Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Gamlir reiðir kallar í landi hinna klikkuðu karlmanna
Lesendarýni 1. desember 2023

Gamlir reiðir kallar í landi hinna klikkuðu karlmanna

Höfundur: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, erfða og kynbótafræðingur, f.v landsráðunautur í nautgriparækt, f.v fagstjóri búfjárræktar hjá RML, n.v. verkefnastjóri Þróunar og verkefnastofu hjá RML.

„Í landi hinna klikkuðu karlmanna“ er fyrirsögn á grein sem Andri Snær Magnason ritaði í september 2010. Greinin fjallaði um virkjanamál sem eru þessu alls óskyld því sem hér er fjallað um en skilaboðin voru skýr burtséð frá því hvert umfjöllunarefnið var í það skiptið. 

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

Haustið 2010, þegar Andri ritar sinn pistil, voru 3 ár síðan ég hóf störf hjá Bændasamtökum Íslands, þá tiltölulega nýútskrifuð og tiltölulega ungur einstaklingur í starfsumhverfi sem oft og tíðum væri sennilega best lýst sem „Landi hinna klikkuðu karlmanna“. Í það minnsta tengdi ég strax við þessa fyrirsögn og hún hefur lifað góðu lífi með mér síðan Hreiðarsdóttir. og kemur því miður óþægilega oft upp í hugann enn þann dag í dag. Það væri efni í heila bók eða jafnvel ritröð að rekja þá lífsreynslu sem það er að hefja sinn starfsferil „í landi hinna klikkuðu karlmanna“ og hvernig sú vegferð hefur verið. Mögulega verður sú ritröð einhvern tímann fest á blað. Þess skal þó getið að mitt lán í upphafi fólst annars vegar í því að vera alin upp við að hafa trú á sjálfri mér og hins vegar í að fá Magnús B. Jónsson sem starfsfélaga, sem frá fyrsta degi okkar samstarfs kom fram við mig sem jafningja og hafði einstakt lag á því að styðja og styrkja ungan einstakling sem var að hefja sinn starfsferil. Eitthvað sem mér fannst þá í raun alveg sjálfsagt en ég lærði síðar að var sorglega sjaldgæfur eiginleiki í þessu starfsumhverfi þar sem oftar en ekki var krafist skilyrðislausrar hlýðni og tilbeiðslu fyrir „sér eldra og reyndara fólki“. Hjá þessu „eldra og reyndara fólki“ er virðing ekki áunnin, hennar er krafist án skilyrða, án gagnrýni og án þess að endilega sé innistæða fyrir henni. Víkur þá sögunni að „gömlum reiðum köllum“.

„Gamlir reiðir kallar“ hafa verið fastur liður í mínum daglegu störfum síðastliðin 16 ár. „Gamlir reiðir kallar“ sem telja sig ekki njóta tilhlýðilegrar virðingar. „Gamlir reiðir kallar“ sem ekki þola gagnrýni. „Gamlir reiðir kallar“ sem telja að þeir eigi rétt á einhverju einfaldlega vegna þess að þeir eru þarna og gera okkur hinum þann greiða að draga andann í sama umhverfi og við. „Gamlir reiðir kallar“ sem öskra á mann þegar ekki er farið að þeirra vilja. „Gamlir reiðir kallar“ sem ég hef raunverulega staðið frammi fyrir og velt því fyrir mér hvort þeir myndu ráðast á mig af því þeir fengu ekki sínu framgengt.

Þessir „gömlu reiðu kallar“ þola ekki nýja þekkingu sem ekki hefur verið borin undir þá til samþykkis. „Gamlir reiðir kallar“ sem í þessari aðstöðu grípa til þess ráðs að beina athyglinni frá eigin vanþekkingu og vangetu með því að gera lítið úr þekkingu og vinnu annarra. Þetta má reyndar kalla nokkurs konar þjóðaríþrótt meðal ákveðinnar kynslóðar í mínu starfsumhverfi. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þessi aðferðafræði hafi verið sérstaklega kennd í búvísindanámi fortíðarinnar.

Ég hóf þennan pistil á tilvitnun í fyrirsögnina „Í landi hinna klikkuðu karlmanna“ og hefur verið tíðrætt um „gamla reiða kalla“. Það er rétt að taka það fram að „klikkaðir kallar“ í þessu samhengi hefur ekkert að gera með geðheilsu karla eða nokkurra annarra og „gamlir reiðir kallar“ er heldur ekki alhæfing varðandi aldur og kyn. Hér er verið að vísa til ákveðinnar firringar og óheilbrigðrar menningar í umhverfi þar sem karlar hafa alla jafna verið í aðalhlutverki. Þar sem samtryggingin, sjálfsupphafningin og veruleikafirringin er í fyrirrúmi á kostnað vísinda, þekkingar og almennrar skynsemi. Þar sem búið er að skapa andrúmsloft sem hvetur til meðvirkni en letur til gagnrýninnar hugsunar. Þar sem einstakar persónur og leikendur eru krýndir sem óskeikulir frelsarar sem ekki má gagnrýna og þeim sem dirfast að gera slíkt er útskúfað. Messíasarheilkennið er lífseigt enn þann dag í dag.

Nú er það þannig að nú eru liðin 16 ár frá því að ég hóf störf en „gömlu reiðu kallarnir“ eru enn á ferð. Það sem verra er þá finnast meðreiðarsveinar „gömlu reiðu kallanna“ enn þá þarna úti. Samtryggingin lifir enn þá góðu lífi, ég klappa þér og þú klappar mér og það er þægilegast að rugga ekki bátnum. Það er jú vissulega einfaldara að halda „gömlu reiðu köllunum“ bara góðum frekar en að taka slaginn. Persónulega þykir mér það hins vegar miður að enn þann dag í dag þarf ungt og efnilegt fagfólk sem hefur metnað til að vinna af fagmennsku innan landbúnaðarins að takast á við umhverfi þar sem þekking, fagmennska og vísindi virðast engu skipta hjá „gömlum reiðum köllum“ í „Landi hinna klikkuðu karlmanna“.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...