Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Gott í skóinn?
Mynd / hgs
Af vettvangi Bændasamtakana 19. desember 2024

Gott í skóinn?

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Í óeiginlegri merkingu má kannski segja að íslenskur landbúnaður hafi um þessar mundir ekki hugmynd um hvaðan á hann stendur veðrið. Þegar veðurguðirnir spinna örlagaþræði okkar frá degi til dags eigum við hvorki möguleika á að panta blíðuhót né biðjast vægðar. Engin leið er að hafa áhrif á duttlunga þeirra. Það hefur lífríki jarðar væntanlega þurft að sætta sig við allar götur frá því líf kviknaði fyrst á jörðinni, eða í u.þ.b. 3,7 milljarða ára. Það er býsna langur tími stöðugrar óvissu um það hvað morgundagurinn beri í skauti sér.

Trausti Hjálmarsson.

Þegar íslenskir stjórnmálaforingjar sitja á rökstólum á aðventunni og væntanlega yfir hátíðarnar til þess meðal annars að ráða ráðum sínum um framtíð íslensks landbúnaðar getum við hins vegar vissulega reynt að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það er vænlegra til árangurs en bænarskjöl til veðurguðanna og við gerum okkar besta með röksemdum, tilmælum og óskalistum sem enginn veit samt hvort tekið verður tillit til.

Óvissan er álíka og hjá börnunum sem þessa dagana bíða í ofvæni eftir því að sjá hvort jólasveinninn hafi bænheyrt þau með gjöfinni sinni í skóinn. Ég á engan veginn von á því að út úr yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum valkyrjanna, né heldur ef einhverjir aðrir taka við keflinu við smíði nýrrar ríkisstjórnar, komi það að bændur fái innflutta kartöflu í skóinn. En það er mikill munur á því að við fáum nammi sem endist okkur til að smjatta á í nokkrar mínútur eða eitthvað bitastætt sem er skuldbindandi til lengri framtíðar. Þannig gjafir koma reyndar sjaldnast frá jólasveinum og þess vegna er gott að vita til þess að engir slíkir virðast í hópi þeirra sem munu setja kúrsinn fyrir nýja ríkisstjórn og um leið ákvarða um framtíð landbúnaðarins í bráð og lengd.

Jólasveinaleikurinn með börnunum og spenningur þeirra fyrir morgundeginum er sannkallaður gleðigjafi. Hjá bændum snýst biðin eftir stefnu nýrra stjórnvalda í málefnum landbúnaðarins hins vegar upp á líf og dauða. Stundum jafnvel í eiginlegri merkingu þess hugtaks. Það er auðvitað fráleitt að nánast sé hægt að setja samasemmerki á milli óvissu barnanna og bændanna um hvað bíði þeirra í gluggakistunni þegar nýr dagur rennur upp.

Þessi dýrmæti undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar fær aldrei þrifist án þess að sitja að minnsta kosti við sama borð og landbúnaður nágrannaþjóðanna og um leið sama borð og landbúnaður víðast hvar í heiminum. Í þeim efnum er vissulega að ýmsu að hyggja. Ekki einungis tollvernd heldur líka t.d. gæðakröfum, umhverfisþáttum, efnahagsumhverfi okkar í samanburði við aðrar þjóðir o.m.fl. Allir þessir þættir og fjölmargir fleiri þurfa að vera í skónum, eða að minnsta kosti undir jólatrénu, þegar við hefjum viðræður við ný stjórnvöld um framtíð íslenska landbúnaðarins.

„Mun ný ríkisstjórn tolla?“ spurði framkvæmdastjóri Bændasamtakanna nýlega í ágætri grein á Visir.is þar sem Margrét Ágústa undirstrikaði mikilvægi þess að íslenskur landbúnaður nyti eðlilegrar verndar til þess að geta gegnt mikilvægu hlutverki sínu gagnvart fæðuöryggi þjóðarinnar. Ég ætla samt að leyfa mér að misskilja spurninguna og fullyrða það að ný ríkisstjórn mun langt í frá tolla lengi ef hún sniðgengur landbúnaðinn og kemur honum jafnvel að einhverju leyti í koll.

Hún kæmist aldrei upp með slíkt vegna þess að vilji þjóðarinnar stendur til annars. Það kemur mjög afdráttarlaust fram í umfangsmikilli könnun sem Gallup gerði m.a. fyrir Bændasamtökin í fyrri hluta nóvembermánaðar. 87,6% svarenda sögðust hafa mjög eða frekar jákvætt viðhorf til bænda. Í mínum huga er þetta ekki bara stór tala heldur risastór vísbending um það hvernig íslenskur landbúnaður er samofinn menningu þjóðarinnar. Í svarinu er fólgin krafa um að samfélagið standi álíka vörð um rekstrarumhverfi landbúnaðarins eins og t.d. heilbrigðisþjónustu þess og velferðarkerfi. Þar er enginn afsláttur gefinn af miklum metnaði til þess að vera í fremstu röð.

Rökstólarnir sem stjórnmálamenn sitja á um þessar mundir skipta bændur miklu máli. Stefnan sem verður mörkuð verður að vera til langs tíma. Óvissan um hvað bíður okkar bændanna „í skónum“ nánast í fyrramálið er algjörlega óþolandi. Ég hef sagt það áður á þessum vettvangi að ég sé bjartsýnismaður að eðlisfari. Þess vegna trúi ég því ekki fyrr en ég tek á að ný ríkisstjórn muni ekki taka utan um landbúnaðinn eins og eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Á það mun fyrst reyna í stjórnarsáttmálanum og síðan í samningaviðræðunum sem fram undan eru um nýja búvörusamninga.

Bændasamtök Íslands lögðu á þessu ári mikla áherslu á að hefja þær viðræður sem fyrst og voru komin í ágætt talsamband um þau mál við fyrrverandi matvælaráðherra þegar ríkisstjórnin féll. Vonandi er að hægt verði að taka upp þráðinn strax að lokinni nýrri stjórnarmyndun. Búvörusamningar eru flóknir og varða þjóðarhag með ýmsu móti. Það yrði afleitt ef þá þyrfti að afgreiða í tímahraki og ekki síst vegna þess að atvinnugreinin í heild sinni er í mikilli þörf fyrir langþráð fast land undir fótum. Eitt af mörgu sem ofarlega er á baugi um þessar mundir og stjórnvöld hafa í hendi sér en ekki bændur er raforkuverð til bænda og þá auðvitað sérstaklega grænmetisbænda. Óvissan í þeim efnum er algjörlega út úr korti.

Meginmarkmið okkar í búvörusamningunum er auðvitað að festa í sessi til langs tíma viðunandi rekstrarumhverfi íslenskra bænda. Annað sérstakt keppikefli, og ekki síður mikilvægt, er að tryggja ungu fólki möguleika á að hefja búrekstur. Án eðlilegrar nýliðunar í bændastéttinni mun landbúnaðurinn aldrei þrífast svo ekki sé minnst á nauðsynlega nýsköpun og framsækni sem áreiðanlega mun fylgja nýrri þekkingu og nýju blóði í bændastéttinni.

Við höfum síðustu vikurnar lagt mikla áherslu á að kynna fyrir stjórnmálageiranum þau fjölmörgu grænu ljós og sóknarfæri sem þessa dagana blasa við íslenskum landbúnaði. Vonandi er að ný ríkisstjórn geri það að forgangsmáli að sleppa í þetta skiptið namminu og hvers kyns skyndiplástrum þegar hún skammtar okkur í skóinn. Óskalistinn okkar er einfaldur: Öryggi í stað óvissu.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...