Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Fyrri hluti hringferðar
Mynd / ál
Af vettvangi Bændasamtakana 2. maí 2025

Fyrri hluti hringferðar

Höfundur: Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri BÍ.

Frá áskorunum til lausna er yfirskrift fundaraðar Hönnu Katrínar atvinnuvegaráðherra og Bændasamtaka Íslands. Fyrri hluti hennar var farinn dagana 7.–9. apríl sl. en síðari hlutinn verður farinn í byrjun sumars.

Ráðherra mætti bændum auðmjúk og lærdómsfús og tilbúin í samtalið. Bændur tóku vel á móti henni, hvarvetna sem við komum. Ánægja ríkti með framtak Bændasamtakanna að fá ráðherra og hennar föruneyti til beins og milliliðalauss samtals við bændur enda ekki síst mikilvægt fyrir ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins að heyra, af eigin raun, hvernig hjartað slær í sveitunum.

Umræðurnar voru góðar og ekki síst málefnalegar. Afkoman var rædd og ítrekað vísað til þess að laun bænda eigi að endurspegla laun annarra stétta, eins og kveðið er á um í búvörulögum, en þrátt fyrir að unnið væri alla 365 daga ársins og verið á vakt allan sólarhringinn þá ættu bændur langt í land með að ná kjörum almenna vinnumarkaðarins.

Tollverndin kom ítrekað til tals og meðal annars rakið að sama krónutalan væri búin að vera á tollunum síðan árið 1995. Ráðherra sagði að fyrst við værum með tollverndina á annað borð þá væri mikilvægt að hún skilaði því sem hún ætti að skila. Þá kvað hún réttilega að tollverndin væri önnur á lykilstoðum eða grunnstoðum í stuðningskerfi landbúnaðarins.

Þá var nýliðun tíðrædd ásamt afleysingarþjónustunni og mikilvægi hennar. Ásókn í jarðir líka og kvað ráðherra það mikilvægt að landbúnaðurinn gæti keppt við aðra við kaup á jörðum þannig að góðum jörðum yrði haldið í búrekstri. Þá þyrfti að bæta samkeppnisstöðuna við innfluttar landbúnaðarvörur, nauðsynlegt væri að auka fjárfestingarstuðning og mikilvægt væri að hafa framleiðslutengdan stuðning þannig að hvatt væri til framleiðslu, hvort sem stuðningurinn væri árangurs- eða gæðatengdur. Verðlagsgrunnur mjólkur og hið margnefnda gat var umtalað og ráðherra tjáði að það væri mikilvægt að skoða það frekar. Rafmagnið og hár orkukostnaður bar eðlilega oft á góma og að auka þyrfti fjármögnunarleiðir í landbúnaði, ekki síst út frá nýliðun, og þá voru hugmyndir að hlutdeildarlánum nefndar. Eðlilega var hagræðingarmálið oft nefnt en allir voru í rauninni einatt sammála um að það yrði að hagræða innan afurðastöðvanna þannig að bændur fái mannsæmandi endurgjald fyrir afurðir sínar án þess að útsöluverð vörunnar myndi hækka.

Þá kom inn sérstaklega skemmtilegur vinkill, og í raun ekki síður mikilvægur, á lokafundi hringferðarinnar í Borgarnesi, um að það þyrfti að vera úrræði fyrir eldri kynslóðina að halda áfram á nýjum vettvangi eftir kynslóðaskipti. Með öðrum orðum þá óskaði ungur bóndi eftir aðstoð ráðherra um úrræði fyrir föður sinn þannig að hún gæti nú almennilega flutt úr foreldrahúsum, en hún hafði nýlega tekið við búinu. Uppskar hún mikinn hlátur í kjölfarið en það var einmitt það sem einkenndi ferðina, að þrátt fyrir að erfið mál væru rædd og þung, þá var alltaf stutt í bjartsýnina og léttleikann. Slíkt verður að vita á gott fyrir komandi tíma og nýja búvörusamninga. Áfram gakk – og við hjá Bændasamtökunum hlökkum til að hitta bændur með ráðherra á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu í byrjun sumars.

Matvæli hluti af þjóðaröryggi
Fréttir 5. desember 2025

Matvæli hluti af þjóðaröryggi

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands skilaði fyrir skemmstu af sér til...

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...