Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Rannsakendur á söndunum.
Rannsakendur á söndunum.
Á faglegum nótum 20. nóvember 2024

Er stærstu eyðimörk Evrópu að finna á Íslandi?

Höfundur: Pavla Dagsson-Waldhauserová, lektor og Steinar B. Aðalbjörnsson, verkefnastjóri hjá LbhÍ.

Flest höfum við heyrt um Saharaeyðimörkina og hvernig hún hefur stækkað undanfarna áratugi.

Sú stækkun er áhyggjuefni út af fyrir sig en afleiðingar stækkunarinnar eru meiri en bara þær að stærra landsvæði fer undir sand með þeim afleiðingum sem það hefur á landnýtingu, þ.m.t. á tækifærin til matvælaframleiðslu. Auk þess eru áhrif líka möguleg á loftgæði, heilsu, loftslag, orkuframleiðslu og öryggi þar sem rykmyndunin á sér stað og á nærliggjandi svæði, svo örfá dæmi séu tekin. Til viðbótar getur ryk sem þyrlast upp frá Sahara einnig verið til vandræða langt frá upptökum. Það sama á við hér á landi.

Spurningunni hvort stærstu eyðimörk í Evrópu sé að finna á Íslandi er hægt að svara játandi enda eru stærstu sandauðnir allrar Evrópu að finna hér á landi. Og þær hafa áhrif langt út fyrir Ísland.

Ryk hefur gríðarleg áhrif á loftslagsþætti, vistkerfi og heilsu og öryggi fólks. Stærstu sandauðnir Evrópu eru á Íslandi, um 40.000 ferkílómetrar, og þær eru stærstu uppsprettur ryks í Evrópu og á heimskautasvæðum (High Latitude Dust, HLD), með um 30–40 milljónir tonna af rykbornum efnum á ári.

Pavla Dagsson-Waldhauserová, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, hefur meðal annars beint rannsóknum sínum að rykmyndun og afdrifum ryks frá Íslandi. Pavla hefur áður fengið styrk úr Rannsóknasjóði Rannís til að vinna að því að svara spurningunni hver séu áhrif ryks frá Íslandi á loftslag heimskautasvæða. Pavla er einnig núverandi forseti Rykrannsóknafélags Íslands (RykÍs), leiðir vinnu undir Copernicusaráætlun Evrópusambandsins, CAMS NCP Ísland, sem vinnur að því að bæta loftgæðamælingar og auka vitund á umhverfisáskorunum á Íslandi, til dæmis í tengslum við rykstorma og gosösku. Pavla tekur auk þess þátt í fleiri verkefnum og samstarfsverkefnum á Norðurlöndunum og á evrópskum vettvangi.

Rykstormar eru mjög tíðir hér á landi (fleiri en 135 á ári) og getur rykið borist þúsundir km. Svifryk frá Íslandi er ekki notað í alþjóðlegum líkönum og er Landbúnaðarháskóli Íslands eini aðilinn sem spáir fyrir um rykmengun á Íslandi (sjá QR kóða í lok greinar). Einnig skortir mælingar á loftgæðum á svæðum þar sem vöktunarmyndavélar sýna háa tíðni rykstorma, þó betur hafi gengið undanfarin ár að safna gögnum og er 2024 fyrsta árið þar sem samfelldar mælingar hafa verið framkvæmdar.

Mikilvægt er að fylgjast vel með ryki og rykstormum hér á landi því íslenskt ryk er annars eðlis en dæmigert meginlandsryk eða ryk frá Sahara er varðar lit, stærð, lögun og efnasamsetningu, sem breytir áhrifum á loftslag, heimskautasvæði, heilsufar o.fl.

Til þess að sjá heildarmynd rykmyndunar hér á landi er mikilvægt að:

  1. nota „rykvöktun“ (dust monitoring) til að auka fræðilegan skilning á heimskautaryki og áhrifum þess,
  2. koma Íslandi inn í heimslíkön um rykframleiðslu og alþjóðlega þekkingu á ryki,
  3. ákvarða eðlisfræðilega og jarðefnafræðilega eiginleika ryksins og bera það saman við annað heimskautaryk og Sahara-ryk,
  4. ákvarða áhrif íslensks ryks á heimskautasvæði (cryosphere), vistfræði hafsvæða, ský og skýjamyndun og efnafræði veðrahvolfsins,
  5. vakta flutning Íslandsryks inn á heimskautasvæðin og til Evrópu.
Dróni settur á loft.

Lesið úr gögnum.

Af hverju eigum við að safna gögnum um háloftaryk á norðurslóðum?

Háloftaryk á norðurslóðum getur haft margvísleg neikvæð áhrif.

Ryk sem sest á snjó og ís getur gert yfirborð snjós og jökla dekkra sem dregur úr endurspeglun sólarljóss. Þetta veldur því að meira sólarljós og þar með meiri hiti festist í snjó og ís í stað þess að endurspeglast, en það getur leitt til aukinnar bráðnunar snjós og jökla. Þetta stuðlar að hækkun sjávarmáls og flýtir fyrir loftslagsbreytingum.

Auk þess geta rykagnir dregið til sín sólarljós og hita og þar með hitað upp andrúmsloftið, sem getur breytt veðurkerfum og stuðlað að hlýnun á ákveðnum svæðum, jafnvel langt frá uppruna ryksins.

Enn fremur verður meira af þurru landi berskjaldað, þegar ís og snjór bráðna, sem skapar tækifæri fyrir ryk að rísa upp í andrúmsloftið í enn meira magni. Slíkt leiðir þá aftur til meiri dreifingar og enn frekari mögnunar hringrásaráhrifa.

Fleiri neikvæð áhrif eru möguleg svo sem öndunarfæravandamál hjá mönnum og málleysingjum jafnvel á svæðum langt frá rykmyndunarstað og áhrif sem snúa að öryggi, til að mynda akstursskilyrði í rykstormum, svo dæmi sé tekin.

Því er mikilvægt að norðurslóðaryk verði rannsakað enn betur og hefur Pavla Dagsson-Waldhauserová ásamt öðrum vísindamönnum verið við störf undanfarna daga á söndunum við Mýrdalsjökul. Þar myndast iðulega rykstormar, einkum þegar vindasamt er.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...