Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Gunnólfsvíkurfjall er tilkomumikið og 709 metra hátt fjall á Langanesi.
Gunnólfsvíkurfjall er tilkomumikið og 709 metra hátt fjall á Langanesi.
Mynd / HKr.
Skoðun 7. febrúar 2020

Góðærisvandi

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Meirihluti Íslendinga hefur á undanförnum árum upplifað mikið góðæri í kjölfar verstu efnahagskreppu í manna minnum eftir fall bankanna 2008. Heldur fór að slá á góðærið á síðasta ári og nú mæðir mikið á stjórnvöldum að rétt sé haldið á spöðum. 
 
Hagfræðingar tala gjarnan um að ríkissjóð eigi að nýta til sveiflujöfnunar í þjóðfélaginu. Greiða niður skuldir í góðæri og safna fé, en spýta í og efna til framkvæmda þegar á brattann er að sækja hjá atvinnulífinu. Þetta virðist hljóma skynsamlega en málið er kannski ekki svona einfalt þegar stöðugar kröfur eru uppi um aukin fjárútlát ríkisins til nýrra stofnana og alls konar góðæris-gæluverkefna. Það verður nefnilega ekki bæði haldið og sleppt í sömu andránni og greinilegt að það þarf að hafa sterk bein til að standa gegn slíkum óskum. 
 
Þrátt fyrir viðvarandi vanda ráðamanna þjóðarinnar við að stýra skútunni í gegnum brimskafla og á milli ótölulegan fjölda skerja, þá er staðan samt engan veginn djöfulleg. Ríkissjóður  stendur alveg þokkalega og ekki er annað að sjá en skattheimtan af almenningi sé þokkalega rífleg. Þá hefur ríkissjóður mikið lánstraust í erlendum bönkum og vextir eru í sögulegu lágmarki. Að auka innspýtingu inn í rekstur samfélagsins þegar siglt er í gegnum samdráttarskeið eins og nú er, ætti því ekki að vera stórmál, jafnvel án frekari skattheimtu. 
 
Margvíslegir skattstofnar hafa verið búnir til utan um fjölþætt sérverkefni. Með lagabreytingu 2018 er hins vegar búið að setja allar slíkar sértekjur í einn ríkishaug sem hlýtur að teljast afar vafasöm aðgerð svo ekki sé meira sagt. Það eykur ógagnsæi og gefur mönnum svigrúm til að fela hluti og fara út í bullandi bruðl með fjármuni. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. 
 
Þegar skoðaðar eru tölur frá fyrri árum er alveg ljóst að bíleigendur hafa verið að borga gríðarlega fjármuni til ríkisins sem farið hafa að stórum hluta í allt annað en að byggja upp innviði í samgöngum. Á þriðja hundrað milljarða sem innheimtir hafa verið af bíleigendum á síðustu fimm árum eða svo hafa farið í allt annað en uppbyggingu samgangna. Þetta hefur kostað ríkið milljarða tugi á ári vegna slysa og eignatjóns. Það eru algjörlega óþarfa útgjöld og hræðileg vanvirðing við mannslíf. Ef helmingur af öllum gjöldum sem tekin eru af umferðinni færu til heilbrigðismála, myndu bíleigendur örugglega sætta sig við það. Miðað við framlög til vegagerðar á liðnum árum væri þó samt stórar upphæðir utan sviga sem færu í allt annað en vegagerð og heilbrigðismál. 
 
Vissulega hafa allar tekjur af umferð­inni ekki verið eyrnamerktar vegagerð, en hvað með það? Þessi skattheimta er sannarlega til staðar og enn hefur núverandi ríkisstjórn verið að bæta þar á með kolefnisgjaldi til að þóknast popúlískum tískusveiflum. Veit einhver hvert þeir fjármunir renna?  Nú er búið að fela öll þessi gjöld fyrir stjórnmálamenn til að gambla með. Svo tala menn um nauðsyn þess að auka gagnsæi í stjórnsýslu og pólitík. Hvernig í ósköpunum er hægt að auka gagnsæið þegar hart er unnið að því að troða öllu inn í myrkraherbergi? 
 
Væri ekki þjóðráð að koma skikki á hlutina? Setja sértekjurnar í það sem þeim er ætlað? Ein leið til þess gæti falist í lántöku á lágum vöxtum þar sem sértekjurnar færu þá beint í að greiða upp lánið líkt og gert var við gerð Hvalfjarðaganga. Á slíka leið hefur t.d. Vilhjálmur Árnason þingmaður bent. Í öllu falli er ferlið sem búið er að innleiða með feluaðgerðum á skatttekjum algjörlega ótækt. 

Skylt efni: umferð | umferðaröryggi

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...