Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Brynjar Þór Vigfússon, formaður deildar geitfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, og Guðrún Lilja Dam Guðrúnardóttir eru með 90 kindur og 19 geitur í Gilhaga í Öxarfirði. Að auki reka þau ullarvinnslu á bænum og eru að endurbæta Gestastofu sína.
Brynjar Þór Vigfússon, formaður deildar geitfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, og Guðrún Lilja Dam Guðrúnardóttir eru með 90 kindur og 19 geitur í Gilhaga í Öxarfirði. Að auki reka þau ullarvinnslu á bænum og eru að endurbæta Gestastofu sína.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 11. mars 2024

Geitamjólkurvinnsla í Gilhaga

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Brynjar Þór Vigfússon, sem nýlega var endurkjörinn formaður deildar geitfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, rekur 90 kinda sauðfjárbú og 19 geita geitabú í Gilhaga í Öxarfirði, ásamt konu sinni, Guðrúnu Lilju Dam Guðrúnardóttur.

Brynjar og Guðrún fluttu í Gilhaga árið 2018 og keyptu jörðina ári síðar af afa Brynjars og endurvöktu þau sauðfjárbúskap á bænum sem hafði verið aflagður árið 1997. Þau fengu kindur frá nágrannabæjum og nokkrar sem áttu ættir í fyrri ræktun í Gilhaga.

„Síðan hefur fjölgað hjá okkur hægt og sígandi – bara eftir því sem hefur hentað okkur fjárhagslega,“ segir Brynjar. „Í raun vorum við í fjármögnunarferli fyrir ullarvinnsluna okkar á sama tíma og við keyptum jörðina. Fyrstu fjórar geiturnar komu svo á öðru ári okkar hér,“ heldur Brynjar áfram.

Kynntust í húsgagnasmíðinni

Þau höfðu enga beina reynslu af búrekstri áður en þau tóku við Gilhaga. Bjuggu á Húsavík, Brynjar húsa- og húsgagnasmiður og Guðrún húsgagnasmiður – en þau kynntust einmitt í því námi. „Móðurfjölskylda mín stundaði sauðfjárrækt og maður kynntist verkunum þar en svo er fjölskylda Guðrúnar í ferðaþjónustu og hún kemur með þann hluta inn í okkar búskap hér í Gilhaga. Við erum alltaf að þróa betur Gestastofuna hjá okkur, þar sem við höfum smá aðstöðu til að taka á móti ferðafólki.“

Ullarvinnsla er rekin í Gilhaga og var sett upp í byrjun árs 2020, rétt fyrir heimsfaraldur. Spurður að því hvort vinnslan hafi verið sett upp til að svara umfram eftirspurn Uppspuna, smáspunaverksmiðjunnar sem var sett upp á Suðurlandi nokkru áður, segir hann að í raun hafi þau fundið frekar fyrir eftirspurn eftir bandi með stutt framleiðsluspor.

„Það skýrist kannski aðallega af því að við erum í þessu lokaða líflambasöluhólfi og því ekki hægt að flytja ull hingað frá öðrum hólfum til að vinna úr. Við erum þess vegna aðallega að vinna í okkar eigin vörum og vörumerki, en svo getum við framleitt fyrir áhugasama á okkar svæði.

Við framleiðum og seljum tvær tegundir af okkar eigin prjónabandi, sem heitir Ærbandið, og hentar í venjulegar íslenskar ullarpeysur og hefðbundið prjón og eingöngu unnið úr ærull. Svo fínna band úr lambsull sem hentar til dæmis í vettlinga, sjöl eða barnaflíkur. Svo erum við með smáræði af tilbúnum prjónavörum. Það dreifist á milli nokkurra að prjóna fyrir okkur, en aðallega má segja að það sé fjölskyldan og svo höfum við fengið prjónafólk á nágrannabæjum til að prjóna fyrir okkur.

Við vildum geta verið með meira framboð af prjónavörum, aðallega til að eiga fyrir ferðamenn, en það er tímafrekt að framleiða góðar prjónavörur og einnig viljum við hafa það helst framleitt heima í héraði. Við seljum þetta bæði hér hjá okkur á Gestastofunni og í vefverslun, en einnig eru 13 sölustaðir vítt og breitt um landið með bandið okkar.“

Huðnurnar á bænum eru 15 og skila ekki miklum mjólkur- og fiðuafurðum, en afurðirnar eru eftirsóttar og verðmætar á landsvísu.

Ull af forystufé

Brynjar segir að nokkuð blómlegt ræktunarstarf sé á svæðinu með forystufé. „Bæði er hér góður hópur bænda með forystufé, svo er Forystufjársetrið rekið á Svalbarði í Þistilfirðinum – og við vinnum ullina af forystufé fyrir setrið sem fengin er héðan af okkar svæði.

Prjónaband og aðrar ullarvörur úr forystufé eru svo seldar í gegnum setrið. Þetta er því lítið sem við erum að þjónusta aðra með og við eigum því mikið inni varðandi afkastagetu Ullarvinnslunnar, en vélbúnaðurinn er sá sami og er í Uppspuna.

Það er talsvert af ferðafólki á sumrin sem leggur lykkju á leið sína um Norðausturland og kemur til okkar. Það er meiningin að efla Gestastofuna á næstu mánuðum og við stefnum að því núna í vor að bæta þar við litlu eldhúsi, þar sem boðið verður upp á létta hressingu fyrir gesti okkar, þar sem matur yrði að mestu framreiddur úr okkar eigin framleiðslu og nágrannabæjum okkar.

Við fengum einmitt styrk úr Matvælasjóði síðasta vor til að þróa og prófa uppskriftir úr bæði geita- og sauðamjólk. Við höfum verið í undirbúningi í vetur og ef allt gengur eftir getum við bætt heimavinnsluaðstöðu við eldhúsið og farið að vinna úr afurðunum heima á bæ.“

Tvenns konar prjónaband er framleitt í Gilhaga, venjulegt peysuband sem er eingöngu unnið úr ærull og svo fínna band úr lambsull sem hentar til dæmis í vettlinga, sjöl eða barnaflíkur. Svo er smáræði af tilbúnum prjónavörum.

Eftirspurn eftir vörum beint frá býli

„Við prófuðum sauða- og geitamjaltir síðasta haust í einn mánuð og höfum svo gert svolitlar tilraunir í mjólkurvinnslu í vetur,“ segir Brynjar og telur að þetta hafi komið það vel út að þau stefni hiklaust á að komta mjöltunum fyrir í dagskránni yfir sumartímann og vinna svo úr henni inn í haustmánuði. „Ærnar voru reyndar ekki allar jafnviljugar að láta mjólka sig og geiturnar, en um 20 gæfar ær voru þó orðnar spenntar eftir um 10 daga og mjólkuðu vel.

Það furða sig margir erlendir ferðamenn á því að við séum ekki í dag að mjólka og framleiða mjólkurvörur heima á bæ– og við erum í raun sammála því að þannig vinnsla fer vel með öðrum þáttum búrekstrarins. Ferðamenn sækja mjög í að kaupa svona vörur beint frá býli – og maður heyrir það hjá öðrum sem stunda þetta að það er mun meiri eftirspurn eftir þessum vörum en framboð.“

Litlar afurðir úr geitamjöltunum

„Geitamjaltirnar eru síðan miklu umfangsminni og ekki hægt að búast við miklum afurðum. Við náum mögulega upp í einn lítra á dag úr hverri huðnu sem þýðir að vinnanlegt magn er ekki mikið á dag. Við höfum prófað okkur mest áfram í ferskostagerð en líka jógúrt og ís. Þetta kom vel út þannig að við erum bara spennt fyrir framhaldinu,“ segir Brynjar og á helst von á ostaframleiðslu úr sauðamjólkinni.

Varðandi vinnslu á geitafiðunni, sem þykir einstakt hráefni í prjónavörur, segir Brynjar að til þessa hafi þau eingöngu safnað henni og bíða þess að eiga nóg af henni til að geta farið að nýta hana.

Það er svo lítið að hafa af þessum 15 huðnum okkar, kannski 150 grömm af hverri þeirra á ári og af því ekki allt nýtilegt, þar sem þó nokkuð er um strý eða grófa þræði í fiðunni. Þetta smám saman mjakast upp í nægilegt magn en við verðum að bíða aðeins lengur eftir því að geta farið að prófa okkur áfram með hana.“

Tvenns konar prjónaband er framleitt í Gilhaga, venjulegt peysuband sem er eingöngu unnið úr ærull og svo fínna band úr lambsull sem hentar til dæmis í vettlinga, sjöl eða barnaflíkur. Svo er smáræði af tilbúnum prjónavörum.

Tímafrekt að kemba og safna fiðu

„Hérna á svæðinu eru tvö önnur stærri geitabú, en þar hefur fiðan ekki verið kembd í miklu magni svo ég viti. Sú vinna er bæði tímafrek og seinleg og hentar því ekki öllum. Það þarf stundum að kemba þrisvar til fjórum sinnum til að ná allri fiðu.

Auðvitað er lítið upp úr svona litlu magni að hafa annað en ánægjuna, þótt vissulega sé þetta gott og verðmætt hráefni, en til þess þarf að fullvinna það með ærnum tilkostnaði líka,“ segir Brynjar. Hann segir að þau Guðrún séu bjartsýn á framtíðina í Gilhaga. „Möguleikarnir eru fyrir hendi til að við getum vaxið á þeim hraða sem hentar okkur, með því að stækka búhjarðirnar sem gæfi okkur meiri möguleika á úrvinnslu úr okkar hráefni og framleiðslu á eigin vörum; ull, fiðu, mjólkur- og öðrum matvörum fyrir Gestastofuna.“

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...