Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Vilhjálmur Lúðvíksson áritar bók sína.
Vilhjálmur Lúðvíksson áritar bók sína.
Mynd / mhh
Líf og starf 8. september 2025

Fræðslurit um ræktun rósa á Íslandi

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Rósir fyrir íslenska garða“ er ný bók, sem var að koma úr prentun en höfundur hennar er Vilhjálmur Lúðvíksson. Bókin er ríkulega myndskreytt fræðslurit um ræktun rósa við íslenskar aðstæður. Hún er byggð á 25 ára reynslu höfundar og upplýsingum frá félögum í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands síðastliðinn áratug.

Markmið bókarinnar er að koma reynslu þessari á framfæri og vekja athygli á séríslenskum aðstæðum við rósarækt, sérstaklega vandamálum tengdum veðurfari og jarðvegi, en einnig leiðum til að ná árangri og hafa ánægju af ræktun blómstrandi og ilmandi garðrósa.

Kápa nýju bókarinnar, sem Vilhjálmur skrifaði og heitir „Rósir fyrir íslenska garða“. Mynd / Aðsend

„Bókin er eins konar svar við spurningu sem höfundur fékk frá áströlskum rósaræktanda á heimsráðstefnu Alþjóðasambands Rósafélaga (WFRS) um rósarækt í Danmörku sumarið 2018: „Er hægt að rækta rósir á Íslandi?“  Svarið má finna í bókinni; að ræktun allmargra nafngreindra rósa er – með viðeigandi umhirðu – raunhæf bæði í venjulegum heimagörðum en einnig í skógargörðum sem hafa myndast í frístundalöndum þar sem skógrækt hefur skapað skjól og jarðvegur verið bættur,“ segir Vilhjálmur.

Ertu búinn að vinna lengi að gerð bókarinnar og hvernig hefur sú vinna gengið?

„Já, ég hef haft hana í huga lengi og gert nokkur drög að henni og safnað ljósmyndum af rósum á undanförnum 10–12 árum samhliða reynslukönnunum sem gerðar voru meðal klúbbfélaga. En það kom fyrst skriður á málið þegar ég í fyrrahaust fékk mjög áhugasaman útgefanda, Sögur útgáfu, sem vildi taka málið að sér og aðstoða mig við að hrinda þessu í framkvæmd. Það varð úr því skemmtileg samvinna við starfsfólk og stjórnendur útgáfunnar sem tókst þannig að tímaáætlun sem við gerðum í byrjun október í fyrra stóðst upp á dag og bókin kom út eins og stefnt var að strax þá eða í byrjun dagskrár Norrænu rósahelgarinnar, föstudaginn 8. ágúst síðastliðinn. Norræna rósahelgin var haldin hér á landi í annað sinn dagana 8.–10. ágúst á vegum Rósaklúbbs Garðyrkjufélagsins. Án náinnar og skapandi samvinnu við Sögur útgáfu hefði þessi áætlun varla getað staðist. Á þeim bæ er fólk sem veit hvernig á að standa að verki í útgáfu bóka,“ segir Vilhjálmur, alsæll með nýju bókina.

Rósir á Íslandi, er flókið eða auðvelt að rækta þær og er almennur rósaáhugi í landinu, eða hvað?

„Ræktun rósa þarf ekki að vera flókin en eins og í allri ræktun er mikilvægt að vita hvernig á að standa að verki í upphafi og þá gjarnan velja rósir eða arfgerðir sem reynst hafa vel svo ekki valdi vonbrigðum. Því miður hafa ekki verið nægar upplýsingar tiltækar fyrir hérlendar aðstæður til rósaræktar. Bókin „Rósir fyrir íslenska garða“ er held ég fyrsta tilraunin til að meta frammistöðu nafngreindra rósa hér á landi, með áherslu á reynsluna á Suður- og Suðvesturlandi, og lýsa jafnframt eiginleikum nokkurs fjölda þeirra,“ segir Vilhjálmur.

Hvað ert þú að kynna mikið af rósum í bókinni og ertu með myndir af þeim flestum, eða?

„Í bókinni er fjallað um 250 nafngreindar rósir og fylgja yfirleitt þrjár myndir af hverri rós. Auk þess er fjöldi mynda, þar á meðal margar heilsíðumyndir, m.a. á kaflaskilum í bókinni, sem sýna rósir í víðara samhengi og dæmi um notkun þeirra í görðum. Eins eru margar smærri myndir sem sýna aðferðir við umhirðu rósa svo og myndir úr sögu rósaræktar frá öndverðu og hlutdeild þeirra í mannkynssögunni. Alls eru um 770 myndir í bókinni, stórar og smáar,“ segir Vilhjálmur.

Hvernig viðtökur hefur þú fengið við bókinni og hvar er hægt að kaupa hana?

„Mér er sagt að viðbrögð við bókinni séu bara góð, hún þyki aðgengileg og að útlit hennar falli fólki í geð. Hún er víst til sölu í helstu bókabúðum víða um land, svo sem Pennanum – Eymundsson og Forlaginu; og eins hjá ýmsum gróðrarstöðvum sem selja rósir, svo sem Mörk í Stjörnugróf og Þöll í Hafnarfirði og í Sólskógum á Akureyri sem og í versluninni Garðheimum,“ segir hann.

Er eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?

„Líklega er það skemmtilegasta við kynni mín af garðrósum, sem á annað borð standa sig hjá okkur, hve vel þær henta til að skrýða stíga og skógarlundi og í skógum þar sem þær eru gróðursettar og fá nægilegt sólarljós til að njóta sín. Jafnvel gras, lúpína og annar úthagagróður verður þeim ekki fjötur um fót. Þar verða fljótt til sannkallaðir blómstrandi skógargarðar sé rétt að verki staðið og góð yrki notuð. Vísað er á þau í bókinni. Ánægðar rósir má m.a. sjá þessa dagana í fyrsta rósagarðinum sem Rósaklúbburinn plantaði rósir í árið 2005 í Höfðaskógi, landi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, ofan við Hvaleyrarvatn. Þetta sýnir að rósir geta vel þrifist á Íslandi og staðið sig til lengdar. Rósir geta tvímælalaust vaxið og veitt ánægju bæði í heimagörðum og skógargörðum hér á landinu bláa,“ segir Vilhjálmur

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...