Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem er einungis fimmtán ára gamall, en hann byrjaði í kórnum í fyrra.
Karlakórinn Heimir í Skagafirði er með vinsælustu karlakórum landsins en í honum eru um 70 karlar og æft er tvisvar í viku. Stjórnandi kórsins er Jón Þorsteinn Reynisson og undirleikari er Alexander Edelstein. „Hann fór að suða um að koma með mér á kóræfingar 13 ára gamall en ég sagði honum að róa sig og klára múturnar, en eftir meira og meira suð þá tók ég hann með mér á æfingar í fyrra, þá 14 ára, og það hefur gengið ljómandi vel. Hann syngur í fyrsta bassa og er bara mjög sáttur og sæll í kórnum,“ segir Marinó Indriðason, bóndi í Litla-Dal í Skagafirði og pabbi Fjölnis.
Mamma hans heitir Hanna Björg Hauksdóttir og systkini Fjölnis eru þau Haukur Ingvi, Dalmar Snær og Svandís Katla. „Mér finnst mjög gaman í kórnum því eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að syngja. Ég er í 10. bekk í Varmahlíðarskóla, sem er frábær skóli með góðu félagslífi,“ segir Fjölnir Þeyr.
Eftir grunnskólagönguna stefnir hann á að læra vélvirkjun á Akureyri eða á Sauðárkróki. „Karlarnir í kórnum hafa tekið mér mjög vel og segja gott að fá svona ungan strák í kórinn. Ég fæ alltaf far með pabba á æfingar og svo er afi líka í kórnum, sem er frábært. Skemmtilegasta lagið sem kórinn syngur að mínu mati er „Hermannakórinn“, það er frábært lag. Ég hvet alla karla, unga sem eldri, að fara í karlakór, þetta er svo skemmtilegt og félagsskapurinn frábær,“ segir Fjölnir Þeyr.
