Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Jón Eiríksson var fæddur á Skálafelli þar sem nú er vegleg ferðamannaútgerð. Að bæjarbaki eru ein stórbrotnustu náttúruundur landsins, allt flæmi Vatnajökuls og skriðjöklarnir Skálafellsjökull og Heinabergsjökull og jökullónið við sporð hans þaðan sem Kolgríma rennur.
Jón Eiríksson var fæddur á Skálafelli þar sem nú er vegleg ferðamannaútgerð. Að bæjarbaki eru ein stórbrotnustu náttúruundur landsins, allt flæmi Vatnajökuls og skriðjöklarnir Skálafellsjökull og Heinabergsjökull og jökullónið við sporð hans þaðan sem Kolgríma rennur.
Líf og starf 31. júlí 2025

Gleymskan hremmir góðan mann

Höfundur: Kristján B. Jónasson

Oft er haft á orði að illúðlegasta vatnsfall Íslands sé áin Kolgríma austan við bæinn Skálafell í Austur-Skaftafellssýslu, austasta bæ Suðursveitar. Í það minnsta er áin oft ansi svakaleg að sjá þegar ekið er yfir hana á brúnni á hringveginum niður undan bænum.

Rétt þar vestur af, rétt ofan við þjóðveginn, stendur stór steinsteypuhlemmur sem er í laginu eins og íhvolfur fleygur. Auðvelt er að komast nær þessu dularfulla fyrirbrigði með því að aka upp afleggjarann að Skálafellsbænum og þeim miklu byggingum sem þar eru í hlaði og „brosa á móti sól“, eins og segir í laginu, en á Skálafelli er nú vegleg ferðamannaútgerð. Að bæjarbaki eru ein stórbrotnustu náttúruundur landsins, allt flæmi Vatnajökuls og skriðjöklarnir Skálafellsjökull og Heinabergsjökull og jökullónið við sporð hans þaðan sem Kolgríma rennur. Fram undan er svo Atlantshafið í sínu mikla veldi. Ekki laust við að manneskjan verði aðeins smá andspænis þessu öllu. Og svo er það steypufleygurinn.

Borgað með Jóni

Enn eru í það minnsta tvær til þrjár kynslóðir í sæmilegu fjöri sem rámar í myndirnar af mikilmennum þjóðarinnar á peningaseðlunum fyrir myntbreytingu. Vangamynd aldurhnigins Einars Ben á brúna fimmþúsundkallinum var öllum geðþekk, fátt var betra en eiga „nokkra brúna“, og svo var það hann Jón forseti Sigurðsson á bláa þúsundkallinum, Hannes Hafstein barst á fáki fráum eftir fimm hundruð króna seðlinum og hundraðkallinn Tryggvi Gunnarsson horfði kuldablár framan í heiminn. En verðbólgudraugurinn henti þessum herramönnum öllum út í hafsauga á einni nóttu í ársbyrjun 1981 og aðeins Jón Sigurðsson lifði af.

Áratug fyrr höfðu fleiri fyrirmenni fallið í valinn fyrir uppdráttarsýki íslensku krónunnar. Þá voru tíu og fimmtíu króna seðlarnir aflagðir en mynt slegin í þeirra stað. Þetta voru hvort tveggja karlar sem sópaði að á seinni helmingi 18. aldar, þeir Magnús Stephensen, dómstjóri og konferensráð, og Jón Eiríksson, einnig konferensráð, en líka prófessor, assessor, yfirbókavörður og já, forseti. Ef eitthvert mark má taka á táknfræði íslenskrar seðlaútgáfu um miðja 20. öld var Jón Eiríksson á sama stalli og Jón forseti. Þjóðhetja. Þegar Íslendingar hættu alfarið að dilla kónginum á fjórða áratug 20. aldar og lögðu af seðla með mynd af Kristjáni X völdu þeir þá Jón og Jón til að taka sess konungs. Æ síðan hefur verið hægt að greiða með Jóni forseta en hinn Jóninn, Jón Eiríksson, Jón tíkall, hrökk formlega úr skaftinu árið 1967 og hefur ekki sést á seðli síðan gert var að skila honum til bankaútibúa árið 1969 og fá tíkallsmynt í staðinn.

Jón Eiríksson, konferensráð. Bertel Thorvaldsen gerði myndina. Sagt er að að hún hafi verið mótuð í íslenskan stein sem Jón hafi sjálfur útvegað og látið senda til Kaupmannahafnar.
Hinn glæsti sonur

Á tíkallsseðlinum horfði konferensráðið á einhverja sýn langt utan sjónsviðs okkar hinna, alvörugefinn og þó ekki óvingjarnlegur á svip. Hann er þar sýndur æði holdskarpur og með há kinnbein, parrukk og hvítt blúndubindi í rokkókó-stíl á bringu skorðað í þröngu kragafalsi.

Jón Eiríksson fæddist á Skálafelli 31. ágúst 1728 en foreldrar hans voru þó lengst búandi á Hólmi á Mýrum. Jón lærði undir skóla í Stöðvarfirði og fór svo í Skálholtsskóla árið 1743 þar sem Ludvig Harboe hitti hann. Honum leist svo vel á dreng að hann tók hann með sér til Þrándheims í Noregi, þar sem Harboe hafði verið skipaður biskup. Þar varð Jón stúdent árið 1748. Sama ár hóf Jón nám í lögfræði við Hafnarháskóla og eftir að hafa lokið glæsilegu prófi varð hann farsæll embættismaður. Hann kom aldrei aftur til Íslands.

Steypufleygurinn mikli við afleggjarann að Skálafelli er minnisvarði um Jón Eiríksson og er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara. Hann var afhjúpaður í september 1978 og stóð Lionsklúbbur Hornafjarðar fyrir gerð hans í tilefni af 250 ára afmæli Jóns. Raunar má sjá af gögnum úr safni Sigurjóns að hann hugsaði sér minnisvarðann miklu stærri og hefði hann fullbyggður orðið með alstærstu útilistaverkum landsins.

Hver er Jón?

En hver man nú Jón Eiríksson? Sjálfsagt eru þeir ekki margir undir fertugu, jafnvel fimmtugu, sem vita deili á honum. Stuttu eftir að Jón datt af tíkallinum þótti ástæða til að minnast hans með öðrum hætti og því var gefið út frímerki árið 1975 þar sem vangamynd hans er sýnd. Þessa vangamynd gerði sjálfur Bertel Thorvaldsen og er sagt að hún hafi verið mótuð í íslenskan stein sem Jón hafi sjálfur útvegað og látið senda til Kaupmannahafnar til að sýna að danska ríkið ætti á Íslandi miklar námur brúkanlegra jarðefna. Embættismennirnir í Höfn voru með svona nokkuð á perunni á 18. öld. Alltaf var verið að leita að einhverjum verðmætum sem hægt væri að nota til að efla hag ríkisins, vinna leir úr einhverju drulluflagi sem úr mátti svo gera diska og krúsir, sjóða lím úr kúttmögum, rækta réttu grösin í heilnæma grauta.

Jón Eiríksson var sjálfur heillaður af þessari kaupauðgisstefnu, enda forseti Lærdómslistafélagsins sem í tímariti sínu boðaði sjálfsþurft og bætta verkþekkingu. Fólk þyrfti bara aðeins að líta í kringum sig og óðar birtust tækifærin. Sjálfur skrifaði Jón í tímaritið um ýmis efni, til að mynda „marsvínarekstur“. Hann var það sem við myndum nú kalla ráðuneytisstjóri í rentukammerinu, fjármálaráðuneytinu, í Kaupmannahöfn og var því einn valdamesti embættismaður danska stjórnkerfisins, en fannst hann ekki of merkilegur til að setja á blað það sem hann vissi um hvernig ætti að veiða og verka lax, silung, síld og loðnu. Segir Jón að „miklu betra sé að nýta þvílíkt til fæðis en að leggja fyrir sig hrædýr og aðrar bætur“, sem má til sanns vegar færa.

En eftir því sem árin liðu og ábyrgðin varð meiri dró af Jóni. Í ævisögu hans, sem þeir Sveinn Pálsson náttúrufræðingur og Bjarni Thorsteinsson amtmaður slógu í saman, er lífi og starfi Jóns í Höfn lýst, eins og til að mynda að hann hafi verið aðdáandi „vagnalauss lífsstíls“ því Jón fór „að öllum jafnaði fótgangandi til sinna embættissýslana, keyrði þó þangað í luktum vagni þegar misjafnt var veður“. En ekki síst tíundar ævisagan störf Jóns að málefnum föðurlandsins, allt frá atbeina við útgáfu grundvallarrita á borð við ferðabók Eggerts og Bjarna til umbóta í verslunarmálum. Segja höfundarnir að svo miklar áhyggjur hafi Jón haft af málefnum Íslands að stundum hafi hann hvorki neytt matar né unað sér svefns. Er haft eftir Jóni: „Ég elska Ísland fölskvalaust, þó ég gangi vakandi að því að sú elska styttir mínar lífsstundir.“

Hinn 29. mars árið 1787 vann Jón að venju um daginn í rentukammeri og sinnti fjármálum ríkisins. Um kvöldið var honum svo ekið heimleiðis í vagni því það var þungt yfir bænum. Jón hafði eftir að hann kom til Hafnar keypt sér hús í borginni og látið hækka það og stækka og þar bjó hann alla tíð með sinni dönsku konu, Christine Marie, og þeim sex börnum þeirra sem komust á legg. Þegar vagninn var að fara yfir Löngubrú við Kalvebod-strand bað Jón ekilinn um að nema staðar „nær vestra landinu“, nær Kalvebodstrand og Kristjánsborgarhöll. Þar steig hann út, henti sér fram af brúnni og á bólakaf í kanalinn. Hann náðist þó fljótt aftur á land og var komið undir læknishendur. Hann var með rænu en ævisagan segir að læknarnir hefðu „máske fengið hann lífgaðan, ef meiðsli á höfði hans hefðu ekki hamlað“. Lést Jón þá um kvöldið, rétt tæplega sextugur. „Það orð lék á að yfirhöfn hans og jafnvel vasaúr samt hattur hefði í vagninum eftir legið.“ 

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...