Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Sjálfbærnistigakerfi Arla byggir á mismunandi þáttum í rekstri hvers kúabús og hefur það að markmiði að hjálpa kúabúum að draga úr sótspori mjólkurframleiðslunnar.
Sjálfbærnistigakerfi Arla byggir á mismunandi þáttum í rekstri hvers kúabús og hefur það að markmiði að hjálpa kúabúum að draga úr sótspori mjólkurframleiðslunnar.
Mynd / Arla
Á faglegum nótum 14. maí 2025

Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2025 – þriðji hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Kvægkongres 2025, árlegt og einkar áhugavert fagþing hinnar dönsku nautgriparæktar, var haldið í lok febrúar sl. og líkt og undanfarin ár voru þar fluttir ótal fyrirlestrar sem eiga margir hverjir erindi við íslenska bændur og annað fagfólk í nautgriparækt.

Fagþingið, sem er í senn bæði ársfundur félagasamtaka danskra nautgripabænda og fagfundur helsta vísindafólks í greininni, stóð í tvo daga og var skipt upp í 12 málstofur með tugum erinda. Í síðasta Bændablaði var annar hluti umfjöllunar um fagþingið og nú verður haldið áfram með umfjöllunina og gripið niður í nokkur áhugaverð erindi sem voru flutt í málstofunum um samfélagsábyrgð og heilbrigði og velferð dýra.

6. Samfélagsábyrgð

Þessi málstofa var sérlega áhugaverð en efni hennar sneri að því hvernig danskur landbúnaður er að takast á við umhverfismálin af festu, sem skiptir miklu máli þegar kemur að sölu landbúnaðarafurða enda skiptir t.d. sótspor afurða marga neytendur miklu máli. Auk þess eru í dag til í Danmörku ótal mismunandi flokkar merkinga þar sem dýravelferð, og mismunandi áherslur á þætti sem snerta velferð dýra, er sérstaklega aðgreind t.d. með sérstökum vörumerkjum, vottunum o.þ.h. Í þessari málstofu voru flutt 6 erindi sem mörg hver voru fyrst og fremst aðlöguð að dönskum aðstæðum og e.t.v. ekki beint heimfæranleg á íslenskar aðstæður. Erindi þeirra Torben Kjærsgaard Sønderby, kúabónda og eins af sjö þúsund kúabændum sem eiga norður-evrópska afurðafélagið Arla, og Ejnar Schultz framkvæmdastjóra hjá Arla, á þó erindi út fyrir danska landgrunnið enda fóru þeir yfir það hvernig afurðastöðvar í mjólkuriðnaði í dag hafa aðlagað uppbyggingu afurðastöðvaverðs síns í takti við auknar umhverfiskröfur neytenda og markaða.

Sjálfbærnistig

Afurðafélagið Arla, sem er eitt af þeim stærstu í heimi, markaði skýra umhverfisstefnu fyrir mörgum árum síðan og einsetti sér að vera sótsporslaust árið 2050 líkt og mörg önnur félög og fyrirtæki í sömu atvinnugrein hafa gert í dag. Til þess að ná þessu takmarki hefur félagið sett upp nýtt kerfi til þess að borga bændum fyrir mjólk og byggir það á því hve vel búin standa þegar kemur að mælingu á sótspori þeirra og sjálfbærni. Þetta nýja kerfi byggir á sérstakri einkunnagjöf kúabúa og geta þau fengið allt að 80 sjálfbærnistig og því fleiri stig sem búið nær, því hærra verður afurðastöðvaverðið frá Arla til viðkomandi kúabús en árlega borgar Arla eigendum sínum 500 milljónir evra aukalega fyrir þennan eina þátt, eða sem nemur 73 milljörðum íslenskra króna. Árleg greiðsla til hvers bús að meðaltali, fyrir sjálfbærnistig, er því rétt um 10 milljónir íslenskra króna, eða um 4–5 krónur á innveginn lítra að jafnaði.

Sex meginflokkar

Sjálfbærnimælingin byggir á sex meginflokkum og er misjafnt hve mikið hver flokkur vegur inn í afurðastöðvaverðið. Meginflokkurinn kallast einfaldlega „Hinir fimm stóru“ og vísar til þess að innan þessa flokks er í raun mest að sækja fyrir kúabændur. Þessir undirflokkar eru fóður-, prótein- og mykjunýting, landnotkun og ending gripa. Innan hvers undirflokks gefa bændur sér svo mismunandi mörg stig eftir því hvernig staðan er á kúabúum þeirra. Alls geta bændur fengið 49 stig fyrir þennan meginflokk við sjálfbærnimat kúabúa sinna.

Næsti flokkur kallast „Sjálfbært fóður“ og geta bændur fengið 11 stig fyrir þennan flokk. Hér vegur þyngst til frádráttar á stigum ef kúabúið notast við innflutt soja.

Þriðji flokkurinn kallast „Líffræðilegur fjölbreytileiki og binding kolefnis“ og hér fá bændur allt að 8 stig fyrir þætti eins og beit nautgripa en í Danmörku er ekki skylda að setja kýr á beit á sumrin svo dæmi sé tekið. Þeir sem það gera geta fengið 2 stig fyrir það eitt! Þá gefur þessi flokkur möguleika á stigagjöf ef ekki er mikið um einærar jurtir í notkun þar sem það kallar á opin flög sem halda verr næringarefnum og þá geta þeir fengið eitt stig fyrir það eitt að láta taka jarðvegssýni árlega!

Fjórði flokkurinn snýr að því hvernig mykjan er geymd og meðhöndluð áður en hún er borin á tún eða akra. Þessi flokkur gefur allt að sex stig og hér vegur þyngst ef mykjan er notuð í hauggasframleiðslu eða sýrð enda verður þá minni uppgufun köfnunarefnis þegar henni er ekið út.

Fimmti flokkurinn gefur allt að fimm stig en til að fá þau þarf öll raforkan að vera vottuð græn, þ.e. sjálfbær. Væri fróðlegt í því sambandi að sjá hvernig hún væri metin á Íslandi þegar margir raforkusalar hafa selt upprunavottorðin til útlanda og þrátt fyrir að orkan sé klárlega græn á Íslandi þá telst hún ekki 100% græn! Það er annað mál og allt hið furðulegasta, ljóst er að ekki er hægt að telja græna orku oftar en einu sinni og það er eitt af því sem Arla tekur inn í þetta og við skráningu bændanna á þessum flokki þarf að senda inn vottorð um uppruna orkunnar.

Sjötti og síðasti flokkurinn gefur ekki nema eitt stig en er þó áhugaverður og geta kúabú fengið þetta stig fyrir það eitt að taka þátt í viðburðum eða rannsóknum sem auka þekkingu á og innan nautgriparæktar með einum eða öðrum hætti. Dæmi um þetta er t.d. að bjóða fram bú sín á viðburði eða rannsóknir.

Bændurnir gefa sér sjálfir einkunn

Það sem er áhugavert við þetta nýja matskerfi Arla er að kúabændurnir gefa sér sjálfir einkunn, þ.e. senda inn til Arla upplýsingar um það hvernig viðkomandi bú standa sig á þessum einkunnaskala sem hefur svo bein áhrif á afurðastöðvaverðið.

Margir kynnu að halda að þetta myndi klárlega leiða til misnotkunar, þ.e. að einhver bóndinn myndi einfaldlega senda inn kolrangar upplýsingar til þess að fá sem hæst verð en Arla hefur metið það svo að líkurnar á því séu litlar.

Í fyrsta lagi vegur þessi hluti afurðastöðvaverðsins ekki svo þungt í heildarverðinu og í öðru lagi væri það mikil áhætta sem bóndinn tæki með því að gefa upp rangar upplýsingar. Hann er sjálfur einn af eigendum fyrirtækisins og með því að gefa vísvitandi rangar upplýsingar væri hann að dæma sjálfan sig úr eigendahópi félagsins, þar væri miklu fórnað fyrir lítið. Þess utan er Arla með rafrænt eftirlit og getur sent fulltrúa í heimsókn á bú ef grunur er um að ranglega sé staðið að upplýsingagjöf.

7. Heilbrigði og velferð dýra

Eitt stærsta hagsmunamál allra kúabænda er gott heilbrigði gripanna og þessi málstofa beindi sjónum sínum að því viðamikla verkefni með átta erindum. Undanfarin misseri hefur sjúkdómurinn blátunga, sem er sjúkdómur í jórturdýrum, geisað í mörgum löndum Evrópu og m.a. komið upp í Danmörku. Þetta er veirusjúkdómur sem er algengur víða um heim og berst milli dýra með flugum sem eru af sömu ætt og lúsmý. Danmörk var í raun laus við þennan vírus en síðasta ár kom upp smit og hefur síðan borist nokkuð um landið. Þá hefur fuglaflensa greinst í bandarískum nautgripahjörðum og bændur víða eðlilega uggandi yfir þróuninni enda virðist fuglaflensan nú geta smitað kýr og ef þær veikjast fellur mjólkurframleiðslan hratt svo dæmi sé tekið. Enn fremur hafa komið upp tilfelli af gin- og klaufaveiki í Evrópu nýverið svo full ástæða er til þess að hafa varann á sér. Fyrir vikið eru danskir bændur uppteknir af því að takast á við óvænta sjúkdóma og sneru sum erindi að því hver staðan er og hvernig hægt sé að bregðast við. Þar sem þessir sjúkdómar eru afar ólíklegir til að berast til Íslands á næstunni verður ekki fjallað um þessi erindi hér, en áhugasömum þó bent á að hægt er að skoða þau með því að nota hlekkinn sem vísað er til hér neðst í greininni.

Samkvæmt dönskum ráðleggingum ætti að meta helti kúa vikulega á öllum kúabúum og nota við það þekkt alþjóðlegt kerfi við heltismat. Mynd / Úr bókinni Nautgriparækt (2021).

Helti hjá kúm

Af öðrum áhugaverðum erindum málstofunnar má nefna erindi Anne Mette Danscher frá kynbótafyrirtækinu Viking Danmark og Peter Raundal frá SEGES en þau fjölluðu um það hvernig taka megi klaufheilbrigði föstum tökum. Tilfellið er, a.m.k. erlendis, að allt of margar kýr eiga við einhvers konar helti að etja og það er auðvitað óásættanlegt. Þess má geta að nærri 20 ára gömul íslensk rannsókn leiddi í ljós að á þeim tíma voru 8% kúa á Íslandi metnar haltar. Þau Anne og Peter sögðu helti hjá kúm eitt stærsta velferðarvandamál nútíma mjólkurframleiðslu og því yrðu kúabændur að leggja mun meiri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og taka fast á öllum vísbendingum um helti hjá kúm.

Digital Dermatitis

Erlendis er langalgengast að vandamál tengd helti stafi af sjúkdóminum Digital Dermatitis en honum valda bakteríur og orsaka húðbólgur rétt ofan við klaufirnar. Þessi sjúkdómur hefur ekki verið greindur á Íslandi svo greinarhöfundi sé kunnugt um. Af öðrum algengum fótakvillum í dönskum kúm, sem einnig finnast á Íslandi, má nefna klaufsperru, snúna klauf, klaufbotnasár, vefskemmdir í hvítu línunni og tvöfaldan botn. Allt þekkt vandamál sem valda helti í kúm og kom fram í máli þeirra Anne og Peter að of oft væru bændur að bregðast of seint við helti, þ.e. meðhöndla vandamálagripi í stað þess að vinna í því að koma í veg fyrir að vandamálin komi upp.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Þau sögðu að í raun væri mikilvægast, til að fyrirbyggja vandamál með klaufir, að vera ekki með of þétt á gripum svo smitálagið væri minna. Þá skipti máli að vera með vel hannaða legubása, hreint umhverfi svo kýrnar þurfi ekki að stíga í skít, passa sérstaklega vel upp á nýbærur og kvígur og að síðustu að vera með reglubundinn klaufskurð. Mestu skipti þó að vera vakandi yfir minnstu vísbendingum um helti hjá kúm, enda skipti máli að bregðast hratt við ef það kemur upp. Í því sambandi bentu þau á alþjóðlega heltismatið, sem m.a. má finna í vefútgáfu bókarinnar Nautgriparækt sem kom út árið 2021 og má nálgast á vef Bændasamtakanna, en þau ráðlögðu að allir starfsmenn hvers kúabús ættu að þekkja inn á þetta heltismat og í raun hafa það í huga daglega. Þá ættu kúabændur að koma sér upp fastri vinnureglu sem miðaði að því að heltismeta allar kýr á búum sínum einu sinni í viku. Væri það gert mætti grípa hratt inn í, ef á þyrfti að halda, og draga verulega úr neikvæðum áhrifum vegna heltis hjá kúm.

Aðrar málstofur

Eins og áður segir voru margar málstofur á þessu danska fagþingi nautgriparæktarinnar, og mörg erindi í hverri málstofu, og því nær ómögulegt að fara ítarlega yfir allt hið fjölbreytta en um leið áhugaverða efni sem þarna var sett fram. Áhugasömum lesendum er því enn á ný bent á að flest erindi ráðstefnunnar eru aðgengileg á vefslóðinni: https://www.kvaegkongres.dk/praesentationer/

Að meðhöndla kýr reglulega er hluti af fyrirbyggjandi aðgerðum sem bændur geta gert til að minnka líkur á helti. Mynd / SEGES.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...