Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Greniryðsveppur
Á faglegum nótum 20. júní 2025

Greniryðsveppur

Höfundur: Helga Ösp Jónsdóttir og Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingar hjá Landi og skógi.

Greniryð er plöntusjúkdómur sem leggst á ýmsar tegundir af greni og er af völdum ryðsveppsins Chrysomyxa abietis. Hér á landi leggst ryðsveppurinn helst á rauðgreni og blágreni en erlendis sýkir hann þar að auki sitkagreni, hvítgreni og broddgreni.

Greniryðsveppur vex eingöngu á greni og hefur því engan millhýsil eins og algengt er hjá öðrum ryðsveppum. Það sem er einkennandi fyrir greniryðsvepp og gott til greiningar á honum er að hann er bundinn við yngstu tvo árganga af barrnálum en hann leggst hvorki á brum né greinar. Því eru góðar líkur á að trén jafni sig með tímanum eftir sýkingu og verði græn á ný.

Smitun á sér stað snemma að sumri til þegar vöxtur er hafinn og nýútsprungnar nálar líta dagsins ljós. Einkenni verða þó ekki áberandi fyrr en síðsumars þegar bera fer á ljósum þverröndum á yngstu nálum plöntunnar sem gulna síðan meira eftir því sem líður á haustið. Um haustið myndar ryðsveppurinn þelgró í gróbeðum innan í sýktum nálum. Þelgró eru dvalargró ryðsveppsins sem hafa það hlutverk að varðveita sveppinn yfir óhagstæð tímabil, til dæmis yfir vetrarmánuðina. Sýktar nálar hanga oftast á trénu fram yfir næsta vetur þar sem þelgróin liggja í dvala.

Vorið eftir að smit hefur átt sér stað myndast rauðbrúnir aflangir flekkir á sýktum nálum frá fyrra ári þar sem gróbeðir sveppsins brjótast út um yfirhúð nálanna og þelgróin verða sýnileg. Í kjölfarið spíra þelgróin og mynda svokölluð kólfgró. Þau eru gulleit, duftkennd sveppgró sem hafa þann eiginleika að geta smitað nýjar nálar ef réttar aðstæður eru til staðar. Kólfgró berast t.d. með vindi og regni yfir á nýjar nálar og smita þær svo lengi sem yfirhúð nálanna er þunn og nægur raki er til staðar. Þegar smitferlinu er lokið falla ársgamlar nálar af trénu.

Oft verður vart við þennan sjúkdóm að vori til þegar gular nálar frá fyrsta ári eru áberandi ásamt því að gulleit, duftkennd kólfgró verða sýnileg. Greniryð er mest áberandi í hlýjum og rökum sumrum eins og svo algengt er hjá öðrum ryðsveppum.

Barrfall af völdum sjúkdómsins getur vissulega valdið einhverju vaxtartapi en sjaldan svo mikið að það dragi verulega úr vexti eða drepi tré. Greni þolir að missa eins árs gamlar nálar stöku sinnum en ef um endurtekna sýkingu er að ræða til lengri tíma geta afleiðingarnar orðið verri og leitt til trjádauða. Sjúkdómurinn veldur sjaldnast verulegum skaða nema einna helst sjónrænum skaða í ræktun jólatrjáa þar sem tré með gular nálar og nálalausar greinar eru ekki eftirsótt jólatré.

Ekki er talin ástæða til að grípa til sérstakra varnaraðgerða gegn greniryðsvepp. Rétt val á efniviði til skógræktar ásamt góðri umhirðu og grisjun dregur almennt úr áhættu á skógarskaða og bætir heilbrigði skóga. Val á réttum efniviði fer eftir markmiði skógræktar í hvert sinn. Rétt er að nefna að munur virðist vera á smitnæmi gegn greniryði hjá mismunandi kvæmum af rauðgreni. Mikilvægt er að hafa það í huga t.d. við skipulagningu á ræktun jólatrjáa í framtíðinni.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...