Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ingvar Björnsson og Elín Aradóttir á Hólabaki sem staðsett er við mynni Vatnsdals.
Ingvar Björnsson og Elín Aradóttir á Hólabaki sem staðsett er við mynni Vatnsdals.
Líf og starf 10. júlí 2023

Flétta saman kúabúskap og framleiðslu vefnaðarvöru

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Bændur finna sér í auknum mæli verkefni utan búskaparsins. Margir vinna utan heimilis, ferðaþjónustubændum hefur fjölgað og einnig þeim sem bjóða upp á vörur og þjónustu heima á bæ. Á bænum Hólabaki í Húnabyggð er rekin vefnaðar- og gjafavöruverslun samhliða kúabúskap og hrossarækt.

Fjölbreyttar vefnaðarvörur eru í boði á Hólabaki, sem margar hverjar eru saumaðar í héraði.

Á Hólabaki búa þrjár kynslóðir. Björn Magnússon og Aðalheiður Ingvarsdóttir keyptu jörðina 1972 og hafa búið þar síðan. Ingvar Björnsson og Elín Aradóttir hafa búið á Hólabaki ásamt börnum sínum þremur, Aðalheiði, Ara og Elínu, síðan 2013.

„Við hófum búskap fyrir tíu árum síðan og tókum þá við kúabúi foreldra Ingvars. Við höfðum áður búið á Akureyri, en þar hafði ég þegar hafið framleiðslu á vefnaðarvörum í litlu mæli. Þegar við ákváðum að flytja í sveitina þá var frá upphafi meiningin að ég myndi útvíkka þann rekstur. Það hefur síðan gengið eftir og ég hef verið í fullu starfi við fyrirtækið í tíu ár,“ segir Elín, en hún framleiðir undir vörumerkjunum LAGÐUR og TUNDRA.

Yngsta kynslóðin á bænum við pökkun á gjafavöru, Ari Ingvarsson og Aðalheiður Ingvarsdóttir.

„Kúabúið er ekki það stórt að það beri tvo starfsmenn í fullu starfi, Ingvar starfar því að mestu einn við búskapinn, en nýtur dyggrar aðstoðar eldri kynslóðar á bænum,“ segir Elín, en á kúabúinu eru um 40 mjólkurkýr ásamt uppeldi, samtals um 80 gripir. Mjólkurframleiðsla á ári er um 250 þúsund lítrar.

Umfang gjafavörufyrirtækisins telur hins vegar um tvö ársverk auk þess sem umtalsverðum saumaskap er útvistað til verktaka í héraði. Elín er eini launþeginn hjá fyrirtækinu árið um kring, en yfir sumartímann er fastur sumarstarfsmaður, auk þess sem verktakar sinna pökkun og afleysingu. Í sumar verður svo verslunin heima að Hólabaki opin alla daga milli kl. 12–17.

„Hólabak er vel staðsett með tilliti til umferðar ferðamanna. Það eru því klárlega tækifæri í verslunarrekstri hér heima á bæ. Að reka gjafavöruverslun í sveit hefur sína kosti og galla. Verslunarrekstur er í raun ákveðin ferðaþjónustustarfsemi og staðsetning á sveitabæ býður upp á ákveðna sérstöðu og óvanalega verslunarupplifun. Bæði íslenskir og erlendir ferðamenn hafa gaman af því að koma heim á býli og sjá hvað bændur og búalið er að sýsla við. Það má því segja að heimsókn í verslunina okkar sé eins konar tækifæri til að hitta heimafólkið í leiðinni, svona eins konar „meet the locals“ hugmyndafræði eins og það er kallað á ensku. Ekki spillir heldur fyrir að verslunin er staðsett við sumarkúahagann og kýrnar og hundurinn á bænum taka því oft og tíðum á móti gestunum,“ segir Elín.

Hún segir að vefnaðarvöruframleiðslan samhliða búskap henti áhugasviði og þekkingu þeirra hjóna. „Okkur hefur því gengið þokkalega að láta þetta ganga upp. Í dag er ekki sjálfgefið að fólk hafi áhuga á að vinna við skepnuhald, þó það hafið valið sér að búa í dreifbýli. Við erum líka þeirrar skoðunar að í grundvallaratriðum sé skynsamlegt að eiga ekki allt sitt undir of fáum breytum. Það skiptast á skin og skúrir í öllum rekstri og þá getur verið gott að geyma ekki öll eggin í sömu körfunni.“

Kýrnar og hundurinn á bænum taka oft og tíðum á móti gestum.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...