Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Engin sérstök stefna fyrir norðlægan landbúnað – lærdómur frá nágrönnum
Lesendarýni 1. september 2025

Engin sérstök stefna fyrir norðlægan landbúnað – lærdómur frá nágrönnum

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar

Í umræðu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu er gjarnan vísað til þess að við gætum fengið „undanþágu fyrir landbúnað eins og Finnar og Svíar“. Hugmyndin hljómar einföld og sannfærandi, en hún stenst illa nánari skoðun. Finnar og Svíar fengu aldrei varanlega undanþágu frá sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB (CAP). Þeir fengu afmarkaðar heimildir til að viðhalda innlendum stuðningi á ákveðnum svæðum með mjög erfið framleiðsluskilyrði. Þessar heimildir voru frá upphafi hluti af CAP og fylgdu öllum reglum hennar.

Hvað er undanþága og hvað er aðlögunarheimild?
Erna Bjarnadóttir

Munurinn á undanþágu og aðlögunarheimild er lykilatriði. Undanþága þýðir að ríki sleppur við að fylgja tilteknum hluta reglnanna. Aðlögunarheimild, eins og Finnar og Svíar fengu árið 1995, felur hins vegar í sér að ríkið fylgir öllum reglum CAP en fær tímabundið leyfi til að bæta við innlendum stuðningi innan ákveðins ramma, með samþykki framkvæmdastjórnar ESB og reglulegri endurskoðun. Þetta er því ekki undanþága frá kerfinu, heldur sveigjanleiki innan þess sem sambandið getur samþykkt í tilteknum tilvikum og innan fyrir fram ákveðins ramma.

Ákvæði um stuðning Finnlands og Svíþjóðar

Ákvæðin sem um ræðir, 141. grein fyrir suður- og miðhluta Finnlands og 142. grein fyrir norðurhluta Finnlands og norðursvæði Svíþjóðar, byggðust á því að svæðin væru skilgreind út frá hlutlægum mælikvörðum eins og loftslagi, jarðvegi, aðgengi og breiddargráðu. Þau heimiluðu áframhaldandi innlendar greiðslur til framleiðenda þar, en aðeins að því marki sem stuðningurinn samræmdist reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og ríkisstyrkjareglum ESB.

Fyrir Ísland þýðir þetta að víðtæk, varanleg undanþága fyrir allt landið er ekki í boði, þegar litið er til niðurstöðu aðildarviðræðna fyrir Finnland og Svíþjóð. Ef aðild kæmi til greina myndi viðbótarstuðningur utan þess sem CAP sjálft býður að öllum líkindum aðeins ná til fárra, afmarkaðra svæða með erfiðustu framleiðsluskilyrðin. Þannig yrði núverandi stuðningskerfi hvorki haldið óbreyttu í eðli sínu né efni.

Fjármögnun ekki úr sameiginlegum sjóðum ESB

Þá þarf einnig að horfa til fjármögnunar. CAP byggir á sameiginlegum sjóðum sem öll aðildarríki greiða í. Lausnir eins og þær sem settar voru upp við aðild Finna og Svía fela hins vegar í sér stuðning úr ríkissjóði Finnlands og Svíþjóðar, ekki úr sameiginlega sjóðnum ESB. Ef Ísland semdi um slíkt ákvæði yrði sá stuðningur greiddur beint úr ríkissjóði, ofan á það sem landið myndi greiða til ESB fyrir að fá aðgang að almennum stuðningi CAP. Í reynd myndi því stór hluti stuðnings við landbúnað áfram vera fjármagnaður heima fyrir. Það vekur eðlilega spurninguna um hvers vegna fara ætti þá að senda fjármuni fyrst í gegnum Brussel, í stað þess að ráðstafa þeim beint innanlands.

Frá 1995 hafa reglur og forsendur stuðnings við landbúnað innan ESB breyst verulega. Reglur um ríkisaðstoð eru nú strangari, breytingar á sáttmála sambandsins hafa þrengt svigrúm fyrir sérákvæði og pólitískur vilji til slíkra samninga er lítill. Reynslan af stækkunum eftir 2004 hefur einnig gert framkvæmdastjórnina varkárari gagnvart því að opna á sérstök ákvæði fyrir ný aðildarríki. Í dag myndi ESB því fremur vísa til almennra verkfæra CAP fyrir svæði með erfið framleiðsluskilyrði, fremur en að setja slíkt ákvæði í aðildarsamning.

Norðlæg landbúnaðarstefna er ekki til

Því er ljóst að engin sérstök „norðlæg landbúnaðarstefna“ er til hjá ESB. Hugtakið hefur stundum verið notað í pólitískri umræðu og fjölmiðlum, en það vísar ekki til sérstaks fjármagnspakka eða sjálfstæðrar stefnu. Í reynd er um að ræða almenn verkfæri sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar sem öll aðildarríki geta nýtt, ef þau uppfylla skilyrðin.

Þetta þýðir að Ísland fengi ekki aðgang að sérhönnuðu fjármagni fyrir lönd á norðlægum breiddargráðum, heldur þyrfti að keppa um úthlutun fjármagns og heimilda á sömu forsendum og önnur aðildarríki. Þar myndu gildandi matskvarðar, eins og flokkun svæða með erfið framleiðsluskilyrði (ANC/LFA), ráða því hvaða aðgerðir og fjárhæðir kæmu til greina. Það er mikilvægt að greina milli raunverulegra heimilda og orðalags sem getur gefið ranga mynd af umfangi eða sérstöðu.

Fullveldið tryggir þjóðarhagsmuni

Greinar 141 og 142 sem fyrr er getið eru því ekki töfralausn fyrir Ísland, heldur sögulegt dæmi um tímabundinn sveigjanleika innan sameiginlegrar stefnu. Ef Ísland ætlar sér að vernda og þróa eigin landbúnað, er skynsamara að gera það á grundvelli fullveldisins með okkar eigin verkfærum og fjármunum innanlands fremur en að vera háð samþykki regluverks ESB.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f