Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Garðyrkjan og jólin
Á faglegum nótum 13. desember 2021

Garðyrkjan og jólin

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Aðventan er sérstakur tími. Tilhlökkunin til jólanna endurspeglast á ýmsan hátt í daglega lífinu. Nýr blær færist yfir mannlífið, jólaljós eru hvarvetna og annar taktur yfir samfélaginu, hraður eða hægur eftir atvikum. En hvað hefur það með garðyrkjuna að gera? Jú, heilmikið.


Fagurlega skreyttir aðventukransar, kertaskreytingar og ýmislegt annað jólaskraut byggja á kunnáttu og listfengi blómaskreytingafólks úr garð­yrkjugeiranum. Blóma­verslanirnar fyllast af þeirra handverki, búðargluggar, kirkjur og stofnanir nýta sér það aldrei eins og á aðventu og jólum.


Íslensk blóm eru not­uð til að gleðja augað í híbýlum landsmanna, bæði af­skorin blóm og pottaplöntur sem á einn eða annan hátt vísa til hátíðarinnar sem í vændum er.


Rauðu jólatúlipanarnir fara að birtast, hinar fallegu hýasintur fylla húsin ilmi sem flestir tengja aðventu og jólum, margvísleg potta­blóm eins og jólastjörnur, glæsilegur amaryllis, begoníur og jólakaktusar prýða heimili, fyrirtæki, veitingahús og stofnanir. Blómabændur hafa staðið í ströngu frá því síðsumars við að rækta þessi blóm, sum jafnvel allt frá fræi eða litlum græðlingum.

Skógurinn og jólin

Stafafuran ber höfuð og herðar yfir önnur íslensk jólatré, þau eru í sífellt auknum mæli höggvin í nágrenni þéttbýlis og skilja ekki eftir sig sótspor líkt og innflutt tré gera, svo ekki sé minnst á plastjólatrén. Nú heyrir það næstum sögunni til að hávaxin jólatré sem notuð eru á torgum eða til að fegra stærri byggingar séu flutt hingað frá öðrum löndum. Í skógum okkar er nægilegt framboð af jólatrjám í öllum stærðum.


Margar fjölskyldur gera það til hátíðarbrigða að sækja sitt eigið jólatré í skóga þar sem sú þjónusta er veitt. Sumir nota sérstök tröpputré eða þá greinar af sígrænum trjám til að skreyta, bæði utanhúss og innan. Greni- og furukönglar, viðarplattar, börkur og birkigreinar eru einnig dæmi um skógarafurðir sem íslenskir framleiðendur útvega í auknum mæli. Skógræktarfélög og skógarbændur víða um land stunda þessa iðju og færa þannig tekjur heim í hérað sem annars færi í erlenda vöru.


Margvíslegar aðrar skóg­ar­afurðir eru notaðar til skreyt­inga um hátíðirnar. Garðplöntuframleiðendur koma að þessari ræktun með kunnáttu sinni við framleiðslu ungu plantnanna sem eru gróðursettar í upphafi. Svo skulum við ekki gleyma því að hangikjötið er oft reykt við eld frá íslenskum skógartrjám.

Skrúðgarðyrkjan og jólin

Skrúðgarðyrkjumenn bjóða þjónustu sína við að fegra garða og torg. Sumir þeirra hafa sérkunnáttu í garðaskreytingum og eiga sinn hlut í að setja upp hinar flóknustu ljósaseríur í runnum, trjám og um víðan völl. Sum þessara ljósa munu vonandi lýsa okkur veginn fram eftir vetri.

Jólamaturinn

Grænmetisbændur hafa líka margt fram að færa sem tengist hátíðunum. Ylræktarbændur bjóða fram sitt besta grænmeti úr gróðurhúsum, tómata í ýmsum gerðum, gúrkur, sveppi, papriku, fjölbreytt úrval laufsalats auk kryddjurta sem auka á hátíðleik matargerðarinnar og margt annað má finna hjá þeim. Útiræktað grænmeti eins og rauðkál, rauðrófur, hvítkál, kínakál, gulrófur og kartöflur eru í boði frá íslenskum matjurtaframleiðendum. Þeir heppnu ná jafnvel í íslensk jarðarber um jólin.


Áhugasamir garðeigendur geta líka lagt fram eigin framleiðslu úr heimilisgarðinum á veisluborð jólanna. Þar má nefna heimafengnar gulrætur og aðra rótarávexti, grænkál, kryddjurtir og hver vill ekki bjóða íslenskar kartöflur úr eigin garði með hangikjötinu?

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...