Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu
Lesendarýni 30. ágúst 2021

Framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu

Höfundur: Þórarinn Ingi Pétursson

Fjölmörg tækifæri og sóknar­færi er að finna í íslenskri matvæla­framleiðslu. Víða býr óbeislaður kraftur í hugviti, dugnaði og auð­lindum í íslenskum sveitum og sjávarplássum. Þessi kraftur bíður þess að fá að skapa verð­mæti, velsæld og bjarta framtíð fyrir land og þjóð.

Færa má fyrir því haldbær rök að helsti dragbítur á framfarir í landbúnaði og matvælaframleiðslu á Íslandi felist í skilningsleysi verulegs hluta stjórnmálastéttarinnar sem kristallast í úreltu laga- og regluverki, stöðnuðum stofnunum og sorglegri vöntun á metnaðarfullri framtíðarsýn.

Steinrunnar raddir

Í opinberri umræðu eru tvær steinrunnar raddir sem tala hátt. Annars vegar þeir sem telja að lausn allra vandamála í íslenskum landbúnaði felist í því að moka sífellt meiri fjármunum skattgreiðenda inn í greinina. Slíkt hefur engin áhrif til langframa nema með fylgi breytt viðhorf og vel ígrundaðar kerfisbreytingar. Einsskiptis innspýtingar og stakir björgunarhringir skila engu til langframa. Lausnin við framtíðaráskorunum landbúnaðarins er ekki sú að auka bara við fjárhagslegan stuðning. Það þarf miklu fleira að koma til.

Úr annarri átt hrópa svo þeir sem vilja að Ísland verði eina landið í heiminum sem ræðst í einhliða niðurfellingu tolla og takmarki verulega stuðning við landbúnaðinn. Í hátíðarræðum talar þetta fólk gjarna um að breyta kerfinu og nýta tækifærin. En þegar kemur að nánari útskýringum eða hugmyndum verður fátt um svör. Stundum er því þó hnýtt við að Evrópusambandsaðild gæti leyst allan vanda. En séu þessi rýru svör greind og krufin, þá snúast þau flest um að veikja stöðu bænda og landsbyggðarinnar með hagsmuni fámennrar heildsalaklíku að leiðarljósi. Það er ekki það sem þjóðin vill.

Sanngjarnar leikreglur

Það eru engar töfralausnir til sem geta bjargað íslenskum landbúnaði. En það eru hins vegar til ýmsar lausnir sem geta hjálpað honum að bjarga sér sjálfur. Það er algert forgangsatriði að móta raunhæf starfsskilyrði fyrir matvælaframleiðslu á Íslandi til framtíðar á grundvelli sjálfbærni og verðmætasköpunar. Laga þarf regluverkið þannig að bændur og afurðafyrirtæki þeirra geti keppt á sanngirnisgrundvelli við innflutning og erlenda verksmiðjuframleiðslu. Ég hef barist fyrir því á Alþingi að afurðafyrirtæki fái að nýta aflið sem felst í samvinnu og samstöðu til að eiga möguleika á að keppa við alþjóðleg stórfyrirtæki og innlenda auðhringi.

Íslensk matvælaframleiðsla óttast ekki sanngjarna keppni á markaði. Hér eru framleiddar úrvals matvörur til sjávar og sveita á umhverfisvænni hátt en víðast annars staðar. Hér nýtir fólk grænar auðlindir á umhverfisvænan hátt til að skapa sjálfu sér lífsviðurværi og samfélaginu verðmæti. Við stöndum einstaklega vel að vígi þegar kröfur um umhverfisvænleika, loftslagsábyrgð og dýravelferð eru sífellt að verða háværari. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur standa frammi fyrir fjölda tækifæra í heimi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir afurðum sem framleiddar eru á forsendum helstu styrkleika Íslands.

Tækifæri landbúnaðarins

Það er því þyngra en tárum taki að flókið regluverk, úr sér gengin löggjöf, vanvirkar stofnanir og skilnings- eða þekkingarleysi séu dragbítur á framfarir og aukna verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu. Bændur eru ekki að biðja um ölmusu, heldur einfaldlega að á þá sé hlustað og að leikurinn sé sanngjarn. Sjálfur hef ég í áratugi barist fyrir hagsmunum bænda og annarra matvælaframleiðenda á ýmsum vettvangi. Meðal annars lagt til aukna skógrækt, frelsi til samvinnu afurðastöðva, meiri stuðning við nýsköpun og svo mætti áfram telja.

Í heimi hraðra breytinga þarf að laga starfsskilyrði landbúnaðarins að breyttri heimsmynd og kröfum neytenda og um betri vöru sem framleidd er á forsendum umhverfis, velferðar og heilnæmis. Við verðum að standa vörð um hefðbundnar greinar en á sama tíma að stórauka akuryrkju, skógrækt og landgræðslu.

Verkin tala

Það er algert lykilatriði að endurskoða regluverkið um landbúnaðinn hið fyrsta með það fyrir augum að auka frelsi, samkeppnishæfni og verðmætasköpun á grundvelli sanngjarnra leikreglna um leið og tryggt er að engin íslensk bændafjölskylda þurfi að bregða búi vegna þess að kerfið virkar ekki sem skyldi.

Margt hefur verið rætt og skrafað, margar nefndir skipaðar og margar skýrslur skrifaðar. Nú er hins vegar kominn tími á að eldmóður og ástríða ráði för í þessum málaflokki. Nú er kominn tími til að láta verkin tala og hefja fyrir alvöru framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson.
Höfundur er alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...