Frumkvöðull ferst af slysförum
Hann var fyrstur til að ganga á Hvannadalshnúk og fyrstur til að þvera Langjökul, margreyndur í volki og í ferðum um landið. Samt fór það svo að augnabliks aðgæsluleysi varð fyrsta ferðaþjónustuaðila Íslands að fjörtjóni. Hann drukknaði fyrir augum viðskiptavinanna.
„Alt frammá nítjándu öld þóttu íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri „furðu ljótur“, heldur þótti Mývatnssveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss.“ Þessi lýsing Halldórs Laxness á óbeit Íslendinga á fjöllum stendur í formálsorðum hans að frásögnum Kjartans Júlíussonar á Skáldstöðum efri í gamla Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Lýsingar Kjartans á ferðum sínum einn um fjallabálkinn milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar komu út á bók undir titlinum Reginfjöll að haustnóttum árið 1978, um það leyti sem landsmenn hristu af sér áhugaleysið um fjöll sín og firnindi. Kjartan hafði haldið til fjalla af hreinni forvitni með fátt annað sér til útbúnaðar en gamlan áburðarpoka frá Norsk Hydro til að hafa yfir sér á nóttunni, mjólk í flösku, kíki, myndavél og „krókstaf með broddi“. Hann var fjallgöngufólki nýrra tíma þó ekki fyrirmynd. Ári áður en hann birti einstæðar fjallasögur sínar var stofnaður í Reykjavík Íslenski alpaklúbburinn, ÍSALP, þar sem faglegt klifur og þróaður útbúnaður voru aðalsmerki. Þar var mörkuð stefnan til framtíðar. Enginn notar nú áburðarpoka til að skýla sér um nætur á fjöllum eða gæðir sér á mjólk úr flösku.
Lítið mál að labba
Hæst rís Ísland á gígbörmum Öræfajökuls. Þangað höfðu bændur í Öræfum mænt við dagleg störf svo öldum skipti en ekki fundið hjá sér neina hvöt til að komast þangað upp. Líklegast álitið að hájökulsbungan væri eitt af þessum „viðurstyggilegu plássum“, sem Halldór Laxness talar um.
Það vekur því óneitanlega undrun hve litla vafninga sá hafði á hlutunum sem fyrstur gekk upp á gígbrúnina. Þetta var Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem sagði frá göngunni í „journal“ sínum á rannsóknarferð um Ísland 1794 á vegum Náttúrufræðafélagsins í Kaupmannahöfn. Hann var kominn á fætur fyrir allar aldir þann 11. ágúst þetta ár og gekk með tveimur leiðangursmönnum upp jökulinn frá Kvískerjum, sem þá voru í eyði. Sveinn og félagar voru útbúnir „með loftvog, hitamæli, lítinn áttavita, oddhamar, jöklabroddstaf og 8 faðma langan vað“ og bundu þeir sig saman með það fyrir augum að toga þann upp sem dytti í sprungu, alveg eins og nú er gert. Hræðsla sótti að þeim þegar gríðarhár hvellur heyrðist í jöklinum þegar hann sprakk fram einhvers staðar, en Sveinn hristi það skjótt af sér því „hin meðfædda löngun mín til að ganga upp á hájökla“ var óttanum yfirsterkari. Einn þeirra þriggja gat hins vegar ekki meir og varð eftir en Sveinn og félagi hans gengu á „suðausturhnjúk jökulsins“, að öllum líkindum þangað sem nú heita Sveinsgnýpur í höfuðið á frumherjanum. Þar uppi virti Sveinn fyrir sér stórkostlegt útsýnið og gerði þá grundvallaruppgötvun að skriðjöklar skríða fram eins og „þykkt seigfljótandi efni“, fyrstur manna svo vitað sé. Sveinn var kominn niður með félögum sínum um klukkan fjögur síðdegis og varði ferðin rétt um tíu stundir.
Fyrstur á toppinn
Sveinn hafði numið staðar á suðausturbrún Öræfajökuls en fór ekki upp á Hvannadalshnjúk, lét nægja að geta hans undir því heiti fyrstur manna (og skrifaði hnjúkur, en ekki hnúkur). Lengi var talið að einn af þeim landmælingamönnum sem unnu hér fyrir stjórnina í Kaupmannahöfn í upphafi 19. aldar við strandmælingar, Norðmaðurinn Hans Frisak, hefði ásamt bóndanum á Fagurhólsmýri, Jóni Árnasyni, hreppstjóra Hofshrepps, komist upp á Hvannadalshnjúk fyrstur manna árið 1813. Landfræðingurinn Snævarr Guðmundsson lagðist hins vegar yfir gögn málsins, bæði skýrslur til rentukammers og svo dagbók Frisaks, og komst að því að bæði hefði þriðji maður verið í för, Norðmaðurinn Magnus Peterson, og einnig að þeir félagar hefðu aldrei gengið á Hvannadalshnjúk, heldur á Rótarfjallshnjúk.
Fyrir vikið væri ljóst að fyrstur manna til að ganga á Hvannadalshnjúk hefði verið Walesverjinn Frederick William Warbreck Howell ásamt bændum tveim frá Svínafelli, Páli Jónssyni og Þorláki Þorlákssyni, sumarið 1891.
Frumkvöðull í ferðamennsku
Howell kom fyrst til Íslands sumarið 1890, gagngert í þeim tilgangi að ganga á Hvannadalshnjúk. Hann hóf gönguna í ágúst, um svipað leyti og Sveinn nær öld áður, en ofsaveður á jöklinum olli því að hann og félagar hans, þeir Svínafellsbændur fyrrnefndir auk þriðja bóndans í Svínafelli, Jóns Sigurðssonar, urðu að snúa við. Howell lét það ekki á sig fá, heldur kom aftur sumarið 1891 og endurtók leikinn, nú í fylgd með enskum félaga sínum og bændunum frá Svínafelli. Þegar til átti að taka við sjálfa jökulgönguna voru þeir þó aðeins þrír sem höfðu kraft og vilja til að halda áfram og tókst þeim að komast upp á Hnjúkinn.
Howell gaf út árið 1893 mikla bók um Ísland, landkynningarbók sem hann nefndi Pictures from Iceland, þar sem fjöldi koparstungumynda af áfangastöðum og merkisstöðum er að finna. Sumarið 1895 var hann á ferð um Austurland, þvældist um heiðarnar upp af Fljótsdal og Jökuldal og flutti heimkominn til Bretlands fyrirlestra um Ísland þar sem hann fjallaði um göngu sína á Öræfajökul og kynnti landið sem áfangastað ferðamanna.
Á þessum árum hóf Howell að fara með fólk í skipulagðar ferðir um Ísland á vegum bresku ferðaskrifstofunnar „Messrs. Lean and Pearown“ í London. Er ekki til þess vitað að annar hafi haft þennan starfa áður og má Howell því kallast frumherji íslenskrar ferðaþjónustu. Næstu sumur var þetta starf hans. Hann tók á móti farþegum í Reykjavík og fór með þá um landið. Milli ferða gaf hann sér þó stund til að ganga þvert yfir Langjökul sumarið 1899, fór frá Kalmanstungu og upp á hæstu bungu og síðan norður allan jökul og niður af honum við Fögruhlíð í félagi við nokkra aðra. Ekki er vitað til að aðrir hafi gert það áður. Howell var fyrirtaks ljósmyndari og á ferðum sínum tók hann fjölda mynda, ómetanlegar heimildir.
Anað út í Héraðsvötn
Í júlíbyrjun 1901 reið Howell með viðskiptavini sína yfir Öxnadalsheiði. Var hann að koma austan úr Þingeyjarsýslum og áði á Silfrastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði. Ferðinni var heitið suður til Reykjavíkur yfir Kjöl. Með í för voru tvenn ensk hjón: herra og frú Gifford frá Cardiff í Wales og herra og frú Kingston. Fylgdarmenn voru tveir, bræðurnir Sigurður og Sigurjón Sumarliðasynir, synir Sumarliða Guðmundssonar, landpósts á Örlygsstöðum í Helgafellssveit. Þeir höfðu dvalist fyrir vestan haf og voru almæltir á ensku.
Þann þriðja júlí lagði hópurinn af stað frá Silfrastöðum og reið norður Blönduhlíð. Eins og jafnan um vor eða snemma sumars höfðu komið flóð í Héraðsvötn skömmu áður og höfðu staðkunnugir áhyggjur af því að vöð hefðu breytt sér. Var Howell ráðlagt að ríða út að næstu ferju sem var hjá Ökrum. Hann virtist þó ekki hafa mikinn áhuga á því, enda nokkur krókur, fór út að Kúskerpi rétt norðan við Silfrastaði, kvaddi þar til menn af næstu bæjum og reið síðan með hópinn yfir í Steinsstaðahólma og ætlaði þaðan yfir Vötnin, beint inn á veginn áleiðis upp á Kjöl.
Í dómabók sýslumanns Skagafjarðarsýslu má lesa frásögn vitna að slysinu sem nú var í uppsiglingu. Kemur þar fram að þrátt fyrir að bæði fylgdarmenn og heimafólk hafi þrábeðið Howell um að ríða út að ferjunni hafi hann ekki ansað því. Hann vildi fara yfir vaðið hvað sem tautaði og raulaði.
Með herkjum tókst að koma hjónunum tveimur yfir og fylgdarmennirnir náðu einnig landi með alla lestina, um 40 hross. Howell reið hins vegar síðastur. Hestur hans rataði út af brotinu í vaðinu, stakkst á kaf í sandbleytu svo Howell féll af baki og hvarf sjónum í straumnum. Líkið fannst nokkrum dögum síðar í landi Steinsstaða í Tungusveit. Það hljómar eins og lygasaga en er þó satt: einmitt á þeim bæ fæddist Sveinn Pálsson.
