Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Feðginin Kristín Snorradóttir og Snorri Styrkársson í nýju garðyrkjustöðinni sinni á Reyðarfirði, Ilmbjörkinni garðyrkjustöð.
Feðginin Kristín Snorradóttir og Snorri Styrkársson í nýju garðyrkjustöðinni sinni á Reyðarfirði, Ilmbjörkinni garðyrkjustöð.
Mynd / Aðsend
Viðtal 13. mars 2025

Feðgin ætla sér stóra hluti

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nýir eigendur hafa tekið við rekstri garðyrkjustöðvarinnar á Reyðarfirði sem hingað til hefur verið kölluð Blómahornið.

Stöðin hefur breytt um nafn með nýjum eigendum en nafnið er Ilmbjörkin garðyrkjustöð en eigendur hennar eru feðginin Kristín Snorradóttir og Snorri Styrkársson á Reyðarfirði.

Sagan

Saga garðyrkjustöðvarinnar á Reyðarfirði nær aftur til ársins 2003, eða þegar Sólskógar reistu fyrsta gróðurhúsið, einfalt plasthús, sem markaði upphafið að ræktunarstarfseminni. Þremur árum síðar stækkaði stöðin enn frekar með byggingu „græna aðalhússins“, sem hefur síðan verið hjarta starfseminnar. Árið 2009 tók Anna Heiða Gunnarsdóttir við rekstrinum og gaf stöðinni nýtt nafn, eða Blómahornið. Hún hélt áfram að þróa aðstöðuna og bætti við öðru gróðurhúsi til að auka framleiðslugetuna og fjölbreytni í plöntuframboði. Í dag eru þrjú gróðurhús á lóðinni, auk sölusvæðis þar sem viðskiptavinir geta kynnt sér og keypt fjölbreyttar plöntutegundir. Stöðin hefur þróast úr einfaldri ræktunaraðstöðu í blómlega og lifandi garðyrkjustöð, sem þjónar Austfjörðum.

Mikið úrval í stöðinni

Þegar Kristín er spurð út í starfsemi stöðvarinnar hjá nýjum eigendum er hún fljót til svars. „Ilmbjörkin garðyrkjustöð er fjölbreytt garðyrkjustöð sem býður upp á mikið úrval af sumarblómum, pottaplöntum, fjölæringum, trjám og runnum, sem hentar íslenskum aðstæðum. Við leggjum mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum persónulega ráðgjöf og fræðslu um val og umhirðu plantna. Stöðin er einnig hugsuð sem vettvangur þar sem fólk getur notið umhverfisins, fengið innblástur og lært meira um garðyrkju. Við viljum stuðla að því að garðyrkja sé aðgengileg fyrir alla, óháð reynslu og aðstæðum.“

Miklir möguleikar

Kristín og pabbi hennar keyptu stöðina síðastliðið haust eftir að hafa haft augastað á henni í þó nokkurn tíma og litið á hana sem spennandi tækifæri. „Við teljum að í stöðinni séu margvíslegir mögulegir vaxtarsprotar í frekari framleiðslu. Garðyrkjustöðin er mikilvæg fyrir samfélagið og við vildum tryggja að hún héldi áfram að þjóna svæðinu. Við ákváðum að gefa stöðinni nýtt nafn, Ilmbjörkin garðyrkjustöð, sem endurspeglar tengsl við íslenska náttúru og nýtt upphaf,“ segir Kristín.

Olíukyndingunni skipt út

Þau eru spurð hvort einhverjar breytingar verði á stöðinni með nýjum eigendum.

„Já, við stefnum á töluverðar endurbætur og uppbyggingu. Við erum búin að setja upp varmadælukerfi, sem gerir okkur kleift að halda stöðinni opinni stærstan hluta ársins og skiptum þannig út olíukyndingu fyrir vistvæna lausn. Við fengum styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands til að fjármagna þetta verkefni. Það leiðir til þess að við aukum sjálfbærni stöðvarinnar og lækkum rekstrarkostnað til lengri tíma litið,“ segir Kristín og bætir við að það standi til að auka vöruúrvalið og framleiðsluna með fleiri plöntutegundum, sem henta íslenskum aðstæðum. Einnig sé verið að horfa til þess að nýta aðalgróðurhúsið undir frekari starfsemi, eins og í aðdraganda jóla og fleira.

Vefverslun í þróun

Feðginin eru nú að vinna að því að þróa nýja vefverslun þar sem fólk getur skoðað og pantað plöntur, auk þess að fá ráðgjöf um val og umhirðu. „Vefurinn mun bjóða upp á notendavæna og öfluga lausn fyrir garðyrkjuáhugafólk, m.a. með plöntuleit þar sem notendur geta auðveldlega fundið plöntur eftir skilyrðum eins og þoli, hæð, notkun, blómlit og fleiri breytum. Markmið okkar með vefnum er að gera garðyrkju aðgengilegri og auðveldari fyrir alla sem hafa áhuga á að rækta fallegt og heilbrigt umhverfi í kringum sig,“ segir Kristín.

Mikill ræktunaráhugi á Austurlandi

Feðginin segja mikinn áhuga á ræktun á Austurlandi og sífellt fleiri leggi rækt við garðinn sinn, hvort sem það er til fegrunar, matjurtaræktunar eða umhverfisvænna lausna. „Það má þó alltaf bæta úr því, og einmitt þess vegna er ég hér til að veita fólki innblástur, þekkingu og aðgang að góðum plöntum sem henta íslenskum aðstæðum með áherslu á veðurfarið á Austurlandi,“ segir Kristín hlæjandi.

Sumarið undirbúið

Kristín og Snorri eru núna að undirbúa sumarið með sáningu og ræktun sumarblóma en opna stöðina formlega á sumardaginn fyrsta með opnunarhátíð, þar sem þau munu kynna starfsemina, bjóða upp á léttar veitingar og taka fagnandi á móti gestum. „Við erum spennt og full tilhlökkunar fyrir þessu verkefni. Það er bæði áskorun og mikil tækifæri að taka við garðyrkjustöð og byggja hana upp með nýrri sýn. Við sjáum mikla möguleika í að þróa starfsemina áfram, auka framboð plantna og auka þjónustu við viðskiptavini. Þó verkefnið krefjist mikillar vinnu er það ótrúlega gefandi. Við hlökkum til að byggja upp langtímasamband við viðskiptavini okkar og styðja við enn grænna og fallegra umhverfi á Austurlandi,“ segir Kristín.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...