Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fyrsti Evrópudagur ullarinnar
Lesendarýni 31. mars 2021

Fyrsti Evrópudagur ullarinnar

Höfundur: Hulda Brynjólfsdóttir

Í Evrópu eru um 70 milljón fjár. Mörg lönd í Everópu standa frammi því að ull sem framleidd er í Evrópu er ekki nýtt í framleiðslu þar sem ull er aðal hráefnið, heldur er það flutt in frá Ástralíu eða Nýja-Sjálandi. Ullin sem kemur af Evrópskum kindum er í mörgum tilfellum einungis nýtt í moltugerð eða henni er hent.

Þessu vilja ullarframleiður breyta og vekja fólk til umhugsunar um hráefnið sem þarna fer til spillis.

Mörg lönd hafa fundið leiðir til að nýta ullina og sumar þjóðir hafa aldrei glatað virðingu þjóðar sinnar fyrir ull. Má þar nefna Ítalíu og Bretland, en á Ítalíu eru margar spunaverksmiðjur sem spinna garn úr þarlendri ull og á Bretlandi þarf ekki annað en að nefna Harris Tweed og þá veit fólk hvað átt er við. En Harris Tweed þykir vandaðasta jakkafataefni sem framleitt er í heiminum og er það gert úr breskri ull. Og á Hjaltlandseyjum, sem eru undan ströndum Skotlands, er löng hefð fyrir flóknu munsturprjóni og fallegum uppskriftum sem gerðar eru fyrir ull og eru geysivinsælar.

Verið er að leita leiða til að gera einangrun fyrir hús úr ull, nota hana í áburð eða til gróðurverndar og fá fólk til að prjóna úr ull sem kemur af fágætum fjárkynjum úr þeirra heimalöndum, en ekki nýta eingöngu ull af fé sem er ræktuð í stórum hópum og þarf að fara langar flutningsleiðir til að komast til Evrópu. Markmiðið er ekki að gera lítið úr ull annars staðar frá, heldur að opna augu fólks fyrir að nýta það betur sem fæst nær heimahögum.

EWE - European Wool Exchange

Hópur fólks úr heilbrigðisgeiranum veitti því eftirtekt að hannyrðir hjálpuðu sjúklingum við að slaka á og einbeita sér betur. Prjónaskapur fékk hægra og vinstra heilahvel til að vinna betur saman og gerðar voru tilraunir með Alzheimer sjúklinga og prjónaskap.

Þessar athuganir leiddi heilbrigðisfólkið að því að ullargarn hentaði best þegar kom að prjónaskap í læknisskyni og fór að velta fyrir sér leiðum til að upphefja þetta frábæra hráefni sem reyndist svona vel.

Stjórnvöld á Kýpur fengu prófessor í skurðlækningum á eftirlaunum (Alberto Costa) til að stýra faglegum hópi fólks þar í landi og vinna úr þeim niðurstöðum sem komu fram og leiða fólk saman til að athuga betur þetta hráefni og kynna það fyrir fleirum. Hann tók eftir því að þegar fólk sem var að koma í aðgerð, tók prjónana sína með sér, þá var það ekki eins stressað og fljótara að jafna sig eftir aðgerðina en hinir sem ekki höfðu neitt með sér. Landbúnaðarráðuneytið á Kýpur styrkir vinnu hans fyrir ullina. 

Hann stofnaði hóp sem spannaði yfir öll þau lönd í Evrópu sem vildu vera með eða höfðu fulltrúa sem var reiðubúinn að tala máli ullar í sínu landi og fékk sá hópur nafnið European Wool Exchange, en skammstöfunin á því orði er EWE. (Ewe er enska orðið yfir kvenkyns kind). 

Sá hópur sameinaðist öðrum hópi sem hefur starfað í nokkur ár og haldið nokkra fundi. En fólkið í honum kemur einnig úr flestum löndum Evrópu og telur til framleiðenda. Meðlimir hans eru ýmist bændur, spunafólk eða fólk sem kemur að framleiðslu ullar á einhvern hátt.

Þessir tveir hópar hafa nú sameinað krafta sína að hluta og ætla til dæmis að standa fyrir fyrsta Evrópudegi ullarinnar. Hann fer fram 9. apríl 2021 og mun þar eitt og annað skemmtilegt fara fram og verður það flest allt á netinu.

Ísland er ekki undanskilið í þessu starfi og tekur þátt eins og fleiri þjóðir Evrópu. (sjá mynd: Kort af Evrópu sem sýnir lönd sem taka þátt í Evrópudegi Ullarinnar)

Hvað gerist á Evrópudegi Ullarinnar?

Sjónvarpsstöð í Róm á Ítalíu mun verða með beint streymi frá Evrópudegi ullarinnar 9. apríl og byrjar útsending kl. 9 að íslenskum tíma og ljúka kl. 15:00. Þjóðirnar sem taka þátt senda myndbönd til Rómar og verða þau send út í streyminu. Fyrri hluti útsendingarinnar verður á ítölsku, enda sendingin þaðan, en síðan mun hún færast yfir á ensku, svo að sem flestir geti fylgst með og skilið það sem fram fer.

Í öllum þeim löndum sem eiga fulltrúa í öðrum hvorum hópnum munu verða viðburðir sem annað hvort fara fram á netinu eða í litlum hópum. Covid-19 hefur að sjálfsögðu áhrif þarna eins og annars staðar og takmarkar stærðir hópanna. En hvatt verður til þess að á Facebook, Instagram, Twitter og víðar verði settar inn upplýsingar um sauðfé og ull og ullargarn eða aðrar vörur úr ull. Fólk mun prjóna, spinna, vefa, hekla, sauma, þæfa eða hvaðeina sem því hugnast að gera með ull þennan daginn, segja frá því á sínu svæði og láta þannig ull umvefja Evrópu.

Við bjóðum ykkur að vera með og prjóna úr íslenskri ull og þannig vekja okkur öll til umhugsunar um að það er oft nær en við höldum, það besta sem við eigum.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...