Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Renault Scenic er bíll ársins 2024 að mati evrópskra bílablaðamanna. Þetta er rúmgóður rafmagnsbíll sem er sérlega fríður og einfaldur í akstri.
Renault Scenic er bíll ársins 2024 að mati evrópskra bílablaðamanna. Þetta er rúmgóður rafmagnsbíll sem er sérlega fríður og einfaldur í akstri.
Mynd / ál
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá evrópskum bílablaðamönnum og var valinn bíll ársins 2024. Ökutækið er af svipaðri lengd og Kia Niro.

Þessi bíll er áþekkur Renault Megane E-Tech í notkun, en Scenic er 26 sentímetrum lengri ásamt því að vera nokkrum sentímetrum breiðari og hærri sem skilar sér í auknu plássi fyrir farþega og farangur. Kaupendum Scenic stendur til boða að fá 87 kílóvattstunda rafhlöðu sem getur skilað allt að 625 kílómetra drægni, en einnig fæst minni 60 kílóvattstunda rafhlaða sem á að koma bílnum allt að 430 kílómetra á einni hleðslu við bestu aðstæður.

Ytra útlit þessa bíls er afgerandi og töff og einkennist af skörpum línum og hvössum hornum. Þessi nýjasta kynslóð Scenic er farin frá því að vera eins og ofvaxinn Renault Megane yfir í að vera eins og smækkaður jeppi. Svart plast meðfram hjólaskálum og sílsum gefur þá sjónhverfingu að það sé hærra undir bílinn en í rauninni er.

Dökkir sílsar láta bílinn líta út fyrir að vera hærri en hann er.

Stílhrein innrétting

Þessi tiltekni bíll var af dýrustu útgáfunni sem nefnist Esprit Alpine og hefur framleiðandinn lyft upp innréttingunni með bláu skrauti hér og þar. Þar má nefna þykka bláa rönd sem nær frá hurðaspjöldunum þvert yfir mælaborðið, ásamt bláu gólfteppi og fóðri í hurðavösum í sama lit. Þetta þema heldur áfram með bláum saum hér og þar í innréttingunni og á sætunum.

Hart og mjúkt plast finnst víða í bland, en áferðin á öllu er áhugaverð. Esprit Alpine-útgáfan er með þaki að mestu leyti úr gleri sem hleypir inn mikilli birtu. Með því að ýta á takka ofan við framrúðuna er hægt að gera panorama-glerþakið alveg skýjað.
Í miðju mælaborðinu er stór og hár snertiskjár. Stýrikerfið virðist vera úthugsað og tekur skamman tíma að rata um viðmótið. Neðsta röndin á snertiskjánum er alltaf með flýtileið fyrir hita í sætum og stýri. Efst eru jafnframt alltaf takkar til að komast beint í stillingar, útvarp eða heimaskjá. Neðan við skjáinn eru hefðbundnir hnappar til að stjórna því helsta sem viðkemur miðstöðinni og nær Renault með þessu góðu jafnvægi milli fjölda hefðbundinna takka og notkunar snertiskjás.

Stýrishjólið er eins og rúnnaður sexhyrningur og fellur sérstaklega vel í hendi. Í pílárunum í stýrinu eru takkar til að stjórna hraðastilli og til að fletta í gegnum aksturstölvuna í skjánum framan við ökumanninn. Fyrir aftan stýrið eru fjórar stangir sem gegna allar ólíkum hlutverkum og er það í stíl við aðra nýja rafmagnsbíla frá Renault. Að auki við þessar tvær hefðbundnu sem stjórna rúðuþurrkum og stefnuljósum eru tvær aukastangir hægra megin. Önnur er með hnöppum til að stjórna útvarpinu á meðan hin er gírstöngin. Óvanir notendur geta lent í því að kveikja á rúðuþurrkunum í staðinn fyrir að skipta um gír.

Blátt skraut gefur ferskan blæ í Esprit Alpine-útgáfunni.

Dökkt tauáklæði

Sætin eru nokkuð þægileg þó þau séu engir lúxusstólar. Þau eru klædd með dökku tauáklæði og að flestu leyti stillt handvirk, fyrir utan mjóbaksstuðninginn. Þau eru stillanleg á marga vegu, en undirritaður saknaði þess að geta ekki stillt hallann á sessunni til að fá betri stuðning undir lærin.

Aftursætisfarþegarnir fá gott pláss að því gefnu að framsætunum hafi ekki verið rennt aftast og í lægstu stöðu. Sé sessan pumpuð aðeins upp er hægt að renna fótunum undir og vistin í aftursætunum ágæt fyrir þrjá fullorðna. Ef farþegarnir eru tveir geta þeir dregið niður stóran armpúða sem er í miðjunni. Hann hefur að geyma tvo glasahaldara og sérstaka festingu til þess að skorða spjaldtölvur eða síma á meðan horft er á myndbönd.

Skottið er í meðallagi stórt og undir gólfinu er djúp hirsla sem hentar ágætlega fyrir hleðslukapal og annað sem þarf alltaf að vera við höndina. Undir húddinu er ekkert geymslupláss.

Skottið er í meðallagi stórt, en gólfið er nokkuð lágt.

Tær akstursupplifun

Renault Scenic er með lyklalaust aðgengi. Hann skynjar þegar notandinn gengur að bílnum með lykilinn í vasanum og fer sjálfkrafa úr lás, ásamt því sem ökutækið er ræst með hnappi. Þá er lagt upp með að bíllinn fari í lás þegar gengið er í burtu, en í þessum prufuakstri virtist síðastnefndi eiginleikinn ekki alltaf virka og var nauðsynlegt að læsa með fjarstýringunni.

Fjarlægðartengdi hraðastillirinn sér til þess að Scenic haldi hæfilegri fjarlægð við næsta bíl af yfirvegun, jafnvel í kröppum beygjum og hringtorgum. Þessi eiginleiki er sérstaklega nytsamlegur í þungri umferð þar sem stöðugt er verið að stoppa og taka af stað. Ökumaðurinn þarf hins vegar að sjá að mestu leyti um að stýra þar sem akstursaðstoðin gerir lítið annað en að grípa inn í þegar sveigt er út fyrir akrein.

Renault Scenic er 220 hestöfl og snöggur að ná umferðarhraða, þó að ökumenn og farþegar fái alls ekki fiðring í magann þegar allt er gefið í botn. Scenic er eingöngu framhjóladrifinn en nær góðu gripi og spólar ekkert þrátt fyrir að tekið sé glannalega af stað á blautum og sleipum vegi.

Fjöðrunin glímir ágætlega við hraðahindranir og stærri misfellur en hún ræður verr við að dempa kvikar hreyfingar á hærri hraða sem farþegarnir finna vel fyrir ef þjóðvegurinn er ósléttur. Eitthvað ber á nið þegar ekið er á hærri hraða en hljóðvistin má almennt teljast góð hvort sem ekið er innanbæjar eða úti á þjóðvegum. Í rólegum innanbæjarakstri er Scenic svo gott sem hljóðlaus að innan.

Akstursupplifunin er tær og er Scenic ágætlega skemmtilegur bíll í akstri. Það er ekkert við notkunina á honum sem er til þess fallið að angra ökumanninn, en hann býr heldur ekki yfir neinni stórmerkilegri tækni sem nýir notendur verða bergnumdir yfir, að undanskildu einu atriði:

Það er lítill takki vinstra megin við stýrið sem er hægt að ýta tvisvar á til þess að slökkva á hámarkshraðaviðvöruninni sem er skylda í nýjum bílum í dag. Framleiðendur þessa bíls skilja greinilega að það vilja allir slökkva á þessu pípi og einfaldara gerist það ekki. Takk, Renault!

Að aftan er stór armpúði með glasahöldurum og festingum fyrir skjái.

Að lokum

Helstu mál eru í millimetrum: Lengd, 4.470; breidd, 1.864; hæð 1.571. Renault Scenic kostar frá 6.900.000 krónum í Techno útfærslu með 60 kílóvattstunda rafhlöðu. Með stærri 87 kílóvattstunda rafhlöðunni kostar Techno-útfærslan 7.990.000 krónur. Bíllinn sem ritað er um hér er af áðurnefndri Esprit Alpine-útfærslu með stærri rafhlöðunni og kostar 8.390.000 krónur. Öll verð eru með vsk. og 900.000 styrk frá Orkusjóði.

Renault Scenic er kostum gæddur bíll með gott pláss og gullfallegt útlit og þarf engan að furða að ökutækið hafi fengið titilinn „Bíll ársins 2024“. Það verður hins vegar að teljast ókostur að hann er verðlagður nokkuð hátt í samanburði við aðra bíla, sérstaklega þegar Scenic er útbúinn með stærri rafhlöðunni. Frekari upplýsingar fást hjá BL, umboðsaðila Renault á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f