Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Mælisvæði á Heggstöðum.
Mælisvæði á Heggstöðum.
Á faglegum nótum 2. október 2024

Fyrsta mat á losun á hláturgasi frá framræstu landi

Höfundur: Jón Guðmundsson, lektor við fagdeild náttúru og skógar hjá LbhÍ.

Nýlega kom út grein í tímaritinu „Agriculture, Ecosystem & Environment“ um mælingar á losun á hláturgasi (N2O) frá framræstum mýrum hér á landi, en hláturgas er öflug gróðurhúsalofttegund og ein þriggja sem losnar frá framræstum mýrum utan koldíoxíðs (CO2) og metans (CH4).

Titill greinarinnar er „Lítil losun hláturgass úr steinefnaríkum mýrarjarðvegi á Íslandi“ (e: Low nitrous oxide fluxes from mineral affected peatland soils in Iceland). Höfundar greinarinnar eru þau: Jón Guðmundsson, Hlynur Óskarsson (Landbúnaðarháskóla Íslands), Elisabeth Jansen (Háskólanum á Hólum), Stefán Þór Kristinsson, Alexandra Kjeld og Eldar Máni Gíslason (EFLU). Um er að ræða niðurstöður umfangsmikilla rannsókna, stýrðum af sérfræðingum Landbúnaðarháskóla Íslands, sem fram fóru á um 4 ára tímabili á bæði óframræstum og framræstum mýrum í Borgarfirði.

Unnið við uppsetningu og sýnatöku.

Meginniðurstaða mælinganna er sú að frá framræstu landi á mælisvæðunum er losun hláturgass umtalsvert minni en ráðgjafarnefnd loftslagssamningsins (IPCC) mælir með að nota ef ekki liggja fyrir mælingar sem sýna annað. Að mati höfunda getur skýring á lítilli losun – miðað við sambærilegt land á okkar breiddargráðum – einkum legið í uppsöfnuðu áfoki og eldfjallaösku sem breytir eiginleikum jarðvegsins. Þessi steinefnaviðbót fyllir upp í stærri holrými jarðvegsins og sveiflur í vatnsinnihaldi jarðvegsins verða hægari, en vatnsinnihald og sér í lagi sveiflur á því getur ráðið miklu um myndun hláturgass í jarðvegi. Gosefni sem berast í jarðveginn hafa einnig þau áhrif að fosfór, sem er til staðar í jarðvegi, verður ekki eins aðgengilegur þeim örverum sem taka þátt í þeim fjölmörgu ferlum sem mynda hláturgasið. Hér eru því mögulega önnur ferli ríkjandi í framleiðslu á hláturgasi en annars staðar, þetta á þó eftir að rannsaka betur. Í þriðja lagi má nefna að í þó nokkrum tilvikum mældist upptaka á hláturgasi úr andrúmsloftinu. Það kann líka að stafa af breyttu vægi einstakra örveruferla. Sú upptaka vegur á móti losuninni þannig að heildarlosun verður minni.

Greinin er mikilvægur liður í að koma á framfæri niðurstöðum rannsókna á losun gróðurhúsalofttegunda frá votlendi á Íslandi til þess að hægt verði að bæta mat á losun frá framræstum mýrum sem og árangur endurheimtar.

Greinin er aðgengileg á netinu í gegnum hvar.is og á vef tímaritsins „Acriculture, Ecosystem & Environment“.

Taka skal fram að rannsóknin var staðbundin mæling á losun á hláturgasi. Það er síðan ákvörðun viðkomandi stofnana (Land og skógur og UST) hvort niðurstöður rannsóknarinnar séu teknar inn í losunarbókhald fyrir allt landið.

Í dag er í bókhaldinu stuðst við innlendar bráðabirgðaniðurstöður, sem sýna minni losun en kemur fram í þessari grein. Verði niðurstöður þessarar rannsóknar ekki teknar upp í landsbókhaldið má búast við því að styðjast þurfi í bókhaldinu við stuðla IPCC, sem eru verulega hærri en núverandi viðmið og niðurstöður þessarar rannsóknar.

Mælisvæði á framræstu óræktuðu svæði á Heggstöðum.

Vatns- og hitamælar í jarðvegi.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...