Endurreisn íslenskra landbúnaðarvísinda
Staðan í rannsóknar- og kennslumálum landbúnaðarins er grafalvarleg. Í Landbúnaðarháskóla Íslands hefur fólki með akademískt hæfi eða doktorsgráðu á sviði landbúnaðar fækkað um nærri því einn á ári síðustu 20 ár. Ef fram heldur sem horfir verður bráðlega enginn eftir. Þessi fækkun hefur valdið miklum samdrætti í rannsóknum og ef ekki verður breyting á þessari þróun þarf hreinlega að leggja nám í búvísindum niður. Þrátt fyrir erfiða stöðu þá tel ég að vel sé hægt að snúa þróuninni við á nokkrum árum með réttum aðgerðum, og efla þar með framleiðni í íslenskum landbúnaði. Í þessari grein geri ég stuttlega grein fyrir vandanum og geri tillögu að lausnum sem ég beini til atvinnuvegaráðherra og forystumanna bænda.
Mennta- og ráðgjafarmál
Í landbúnaði er mikil vöntun á fólki með meistara- og doktorsgráðu í búvísindum fyrir rannsóknir, kennslu og ráðgjöf. Vingulsháttur stjórnvalda á menntakerfinu á síðustu árum hefur leitt til þess að nemendur eru verr undirbúnir þegar þeir hefja háskólanám en áður var, ekki síst í náttúrufræði og stærðfræði. Kennsla á BS stigi snýst því í auknum mæli um að kenna grunnatriði sem nemendur hefðu átt að tileinka sér í grunnskóla eða framhaldsskóla. Til viðbótar þessu hefur öllum sviðum búskapar fleygt fram, sem og fagmennsku og þekkingu bænda. Því er staðan sú að búvísindafólk þarf í auknum mæli að hafa meistara- eða doktorsgráðu til að vera gjaldgengir ráðunautar og kennarar. Þrátt fyrir marga öfluga ráðgjafa og ráðunauta þá er tilfinnanlegur skortur á framhaldsmenntuðu búvísindafólki.
Vandinn í rannsóknum
Helsti vandinn í landbúnaðarrannsóknum í dag er skortur á mannauði. Vissulega þyrfti að auka fjárveitingar til þessar rannsókna, sem ég geri tillögu um, en til að sækja fjármuni í samkeppnissjóði þarf réttan mannskap til að vinna verkefnin. Nú er til dæmis nær algjör vöntun á sviði plöntusjúkdómafræði, áburðar- og jarðvegsfræði, túngrasafræði, landbúnaðarbyggingum, og svo mætti lengi telja. Tilfinnanlegt er að nær engar tilraunir eru í grasrækt þrátt fyrir að íslenskur landbúnaður byggi mest á grasrækt. Það er helst á sviði kornræktar, og erfða- og kynbótafræði sem staðan er að styrkjast. Með áðurnefndri fækkun búvísindamanna hafa síðan mikilvæg tengsl við kollega öðrum löndum tapast, en vísindastarf einkennist í sívaxandi mæli af alþjóðlegu samstarfi. Þessi tengsl þarf að endurheimta.
Hvernig byggjum við upp rannsóknastarf í landbúnaði?
Til að byggja upp háskólastarfsemi á sviði landbúnaðarvísinda þarf að ráða akademískt starfsfólk, það er að jafnaði fólk með doktorsgráðu á fræðasviðinu, sem hefur „sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði“ (Lög um opinbera háskóla nr. 85/12. júní). Svona fólk liggur ekki á lausu. Fáar umsóknir hafa verið um þessi störf og launin eru illa samkeppnishæf við önnur störf í atvinnulífinu. Landbúnaðarháskóli Íslands getur ekki menntað þetta fólk sem stendur því háskóli hefur einungis burði til að bjóða upp á doktorsnám á þeim sviðum þar sem hann stendur sterkur. Þá er ekki annað í boði en sækja þekkinguna út fyrir landsteinana. Það hefur í árhundruð verið aðferð þessarar þjóðar við ysta haf til þess að sækja erlendan vísdóm, eða nam ekki Sæmundur fróði í Svartaskóla? Tvennt er í boði, annars vegar að ungir Íslendingar fari út, nemi fróðleik við erlenda háskóla og færi heim, hins vegar að ráða erlenda sérfræðinga. Það þarf að gera hvort tveggja en í þessari grein vil ég fjalla um fyrri kostinn.
Sendum Íslendinga í doktorsnám erlendis
Landbúnaðurinn sem atvinnugrein getur ekki beðið eftir því að framhaldsmenntað fólk spretti skyndilega upp og blómstri eins og túnfíflar í skarnahaugi heldur þarf nú að taka málin í eigin hendur. Mín tillaga er þessi: stjórnvöld, bændur og fyrirtæki í landbúnaði sameinist um að styrkja ungt búvísindafólk til doktorsnáms við erlenda háskóla á þeim sviðum sem helst kreppir að skóinn. Heimkomnir eru þessir doktorsmenntuðu búvísindamenn lykilmenn endurreisnarinnar sem lektorar við íslenska háskóla, ráðunautar og sérfræðingar, með mikilvægar tengingar við erlenda háskóla og vísindamenn. Með tíð og tíma verður hægt að byggja upp öflugri rannsóknir með meira fjármagni úr samkeppnissjóðum, og öflugt innlent framhaldsnám á fleiri sviðum búvísinda.
Aðkoma stjórnvalda og Bændasamtaka
Búvörusamningar renna út á næsta ári. Ég legg til að stjórnvöld og Bændasamtökin geri að markmiði að efla menntun, rannsóknir og ráðgjöf á sviði landbúnaðar. Fjárfesting í menntun og rannsóknum í landbúnaði er almannagæði sem nýtist öllu samfélaginu og felur ekki í sér markaðsskekkjandi inngrip. Ýmsar vísbendingar eru um að ónóg sé gert í opinberum stuðningi við menntun og rannsóknir. Þar er helst að nefna nýlega samantekt Efnahags- og framfarastofnunar á stuðningi við landbúnað sem benti á hversu lágt hlutfall af stuðningi við landbúnað á Íslandi renni til þjónustu við landbúnaðinn. (OECD, 2025, Agricultural Policy Monitoring and Evaluation 2025: Making the Most of the Trade and Environment Nexus in Agriculture). Þessi lélega forgangsröðun stjórnvalda endurspeglast í þeirri sorglegu þróun sem orðið hefur með fækkun búvísindamanna og samdrátt í rannsóknum.
Sameiningarmál
Ég hef vikið að sameiningu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskóla Íslands í grein sem birtist á Vísi 30. september síðastliðinn. Slík sameining myndi hjálpa til við að efla menntun á BS stigi og bjóða upp á breitt framhaldsnám í búvísindum en myndi þó ekki duga eitt og sér. Stjórnvöld hafa aftur á móti birt áætlanir um sameiningu Keldna og Landbúnaðarháskóla Íslands í háskólasamstæðu innan Háskóla Íslands. Ef það er vilji stjórnvalda þá legg ég til að farin yrði sú leið að stofna sérstaka Landbúnaðardeild Háskóla Íslands á Hvanneyri. Frá upphafi yrði að gera ráð fyrir hlutverki í landbúnaðarrannsóknum. Alls engar sameiningar án fyrirhyggju. Það hefur verið gert of oft í landbúnaðarmálum.
Fjármögnun rannsókna
Sömuleiðis þarf að efla og stækka rannsóknarsjóði landbúnaðarins. Þróunarfé búgreina hefur á liðnum árum verið notað á skynsaman hátt í ýmis minni en mikilvæg verkefni. Ég tel að það þurfi að auka verulega við þróunarféð. Úthlutun þróunarfjárins er í höndum bænda, sem vita allra best hvaða rannsókna er þörf. Ég legg sömuleiðis til að aukin sé hlutdeild rannsókna í úthlutun Matvælasjóðs, og hluta hans sé ætlaður sérstaklega til landbúnaðarrannsókna. Landbúnaðarhluta Matvælasjóðs og þróunarfé ætti að nýta meðal annars til að styrkja meistara og doktorsnema á sviði landbúnaðar, jafnt við erlenda háskóla sem innlenda. Ég legg til að þróunarfé verði á tímabili næsta búvörusamnings hækkað í 800 m.kr. á ári og að auki verði 150 m.kr. á ári í Matvælasjóði eyrnamerkt landbúnaðarrannsóknum. Þetta væri einungis örlítill hluti af heildarstuðningi við landbúnaðinn.
Sókn í landbúnaðarmálum
Íslendingum vilja flestir standa vörð um íslenskan landbúnað og til þess er veitt miklum opinberum fjármunum. Því skýtur það skökku við, ef meiningin er að standa vörð um þessa atvinnugrein, ef forystumenn bænda og stjórnvöld ætla að fylgjast með landbúnaðarvísindum hnigna án aðgerða. Mínar tillögur munu auka framleiðni og tryggja stöðu landbúnaðarins sem burðarás í íslenskum sveitum til framtíðar. Algjört lykilatriði er að fjölga búvísindafólki með doktorspróf til að manna lektorsog sérfræðingastöður við innlenda háskóla og rannsóknarstofnanir. Um langan tíma hefur umræða um landbúnaðarmál einkennst annars vegar af bölsýni, og hins vegar af furðulegri óskhyggju. Hvoru tveggja er sennilega viðbragð við mjög alvarlegri stöðu. Ég vona að atvinnuvegaráðherra, Bændasamtökin og aðrir aðilar landbúnaðarins sameinist um að hefja raunverulega sókn í búnaðarmálum með endurreisn íslenskra landbúnaðarvísinda.
