Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Fæðuöryggi og landbúnaður
Mynd / ál
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Höfundur: Þröstur Helgason

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra stóð fyrir málþingi um stöðu þessara mála hér á landi í síðustu viku þar sem meðal annars var kynnt skýrsla um neyðarbirgðir fyrir íslenska matvælaframleiðslu og tillögur matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands að neyðarbirgðum matvæla á Íslandi. Það eru ekki síst stríð, farsóttir og loftslagsbreytingar sem hafa beint sjónum ráðafólks að því hversu viðkvæm samfélög geta verið þegar kemur að fæðuöryggi.

Almennt er staðan góð á Íslandi. Torfi Jóhannesson, höfundur fyrrnefndu skýrslunnar, segir í viðtali í blaðinu í dag að við stöndum býsna vel með öflugan og umfangsmikinn sjávarútveg og fiskeldi. „Hvort tveggja mjög samkeppnishæfar útflutningsgreinar. Eins erum við með búfjárrækt sem kemst ansi nálægt því að uppfylla innanlandsþarfir. Svo erum við með grænmetisframleiðslu þar sem leynast mikil sóknarfæri.“

Veikleikarnir felast hins vegar í því að við erum háð innflutningi hvað varðar kornvöru fyrir fólk og dýr. „Eins þegar kemur að ávöxtum, sykri, hnetum, olíum og fleiru. Þá þurfum við að flytja inn töluvert af öðrum aðföngum til matvælaframleiðslu,“ segir Torfi. Og þar með séu alþjóðaviðskipti mikilvæg fæðuöryggi hérlendis.

Torfi bendir á að sjálfsaflahlutfall Íslands í framleiðslu á kjöti, mjólk og grænmeti hafi lækkað. „Við þurfum ekki endilega að vera með hundrað prósent sjálfsaflahlutfall í öllum greinum en það er mikilvægt að stjórnvöld fylgist með og hafi á því einhverja skoðun hvar sársaukamörkin liggja.“ Hann bendir á beitingu verndartolla sem hækka verð á erlendum afurðum og skapa vernd fyrir íslenskar. Eins sé hægt að beita beinum ríkisstuðningi sem hjálpar bændum og í mjólkurframleiðslunni hjálpi opinber verðlagning. Á þessu séu alltaf einhver takmörk en grunnurinn sé að innlend framleiðsla sé samkeppnishæf.

Enn fremur bendir hann á að einangrað raforkukerfi sé veikleiki. Þar sem ekkert varaafl sé fáanlegt með sæstreng getum við lent í nokkurra daga rafmagnsleysi ef það verður alvarlegt áfall í raforkukerfinu.

Allt eru þetta grundvallaratriði þegar kemur að fæðuöryggi fólksins sem býr hér úti í miðju Norður-Atlantshafinu. Ólafur Ögmundarson, dósent og forseti matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands, kynnti svo tillögur að neyðarbirgðum matvæla á Íslandi. Í viðtali í blaðinu í dag segir hann horft til þess að neyðarbirgðir séu byggðar á matvælum sem hafa langt geymsluþol. „Við miðum við að 70 prósent orkunnar komi frá kornvörum og hrísgrjónum. Fimmtán prósent orkunnar ætti að koma frá sykri og fimmtán frá innlendum próteingjöfum, sem er kjöt og fiskur.“

Hann segir að til þess að auka viðnámsþrótt væri gott að auka fjölbreytileika í innlendri matvælaframleiðslu, og þá sérstaklega með áherslu á grænmeti til þess að uppfylla steinefna- og vítamínsþarfir.

Í því sambandi er forvitnilegt að Ólafur segir frá nýrri rannsókn sem unnið er að um þessar mundir sem leiðir í ljós að hægt væri að framleiða allt grænmeti sem Íslendingar þurfa með talsvert minni raforku en fer í öll gagnaver landsins eins og staðan er í dag.

Í ritstjórnargreinum hér í blaðinu á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið bent á mikilvægi þess að taka upplýstar ákvarðanir um það í hvað rafmagnið, sem framleitt er hér á landinu, fari. Mikilvægt sé að sú starfsemi, sem verður fyrir valinu, skili arði hér á landi og sem flestum störfum. Ylræktin gerir hvoru tveggja.

Almennt má draga þá ályktun af þessari yfirferð að landbúnaður gegnir grundvallarhlutverki í fæðuöryggi landsmanna og mikilvægt sé að hlú vel að starfsskilyrðum hans svo auka megi framleiðsluna.

Skylt efni: fæðuöryggi

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...