðurstöðum frá öðrum plöntunæringarefnum þá mælir glæðitap heildarhlutdeild köfnunarefnis í jarðvegi en ekki bara plöntuaðgengilegan hluta þeirra. Því þarf að nálgast með útreikningum hversu mikið köfnunarefni í jarðveginum verður aðgengilegt plöntum á vaxtartímabilinu.

Framsetning niðurstaðna RML til bænda

Eins og áður kom fram þá meta jarðvegsefnagreiningar ástand jarðvegs með tilliti til sýrustigs í jarðveginum og forða tiltekinna plöntunæringarefna.

Þegar niðurstöður jarðvegssýna eru komnar í hús þá er hvert tiltekið næringarefni flokkað í lágar, miðlungs eða háar tölur. Sú flokkun gefur grunnhugmynd um hvaða áburðarskammta á að bera á tiltekið ræktarland, til þess að fá bæði mestu uppskeruna og sem mestu nýtni á áburðarefnunum.

RML sendir frá sér túlkunarblað til hvers og eins bónda sem lét RML taka jarðvegssýni þar sem niðurstöðurnar eru teknar saman og túlkaðar . Einnig eru niðurstöðurnar settar fram með myndrænum hætti til að sýna mismuninn á milli sýnanna sem tekin voru á búinu og einnig sýnt hvernig þær koma út í samanburði við sýni sem voru tekin af landinu öllu.

Samantekt jarðvegssýna síðustu 5 ára

Niðurstöður jarðvegssýna eru mikilvægar fyrir hvern og einn bónda en þær eru líka mikilvægar til að sjá þróun einstakra efna eða pH yfir lengri tíma og jafnvel milli landshluta.

Tekin hafa verið saman niðurstöður jarðvegssýna síðustu ára skipt upp eftir landshlutum, sjá töflu, en eins og sést að þá getur verið munur á milli landshluta. Almennt má segja að sýrustig sé hagstæðast á Suðurlandi en lægst á Vesturlandi en á móti kemur að næringarefnaforði jarðvegs er lægri á Suðurlandi en á öðrum landshlutum. Almennt er kalsíumforði jarðvegs hæstur á Vesturlandi, en niðurstöður úr túnum sem hafa verið nýlega kölkuð geta sýnt háar tölur í kalsíum en einnig eru tún á Vestfjörðum sem eru á skeljasandsfjörum með mjög há kalsíumgildi og þar af leiðandi líka hátt sýrustig.

Magnesíum- og kalíforði jarðvegs er hæstur á Norðurlandi en það skýrist kannski helst á því að magnesíum, kalsíum og kalí skolast auðveldlega úr jarðvegi þar sem úrkoma er mikil og tíð, eitthvað sem Norðurland glímir almennt ekki við og getur skýrt þessi gildi, allavega að hluta.

Þar sem glæðitap var í fyrsta skipti greint í jarðvegssýnum á síðasta ári þá er bara eitt ár með slíkum niðurstöðum og þær sýna að jarðvegsýnin frá Vesturlandi í fyrra hafi hlutfallslega verið með mesta heildarköfnunarefnið en Suðurland með hlutfallslega lægsta.

Til athugunar: Hér ber að líta mynd byggða á niðurstöðum jarðvegssýna. Hér er hægt að sjá myndrænt hvar jarðvegssýnin standa innbyrðis á milli spildna. Bæði fyrir steinefnin (súlurnar) og fyrir sýrustigið (svart strik) sem spildurnar hafa. Tölurnar sem eru settar fram við svörtu strikin tákna sýrustig spildnanna og má bera þær tölur saman við flokkana á hægri væng myndarinnar. Súlurnar eru fyrir köfnunarefni, fosfór, kalsíum, magnesíum og kalí og má bera þær saman við flokkana á vinstri væng myndarinnar. Köfnunarefni spildu getur aðeins verið á bilinu lágt-meðal-hátt.

Til athugunar: Hér er hægt að bera saman niðurstöður úr jarðvegssýnum búsins samanborið við jarðvegssýni sem voru tekin á landinu. Rúmþyngdina má nota til þess að áætla jarðvegsgerð. T.d. eru mýrar með lága rúmþyngd (0,2 - 0,5 g/cm3) meðan sendin tún eru með háa rúmþyngd (0,8 - 1,4 g/cm3).

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f