Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
„Búvörusamningar framtíðarinnar verða því að vera meira en tryggingakerfi fyrir afkomu; þeir verða að verða vettvangur umbreytinga, nýrrar hugsunar og langtímastefnu.“
„Búvörusamningar framtíðarinnar verða því að vera meira en tryggingakerfi fyrir afkomu; þeir verða að verða vettvangur umbreytinga, nýrrar hugsunar og langtímastefnu.“
Á faglegum nótum 14. júlí 2025

Framtíð búvörusamninga

Höfundur: Unnsteinn Snorri Snorrason, bóndi

Frá því að fyrstu búvörusamningarnir voru undirritaðir á níunda áratug síðustu aldar hefur íslenskur landbúnaður að verulegu leyti verið mótaður af samningsbundnum stuðningi ríkisins. Samningarnir hafa haft afgerandi áhrif á hvernig bændur skipuleggja sinn búrekstur, hvaða greinar njóta stuðnings og hvernig atvinnugreinin þróast í heild. Eftir nærri fjóra áratugi þar sem megináherslan hefur verið á framleiðslustýringu og takmarkanir, blasir nú við að horfa þurfi til nýrrar nálgunar. Næstu samningar þurfa með skýrum og afgerandi hætti að tryggja bændum viðunandi afkomu og skapa raunverulegt svigrúm til vaxtar, nýsköpunar og faglegra framfara.

Unnsteinn Snorri Snorrason.

Með fyrstu samningunum milli ríkis og bænda – og með formfestingu þeirra í búvörulögum árið 1990 – var leitast við að tryggja bændum afkomu með stuðningi sem tengdist framleiðslu og afurðum, ásamt því að stuðla að jafnvægi í framboði og eftirspurn. Í því skyni var komið á kvótakerfum í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt þar sem framleiðslumagni var stýrt með greiðslum og heimildum. Þótt markmiðið væri stöðugleiki í framleiðslu og verðmyndun, urðu þessir samningar með tíð og tíma fyrst og fremst tæki til að takmarka frelsi – frekar en hvati til nýrrar hugsunar og þróunar.

Samningarnir sem tóku gildi árið 2016 fólu í sér ákveðna endurskoðun á þessu fyrirkomulagi, með sameiginlegum rammasamningi og sérsamningum fyrir einstakar búgreinar. Þar var aukið vægi lagt á umhverfismál, dýravelferð og nýliðun, og meginmarkmiðið var að draga úr vægi framleiðslutengds stuðnings með því að færa beingreiðslur yfir í býlis- og gripagreiðslur. Þessar breytingar mættu þó tortryggni innan stéttarinnar og leiddu til þess að sumum markmiðum var ýmist hætt við eða þeim frestað. Bændur hafa bent á að þrátt fyrir ýmsa annmarka skapi beingreiðslukerfið fyrirsjáanleika í rekstri og stuðli að stöðugleika í afkomu – sjónarmið sem nauðsynlegt er að virða þegar nýir búvörusamningar verða mótaðir.

Meginmarkmið nýrra búvörusamninganna þarf að vera skýrt: að tryggja bændum viðunandi afkomu. Jafnframt þurfa þeir að styðja við fjárfestingu og nýliðun, auk þess sem þeir þurfa að styrkja getu bænda til að mæta vaxandi kröfum samfélagsins um aðbúnað, umhverfismál og loftslagsábyrgð. Um leið verður að tryggja að þessar kröfur séu sanngjarnar, raunhæfar og hamli ekki eðlilegum vexti og þróun greinarinnar.

Eitt af því sem brýnt er að takast á við í nýjum samningum eru breyttar forsendur í tollvernd og stöðu markaðar fyrir innlendar landbúnaðarafurðir. Tollvernd hefur veikst verulega frá síðustu samningum, meðal annars vegna nýrra fríverslunarsamninga og aukins innflutnings. Þessi þróun hefur grafið undan samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu og leitt til eftirgjafar í markaðshlutdeild. Stjórnvöld verða að móta skýra stefnu um það hvernig tollvernd eigi að styðja við íslenska matvælaframleiðslu til framtíðar.

Samhliða þessu hefur staða afurðastöðva versnað. Margar þeirra eru í veikri fjárhagsstöðu, og áform um hagræðingu og sameiningar hafa víða reynst erfið í framkvæmd. Ráðandi aðilar á smásölumarkaði hafa auk þess komið sér upp yfirburðastöðu sem torveldar nýjum aðilum að koma inn á markaðinn og veikir samningsstöðu framleiðenda. Til að búvörusamningar skili tilætluðum árangri þarf að tryggja að virðiskeðjan í heild sé skilvirk og þjóni sameiginlegum markmiðum: hag bænda, samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu og hagsmunum neytenda.

Framtíð búvörusamninga felst ekki eingöngu í endurskoðun samningsliða eða endurmati á kerfum. Hún felst í því að skapa raunverulegt samstarf milli ríkisvalds og bænda um skýr og mælanleg markmið. Til að slíkt samstarf verði árangursríkt þarf að efla söfnun og úrvinnslu gagna um framleiðslu, afkomu og þróun markaða – og tryggja að þessar upplýsingar nýtist við stefnumótun.

Landbúnaður framtíðarinnar mun þurfa að takast á við flókin og síbreytileg viðfangsefni – allt frá loftslagsmálum og sveiflum á heimsmarkaði til aukinna samfélagslegra væntinga um sjálfbærni, fæðuöryggi og traust. Búvörusamningar framtíðarinnar verða því að vera meira en tryggingakerfi fyrir afkomu; þeir verða að verða vettvangur umbreytinga, nýrrar hugsunar og langtímastefnu. Með skýrri stefnu og sameiginlegri ábyrgð má byggja upp nútímalegan, sjálfbæran og traustan landbúnað – atvinnugrein sem laðar að nýja bændur og nýtur trausts samfélagsins. Það er það sem framtíð búvörusamninga á að tryggja.

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...