Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Við það að fimm loðdýrabú á Suðurlandi hætta starfsemi leggst loðdýrarækt nærfellt af á Íslandi.
Við það að fimm loðdýrabú á Suðurlandi hætta starfsemi leggst loðdýrarækt nærfellt af á Íslandi.
Mynd / Bbl
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginlegri fóðurstöð á Selfossi. Verið er að ljúka slátrun á dýrunum og skinnin verða seld á næsta ári til að hafa upp í fóðurkostnað. Eitt loðdýrabú stendur eftir á Íslandi, í Mosfellssveit.

Björn Harðarson, formaður deildar loðdýrabænda hjá Bændasamtökum Íslands og loðdýra- og kúabóndi að Holti I, er einn fimm loðdýrabænda á Suðurlandi sem standa nú í að slátra öllum sínum minkum, í Holti, 1.500 læðum og hvolpum. Eftir stendur eitt minkabú í Mosfellssveit og má því segja að loðdýrarækt hafi nærfellt lagst af í landinu.

„Við byrjuðum í þessu árið 2012, ég og tengdasonur minn, í gömlum fjárhúsum, þarna í góðærinu, byggðum hús fyrir þetta 2014 og eftir það lækkuðu verðin,“ útskýrir Björn. Í Holti I er einnig rekið kúabú og hann segist reikna með að þau geti haft einhverjar tekjur af eldishúsinu sem geymsluplássi. Loðdýrabændur geti illa nýtt húsin í annað en geymslur, enda séu þetta stórir skálar og óeinangraðir. Hinir fjórir loðdýrabændurnir sem hætta nú loðdýraeldi eru ýmist að vinna utan býlis, með kindur eða kýr, eða við það að hætta sökum aldurs.

Björn kveður enn verulega eftirspurn eftir skinnum á heimsmarkaði „Kínverjar kaupa mest og eru markaðsráðandi. Svo virðist sem óhemjumikið af skinnum sé til á lager frá síðasta hruni, árið 2014, þá datt verðið niður og hefur ekki náð sér á strik síðan. Svo kom auðvitað Covid, þá sáust Kínverjar ekki í tvö ár á markaðnum, og síðan brast á stríð í Úkraínu, þannig að allt hefur borið að sama brunni,“ segir hann.

Grundvöllurinn brostinn

Bjarni Stefánsson, loðdýra- og kúabóndi í Túni I, segist við það að ljúka slátrun, á um 2.000 læðum og svo hvolpum, og hefur verið að mestan hluta nóvember. „Já, þetta kom svolítið bratt því að aðrir voru að hætta og grundvöllurinn undir fóðurstöðinni því brostinn og búið að loka henni. Annars hefði ég verið í þessu eitthvað áfram,“ segir hann og bætir við að reksturinn hafi verið erfiður undanfarin ár. Hann sleppi þó með skrekkinn fjárhagslega þar sem hann sé með kúabúið en þessi hluti rekstursins hverfi.

Á Selfossi er því búið að loka Fóðurstöð Suðurlands sem framleiddi fóður fyrir fimm af sex minkabúum landsins. Hráefnið var að stærstum hluta fisk- og sláturúrgangur sem nú gæti mögulega farið í kjötmjölsvinnslu, að sögn Bjarna.

Hann er búinn að stunda loðdýrarækt í 34 ár og hefur gengið á ýmsu á þeim tíma. „Mér finnst bara mjög vont að loðdýrabúin hætti. Við höfum verið að búa til fóður úr úrgangi og náttúruafurð í klæði. Þetta hefur verið verðmætasköpun hérlendis og mikil sérhæfni. Segja má að þetta sýni hvernig landbúnaðarvörur með langt framleiðsluferli ganga á óheftum markaði,“ útskýrir hann.

Ekki án eftirsjár

Rekstrarumhverfið fyrir loðdýrarækt sé ekki gott hér á landi. „Krónan hefur styrkst sem er vont fyrir útflutninginn og vextir eru svakalegir. Laun eru síðan hærri hér en gerist í flestum samkeppnislöndum. Ef bændur hafa ekki laun í búgreininni, sem á við um fleiri búgreinar og jafnvel landbúnaðinn í heild hér á landi, þá veikist greinin. Svo kemur að þeim tímapunkti að hún hrynur,“ segir Bjarni. Hann er því að kveðja yfir þriggja áratuga starf og ekki án eftirsjár. Að slátra öllum dýrunum sé bæði sárt og erfitt.

Með því að greinin leggst nærfellt af í landinu gætu verið að tapast um tvö til þrjú störf á hverju af búunum fimm, og fleiri sé skinnaverkunin tekin inn í dæmið, en hún hefur farið fram í Túni I. Þá tapast tvö til þrjú störf í fóðurstöðinni.

Skylt efni: loðdýrarækt

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...